Vinna hafin við skoðun á mögulegri tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO

0
94

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í samvinnu við Illuga Gunnarsson, mennta-og menningarmála-ráðherra, sett af stað undirbúning vinnu við að skilgreina, afmarka og afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga fyrir næstu tilnefningu náttúruminja á heimsminjaskrá UNESCO.

Vatnajökulsþjóðgarður

Á heimasíðu ráðuneytisins segir að skipuð hafi verið að þriggja manna verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefni þeirra fyrst í stað er að hefja vinnu við skilgreiningu og afmörkun tilnefningarinnar og setja niður vinnu- og tímaáætlun fyrir verkefnið.

Hópurinn mun kalla til nauðsynlega sérfræðinga og fulltrúa stofnana til þess að skýra og afmarka verkefnið.

Mikill áhugi hefur verið á því að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrána og miðast undirbúningsvinnan við að skilgreina og afmarka til hvaða náttúrufyrirbæra tilnefningin tæki til. Ljóst er að rekbeltið, heiti reiturinn undir landinu og eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss verða viðfangsefni tilnefningarinnar.

Stefnt er að því að verkefnisstjórn skili tillögum til ríkisstjórnarinnar um verkfyrirkomulag og tímaramma í júní og að drög að afmörkun og skilgreiningu tilnefningarinnar verði tilbúin fyrir sumarlok. (umhverfisraduneyti.is)