Vill hafa vaðið fyrir neðan sig

0
145

Könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um skólamál í þingeyjarsveit, sem nú stendur yfir hefur vakið athygli og umtal. 641.is bar könnunina og stöðuna í skólamálum í Þingeyjarsveit undir Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðing við Háskólann á Akureyri.

Grétar Þór Eyþórsson
Grétar Þór Eyþórsson

 

“Miðað við þær upplýsingar sem ég hef um málið og þá könnun sem nú stendur yfir er ekki annað að sjá en að sveitarstjórn vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Nokkuð ljóst virðist að hún kjósi að kanna hvar landið liggur meðal íbúanna varðandi þann niðurskurð sem óhjákvæmilegur virðist í skólamálum í sveitarfélaginu. Leiði könnunin það í ljós að íbúarnir séu hlynntir því að fækka skólunum er sveitarstjórnin þar með búin að sækja sér ákveðið umboð til að ráðast í slíkar aðgerðir, hvernig svo sem þær líta út í endanlegri mynd”.

 

Grétar segir ennfremur að það sé engin nýlunda að skólamálin séu heit kartafla í ný- eða nýlega sameinuðum dreifbýlum sveitarfélögum. Um slíkt eru mörg dæmi frá síðustu árum og áratugum. Nægir það að nefna Norðurþing, Skagafjörð, Dalabyggð og Borgarfjarðarsveit svo nokkur dæmi séu tekin.

“Í skólamálunum krystallast margvíslegir hagsmunir fólks; það sem snýr að börnum þess og síðan spurningin um atvinnuna og lifibrauðið. Það þarf því ekki að koma á óvart að ákvarðanir um slík mál séu teknar með aðgæsluna í fyrirrúmi, eins og virðist vera í Þingeyjarsveit. Stór og vanhugsuð skref í þessum málum geta skilið eftir sig stór sár”, sagði Grétar Þór Eyþórsson í spjalli við 641.is í dag.