Vinnandi peningar

0
270

Ungur heyrði ég sagt, og haft eftir Hannesi Hólmsteini, að það væri eitt sem Íslendingar kynnu ekki en þyrftu umfram annað að læra. Þeir þyrftu að hætta að vinna hörðum höndum fyrir peninga, en tileinka sér þess í stað þá list að láta peningana vinna fyrir sig. Því er ekki að neita að fyrir mann eins og mig sem alltaf hefur fundist meira freistandi að halda áfram að sofa en að hætta því, einkum á morgnana, þá hljómaði þetta dálítið spennandi. Og í gegnum árin hef ég velt þessu fyrir mér, en aldrei alveg skilið þetta. Ýmsar aðferðir eru þó til, ein er svona.

Gísli Sigurðsson
Gísli Sigurðsson

Þú stofnar eignarhaldsfélag. Eignarhaldsfélagið kaupir fyrirtæki, t.d. banka eða byggingavöruverslun. Verðið skiptir ekki máli því eignarhaldsfélagið tekur kaupverðið að láni. Þú sameinar síðan eignarhaldsfélagið fyrirtækinu sem keypt var, og þar með er skuld eignarhaldsfélagsins orðin skuld fyrirtækisins. Þannig að fyrirtækið sem þú varst að kaupa, borgar sjálft kaupverðið. Svo metur þú upp allar eignir fyrirtækisins og viðskiptavild (sem aldrei er nógu hátt metin) og myndar þannig heilmiklar eignatekjur sem stórbæta afkomuna. Svo borgarðu þér ríflegan arð, og þar sem afkoman er orðin svona miklu betri en hún áður var þá selurðu aftur á mun hærra verði en þú keyptir.

Þannig hirðir þú bæði arðinn og söluverðið. Svo hefurðu það bara huggulegt.

Þetta er nú ekki flókið. Raunar svo einfalt að maður skilur ekki af hverju það drífa ekki allir í þessu, hver einasti maður. Eða hvað, eru kannski á þessu einhverjir gallar?

Þegar betur er að gáð þá er sennilega ekki gott að allir fari í þetta. Einhver þarf að afgreiða kampavínið sem þú þarft til að fagna góðum árangri. Einhver þarf líka að búa til kampavínið og einhver þarf að rækta jarðarberin sem þú þarft með kampavíninu. Einhver þarf að selja jarðarberin í búðinni og einhver þarf að byggja búðina svo þú getir keypt jarðarberin í henni. Og kannski langar þig í rækjur og kannski í rjóma og þá þarf einhver að veiða rækjurnar og einhver að framleiða mjólk og einhver að búa til rjóma úr henni. Svo þarft þú að eiga bíl til að sækja kampavínið, jarðarberin, rækjurnar og rjómann í búðina, einhver þarf að búa hann til. Og einhver þarf að framleiða bensínið á bílinn og einhver þarf að flytja það til þín, og svo frv. og svo frv. og svo frv.

Sennilega er því best að það séu bara fáir í því að kaupa banka og fyrirtæki og selja þau aftur með hagnaði. Mjög fáir. Það er best að það vinni flestallir við að framleiða, flytja og selja allar þær vörur sem þig langar í eftir að þú seldir aftur. Þannig virkar þetta best.

En þá vaknar spurningin, hverjir eiga að vera þessir fáu sem kaupa og selja fyrirtæki með hagnaði? Eru það þú og nokkrir vinir þínir, eða eru það ég og mínir vinir? Þar stendur nú „staurinn í rjúpunni.“

Það er ljóst að það er lítill hópur fólks sem lifir á því að láta peninga vinna fyrir sig. Allur fjöldinn verður hins vegar að vakna á hverjum morgni til að vinna fyrir peningum. Það er jafn ljóst að þessir fáu lifa á fjöldanum, eru afætur á fjöldanum. Blóðsugur á samfélaginu. Því fleiri sem þessar afætur eru, því minna verður eftir til að greiða laun fyrir vinnu. Og því veikara verður samfélagið.

Snemma í febrúar 2008 var haldinn fundur í Seðlabankanum þar sem þáverandi seðlabankastjóri er sagður hafa gert stjórnvöldum grein fyrir því að bankakerfið á Íslandi væri að hruni komið. Því yrði vart bjargað. Innan við mánuði síðar höfðu núverandi fjármálaráðherra og faðir hans vafningalaust selt öll sín hlutabréf í Glitni heitnum, fyrir tæpan milljarð. Nú biður þessi sami fjármálaráðherra launafólk auðmjúklegast að gæta hófs í kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga. Mig setur hljóðan.

Nú ætla ég að fara að sofa, ég þarf að vakna og að fara í vinnuna í fyrra málið.

Gísls Sigurðsson