Vitum ekki hvað við eigum að segja við börnin

0
89

Aðalfundur foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar var haldinn sl. þriðjudagskvöld í Litlulaugaskóla í Reykjadal. Fundurinn var fjölsóttur og að loknum venjulegum aðalfundarstörfum fóru fram umræður um þá ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að sameina allt grunnskólahald Þingeyjarskóla á Hafralæk frá og með 1. ágúst 2015, en tilkynnt var um þá ákvörðun sl. fimmtudag.

Litlulaugaskóli
Litlulaugaskóli

 

Allir foreldrar sem tjáðu sig á fundinum, voru mjög óánægðir með þá ákvörðun að leggja kennslu af í Litlulaugaskóla frá og með næsta vori. Þá lýstu foreldrar furðu á því að engin greinargerð né rökstuðningur skyldi fylgja með ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar.

 

“Sú óvissa sem nú ríktir eftir þessa ákvörðun kemur niður á skólastarfinu. Við vitum ekki hvað við eigum að segja við börnin. Við vitum ekki hvort við höfum vinnu næsta vetur. Við vitum ekki hvort við munum búa hér næsta vetur”, var meðal þess sem fram komi í máli starfsfólks, foreldra og kennara við Litlulaugaskóla á fundinum.

 

Aðalfundurinn samþykkti neðangreindar ályktanir á fundinum og verða þær sendar til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar.

 

Aðalfundur Foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar haldinn í Litlulaugaskóla þriðjudaginn 9. desember 2014 hvetur meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar til þess að endurskoða þá tillögu sína að leggja niður Litlulaugaskóla og að finna framtíðarlausn í skólamálum í sveitarfélaginu sem um getur ríkt almenn sátt meðal íbúanna.

Aðalfundur Foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar haldinn í Litlulaugaskóla þriðjudaginn 9. desember 2014 óskar eftir því við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að hún leggi fram öll þau gögn sem liggja til grundvallar þeirri tillögu hennar um að loka Litlulaugaskóladeild Þingeyjarskóla og flytja allt skólastarf í Hafralækjarskóla.

Fundur foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar haldinn í Litlulaugaskóla 9. desember 2014 lýsir yfir áhyggjum sínum við sveitarstjórn af því að leggja eigi niður grunnskóla á Laugum vegna þeirra áhrifa sem það gæti haft á tengingu milli skólastiga og starfsemi Framhaldsskólans á Laugum og leikskólans Krílabæjar

Aðalfundur Foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar haldinn í Litlulaugaskóla þriðjudaginn 9. desember 2014 fagnar því að nemendum grunnskóladeildar Litlulaugaskóla hafi boðist sálfræðiþjónusta í skólanum í dag, En lýsir um leið undrun sinni á því að ekki hafi verið gerðar neinar ráðstafanir áður en tillaga meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að loka Litlulaugaskóla frá og með næsta hausti, var tilkynnt opinberlega til þess að mæta þeim aðstæðum sem þó fyrirsjáanlegt var að myndu skapast meðal starfsfólks og nemenda á báðum starfsstöðvum.