Víkurblaðið er upprisið

Verður dreift frítt inn á öll heimili og fyrirtæki í Þingeyjarsýslum

0
692

Víkurblaðið, kom með stormi inn á íslenskan fjölmiðlamarkað í dag í orðsins fyllstu merkingu en gul veðurviðvörun er víða á landinu. Fyrsta tölublaðið barst þó í tæka tíð til Húsavíkur hvaðan því verður dreift inn á öll heimili og fyrirtæki í Þingeyjarsýslum.

Fyrr í þessum mánuði var fjölmiðlafyrirtækið Víkurblaðið ehf. stofnað á Húsavík. Fyrirtækið var stofnað utan um útgáfurétt hins víðfræga héraðsfréttablaðs Víkurblaðsins sem um tíma bar undirtitilinn „Blað alls mannkyns“.  Það var stofnað árið 1979 og kom út sjálfstætt til ársins 1996. Frá þessu segir í tilkynningu.

„Ég var búinn að mennta mig í fjölmiðlafræði og langaði til að vinna við blaðamennsku, en það voru engin laus störf á svæðinu við fjölmiðla. Ég reyndi aðeins fyrir mér sem lausapenni en fékk ekki nóg af verkefnum,“ segir Egill P. Egilsson ritstjóri Víkurblaðsins en hann á 80 prósent hlut í hinu nýja félagi. Friðrik Sigurðsson, athafnamaður og stjórnarformaður félagsins á 20 prósent.

„Ég var orðinn áhyggjufullur um að fá ekki nóg að gera í lausamennskunni svo ég hafði samband við Friðrik,  enda vissi ég að hann ætti útgáfuréttinn og nafnið á gamla Víkurblaðinu. Hugmynd mín var að eignast Víkurblaðið og eiga það í bakhöndinni þegar lítið væri að gera, þá hefði ég möguleika á að gefa út stöku blað við sérstök tilefni en síðan vatt þetta upp á sig,“ útskýrir Egill.

Víkurblaðið er prentað á 60 gramma gæðapappír og er gefið út í 2200 eintökum. Blaðinu er dreift frítt inn á öll heimili og fyrirtæki í Þingeyjarsýslum aðra hverja viku. Samhliða prentútgáfunni verður rekinn fréttamiðillinn vikurbladid.is en hann fer í loftið á næstu dögum. Blaðið sem verður aldrei minna en 16 síður leggur áherslu á mannlífsviðtöl og dýpri umfjallanir um menningu, mannlíf og atvinnulíf á svæðinu svo eitthvað sé nefnt. Vefmiðillinn bíður einnig upp á fjölbreytt efni sem og daglegar fréttir úr Þingeyjarsýslum. Helsta tekjulind miðilsins er sala á auglýsingum en unnið er að útfærsu fyrir vefinn þar sem lesendum gefst kostur á að styrkja útgáfuna um minniháttar upphæð í mánuði. „Markmiðið hjá mér er alltaf að búa til vandað ritstjórnarefni, til þess fór ég út í þetta. Það var annað hvort að flytja til Reykjavíkur eða fá mér vinnu við eitthvað sem er mér finnst leiðinlegt. Hvorugt hugnaðist mér, þannig að ég ákvað að búa mér til vinnu sjálfur. Stefnan er að búa til nýtt stöðugildi innan 14 mánaða og efla þannig ritstjórnarefnið enn frekar en það veltur á viðbrögðum Þingeyinga hvort það takist,“ segir Egill P. Egilsson, ritstjóri Víkurblaðsins.

Fyrsta tölublað er 16 síður og meðal efnis er opnuviðtal við Kristján Eymundsson, framkvæmdastjóra norska byggingaverktakans Faktabygg en hann hyggur á framkvæmdir við Húsavík á næstunni. Fastur liður í Víkurblaðinu verða svo kölluð þemu, en það er röð styttri greina og viðtala um eitt ákveðið málefni. Þema fyrsta tölublaðs er „Vetrarferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum“. Rætt er við sveitarstjórnarfólk og aðila ferðaþjónustunnar á svæðinu. Þetta og margt fleira í nýju og fersku Víkurblaði.

Hér má skoða fyrsta eintakið. Vikurblaðið_1_tbl_2018_Láuppl