Vönduð vinnubrögð ?

0
212

Svör meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar við spurningum sem 641.is óskaði eftir varðandi viðhald á Þingeyjarskóla, voru birt hér á 641.is í morgun og þakka ber skjót svör frá meirihlutanum. Ég hefði kosið að hægt hefði verið að svara þessum spurningum nánar, því það brennur mjög á fólki að fá fréttir af því hvaða endurbætur við Þingeyjarskóla á að fara út í og hve mikið þær munu kosta. En vonandi fást svör við þessu síðar.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

 

En meirihlutinn bætir um betur og varpar fram þremur spurningum til mín (641.is) í lok svarbréfsins. Mér er það ljúft og skyllt að svara þessum spurningum, þó mér finnist þær undarlegar. Þegar ráðandi öfl eru farin að gagnrýna fréttaflutning staðarmiðils er ekki hægt að áætla annað en þau þoli gagnrýni illa og vilji helst fá að vera í friði með sín verkefni án þess að fjölmiðlar sé eitthvað að spyrja spurninga. Hjá þessu hefði verið hægt að komast ef ráðandi öfl stæðu við kosningaloforðin sín um gegnsæi og samtal víð íbúanna, eins og það var orðað fyrir kosningar.

 

Spurt var:
Er hún (641.is) netmiðill sem flytur fréttir úr héraði?
Svar: Já og þarfnast ekki frekari útskýringa, því þetta liggur í augum uppi og hefur verið árum saman.

Spurt var líka:
Er hún (641.is) málgagn T-listans og eða þeirra sem ekki eru sammála stefnu meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar? Og… Er hún (641.is) áróðursblogg sem þjónar og mótast af persónulegum skoðunum eigandans?

Svar 641.is við spurningu nr. 2 og 3. Er nei, enda er 641.is hvorki málgagn T-listans né Samstöðulistans eða þeirra sem eru sammála eða ósammála stefnu meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar. 641.is er fréttavefur, ekki blogg og mótast ekki af persónulegum skoðunum eigandans, svo að það sé á hreinu.

Meirihlutinn virðist ekki átta sig á því að þetta voru leiðaraskrif og ég varpaði fram fjórum spurningum í umræddum leiðara. Þetta var ekki frétt. Ritstjóri fréttamiðils hefur að sjálfsögðu ritstjórnarlegt frelsi til þess að skrifa um hvað sem hann vill í leiðara, því um leiðaraskrif gilda aðrar reglur en hefðbundnar fréttir. Ég geri ráð fyrir að það hafi farið framhjá meirihlutanum. Ég trúi ekki öðru.

Í niðurlagi bréfsins segir:

“Jafn gott og mikilvægt og það er að hafa fréttamiðil í sveitarfélaginu sem þjónar hagsmunum íbúanna þá er því miður ekki hægt að líta á miðil sem fréttamiðil sem flytur bara einhliða fréttir. Það eru ekki hagsmunir íbúa að fá að vita hlutina út frá afstöðu einstakra hópa. Öll höfum við gott af gagnrýni en gagnrýni sem er einhliða getur ekki þjónað hagsmunum íbúa, íbúar eiga skilið að vita báðar hliðar. Allir eru frjálsir að skoðunum sínum og gott að sem flest sjónarmið komi fram. Það er vont þegar aðilar sigla undir fölsku flaggi. Ef um persónulegar skoðanir er að ræða hjá 641 þá væri best að miðillinn héti réttu nafni „bloggmiðill Hermanns“. Ef miðillinn er að þjóna einhverjum sérstökum hópi þá væri best að hann héti eftir þeim hópi. Ef miðillinn trúir því í alvöru að hann sé að flytja okkur óhlutbundnar fréttir þá er það okkar skoðun að það vanti talsvert þar uppá og við biðjum um að menn vandi vinnubrögð”.

Hér nefnir meirihlutinn “einhliða fréttir” og “einhliða gagnrýni” hjá 641.is. Skoðum það aðeins nánar. Eins og þeir vita sem fylgst hafa með fréttum á 641.is í vetur að þá hafa fréttir af skólamálum borið hátt og ekkert undarlegt við það. Ákvörðunin um að sameina starfsstöð Þingeyjarskóla á einn stað var stór og alls ekki einföld og ekki hafin yfir gagnrýni. Það var vitað að sumir íbúar yrðu ekki ánægðir með þá niðurstöðu. Vandamálið við þetta var og er það, að ráðandi öfl, þið sem skipið meirihlutann í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar, hafið ekki tjáð ykkur neitt um þetta fyrir utan pistil á vef þingeyjarsveitar í desember. Það hefur alltaf þurft að gagna á eftir ykkur með spurningar um ferlið, hvað gerist næst og svo framvegis. Datt ykkur aldrei í hug að það væri snjallt að senda inn pistla á 641.is þar sem skýrt er út hvað þið eruð að gera og hvað framtíðin ber í skauti sér ? Þið eruð jú ráðandi aflið í Þingeyjarsveit. Það er óumdeilt. Það geta allir sent inn efni til birtingar í dálkinn “Umræðan” hér á 641.is. Hvert og eitt ykkar hefði svo vel getað gert það. Ég hef aldrei neitað neinum pistli um birtingu á 641.is. Allt sem ég hef fengið sent hefur verið birt. Það fá allir að tjá sig sem kæra sig um. Það hefur bara ekki verið nýtt. Gott dæmi um að ég birti allt, er einmitt seinni hluti bréfsins sem þið senduð mér og ég birti í morgun. Eitthvað sem ekki allir hefðu gert.

Og talandi um vandaðri vinnubrögð…

Ykkur hefur tekist með alveg ótrúlegum hætti að klúðra sumum málum svo um munar. Dæmi um það er skipan starfshóps um mótvægisaðgerðir. Hópurinn hélt einn fund sem stóð í 16 mínútur og svo var starfshópurinn lagður niður. Svo þurfti að ganga á eftir ykkur til að fá birtan lista yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra Þingeyjarskóla, eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt og eðlilegt að birta strax eftir að umsóknarfresturinn er liðinn. Það átti ekki að birta hann fyrr en búið væri að ráða nýjan skólastjóra.

Að maður tali nú ekki um kennarabréfin sem fjórir kennarar fengu um daginn. Líklega mesta klúðrið hingað til. Klaufalegt orðalag bréfanna vakti athygli langt út fyrir Þingeyjarsveit. Þá vildi enginn tjá sig, þó eftir því væri leitað.

Allt tal um óvönduð vinnubrögð hjá 641.is er hlægilegt í þessum samanburði.

 

En þetta er auðvelt að laga. Ég ætla hér með að bjóða meirihlutanum að fá sérstakan dálk á 641.is, sem gæti fengið heitið “Frá Sveitarstjórn”. Þar getið þið komið á framfæri öllu því sem þið viljið koma frá ykkur og uppfyllt loforðin um opna stjórnsýslu og samræðu við íbúana. Mánaðarlegur pistill væri gott. Minnihluti T-listans fær líka að koma sínu á framfæri á 641.is ef hann kýs. Hvernig hljómar þetta ?

 

Með von um að veðrið batni. Hermann Aðalsteinsson ritstjóri.