Vinnum með atvinnulífinu en ekki á móti

0
52

Það er lykilatriði til þess að við Íslendingar komumst á fæturna á nýjan leik og sækjum fram að atvinnulífinu í landinu sé búið það starfsumhverfi að það fái dafnað og sé fært um að skapa ný störf.

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson

Án öflugs atvinnulífs getum við ekki staðið undir því velferðarkerfi sem við öll kjósum. Það er afar brýnt að einfalda skattkerfið í því skyni að örva atvinnulífið og þá verður að eyða óvissu um grundvöll og starfsemi einstaka atvinnugreina.

Við viljum vinna með atvinnulífinu en ekki á móti, eins og núverandi ríkisstjórn hefur verið þekkt fyrir.

Það eru ennþá alltof margir á atvinnuleysisskrá í landinu og þessum vinnufúsu höndum þurfum við að koma sem fyrst til verka.

 

Við sjálfstæðismenn teljum brýnt að lækka tryggingagjald til þess að auka svigrúm þess til þessa að fjölga starfsmönnum og greiða hærri laun.

Sóknarfærin í atvinnulífinu eru alls staðar í kringum okkur. Við verðum að nýta auðlindir til þess að skapa atvinnu og þá vísa ég bæði til náttúruauðlinda til lands og sjávar og mannauðsins – hugvits og menntunar.

Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda nú að skapa fyrirtækjum og fólki í landinu stöðugleika í efnahagsmálum og á atvinnumarkaði. Á næsta kjörtímabili verður að skapa víðtæka þjóðarsátt þar sem stjórnvöld, verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og helstu hagsmunaðilar setjist að sama borði og standi ekki upp frá verki fyrr en tekist hefur að byggja undir víðtæka sameiginlega sátt um helstu verkefni hins opinbera, um þróun vinnumarkaðar og samskipti við aðrar þjóðir.

Atvinnulífið hefur staðið á bremsunni alltof lengi með fjárfestingar vegna óstöðugleika í efnahagslífinu og óvissu um hvað morgundagurinn beri í skauti sér. Þessari óvissu verður að eyða og um leið að skapa atvinnulífinu tækifæri til þess að horfa fram í tímann og ráðast í fjárfestingar.

Kristján Þór Júlíusson.

Höfundur er alþingismaður og skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.