Viðtal – Tryggvi Snær Hlinason “Hundlélegur í fyrsta leiknum”

Stefnir á aðallið Valencia - Háar væntingar fyrir Eurobasket

0
1945

Bárðdælingurinn stóri, Tryggvi Snær Hlinason frá Svartárkoti í Bárðardal, hefur vakið verðskuldaða athygli á körfuboltavellinum að undanförnu. Þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að æfa körfubolta fyrr en í janúar árið 2014, hefur hann náð undraverðum árangri síðan þá. Í júlí sl. átti hann stóran þátt í velgengni U-20 ára landsliðsins á Evrópumótinu þar sem liðið endaði í áttunda sæti og Tryggvi var valinn í lið mótsins. Þetta var besti árangur sem körfuboltalandslið frá Íslandi hefur náð frá upphafi.

Tryggvi skrifaði undir fjögurra ára samninig við Spánarmeistara Valencia í vor og flytur þangað með haustinu. Spænska deildin er almennt talin sú sterkasta í Evrópu og má því segja að Tryggvi ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, en Tryggvi hefur stærðina og hæfileikana í það.

Tryggvi æfir núna með A-landsliðinu fyrir Eurobasket og var valinn í 15 manna landsliðshóp sem er í æfingaferð í Rússlandi, áður en haldið verður til Helsinki í lok mánaðarins til þess að taka þátt í lokamóti EuroBasket2017. Liðið lék þrjá æfingaleiki gegn Rússlandi, Ungverjalandi og Þýskalandi um helgina í Kazan. Liðið tapaði fyrir Þjóðverjum og Rússum en vann Ungverja. Tryggvi spilaði í samtals 50 mínútur í leikjunum þremur og skoraði 21 stig og tók 11 fráköst. Síðan spilar liðið tvo leiki gegn Ungverjalandi og síðasti æfingaleikurinn verður gegn Litháen úti 23. ágúst, áður en það kemur heim. Reikna má með því að tilkynnt verði um endanlegan 12 manna landsliðshóp Íslands fyrir Eurobasket, þegar liðið kemur heim úr æfingaferðinni og vonast Tryggvi til með að verða í þeim hóp.

Heimili Tryggva Snæs Hlinasonar Svartárkot í Bárðardal

641.is náði tali af Tryggva heima í Svartárkoti um sl. helgi, en þetta var aðeins í annað skiptið í sumar sem Tryggvi kemur heim í Svartárkot, þar sem landsliðsverkefnin og æfingar vegna þeirra hafa tekið allan hans tíma í sumar.

Þegar 641.is bar að garði í Svartárkoti vel fyrir hádegi á laugardegi sat Tryggvi við eldhúsborðið og var að fá sér hafragraut í morgunmat. Tíðindamaður 641.is þekkti Tryggva þegar hann var í Stórutjarnaskóla og hafði hann stækkað og styrkst mikið síðan þá. Móðir Tryggva, Guðrún Tryggvadóttir bauð tíðindamanni kaffi og á meðan fékk Tryggvi sér aftur á diskinn. Tíðindamaður spurði hann hvort hann væri svangur. Nei, sagði Tryggvi. “Þetta er seinni morgunmaturinn minn. Ég var búinn að fá mér á fjóra diska áður en þú komst”. Afreksíþróttamenn í stærðarflokki Tryggva þurfa að borða mikið til að halda orku við stífar æfingar. Tryggvi borðar mat sem inniheldur 8-10.000 kaloríur á dag, en 2.000 kaloríur er talið hæfilegt fyrir meðalmann, eða þar um bil.

216 cm

Tryggvi er 216 cm að hæð og er 120 kg. Hann er fæddur 28. október árið 1997 og er því 19 ára gamall.

“Ég á þrjú systkini og Elín Heiða yngri systir mín er eitthvað í íþróttum og ætlar sér að halda því áfram þegar hún fer í nám til Akureyrar í haust, en hin tvö eru ekkert í íþróttum”, sagði Tryggvi aðspurður um hvort systkini hans stunduðu einhverjar íþróttir.

Tryggvi Snær og Þórhallur Bragason: Mynd Jónas Reynir Helgason

Uppvöxturinn í Svartárkoti.

Tryggvi sinnti almennum sveitastörfum í Svartárkoti í uppvextinum.

“Ég gerði allt sem þurfti að gera heima í sveitinni eins og sveitakrakkar gera almennt séð eins og að vinna við sauðburð, smala kindum, fara í göngur, keyra dráttarvélar og vinna við heyskap”.

Stundaðir þú einhverjar íþróttir sem barn og unglingur ?

“Ég var í flest öllum íþróttum sem ég komst í eins og t.d. blaki og fótbolta og svo smávegis í körfubolta í Stórutjarnaskóla einu sinni í viku. Við vorum aðallega í því að skjóta á körfuna, en það var kannski ekki beint spilaður körfubolti í skólanum. En jú, upp úr því byrjaði minn áhugi á körfubolta. Í dag er skemmtilegt að horfa til baka á þennan tíma”.

Frétt af vef Stórutjarnaskóla 27 apríl 2012. (Sjá myndina hér að ofan)
“Nú hefur það gerst sem aldrei hefur áður gerst hér í Stórutjarnaskóla, þ.e. frá árinu 1984, þegar Þórhallur Bragason aðstoðarskólastjóri hóf störf við skólann.  Hann er sem sagt ekki lengur hæsti maðurinn í skólanum.  Tryggvi Snær Hlinason í Svartárkoti hefur nú tekið við þeim heiðri af sínum ágæta læriföður.  Tryggvi mældist í gær vera 194 cm, sem er raunar nákvæmlega sama hæð og Tolli náði best.  Þungi hins daglega amsturs hefur hins vegar sett svip sinn á Þórhall og þrýst honum niður um fáeina sentimetra.  Tryggvi er hins vegar enn á uppleið, ungur maður sem lífið brosir í mót.  Við óskum Tryggva til hamingju”.

Nám á Akureyri.

Tryggvi fór í rafvirkjanám í Verkmenntaskólanum á Akureyri eftir að hann útskrifaðist úr Stórutjarnaskóla og hann útskrifaðist svo frá VMA í vor sem rafvirki og kláraði einnig stúdentinn. En Hvernig hófst körfuboltaferillinn ?

“Ég vildi stunda íþróttir til að halda mér í formi og körfubolti var helsta íþróttin sem ég hafði áhuga á. Frændi minn ræddi við fyrrverandi körfuboltamann sem hafði samband við Bjarka Oddsson sem þjálfaði yngri flokka hjá Þór og upp úr því fór ég á mína fyrstu æfinguna hjá þeim.

Tryggvi Snær Hlinason treður með stæl. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hvernig leist Þórsurum á þig í upphafi ?

“Þegar maður horfir til baka þá gat maður ekki gert neitt. Ég var spenntur og kominn í nýtt umhverfi og vissi ekki alveg hvað var að gerast. Ég þekkti engan í liðinu fyrir, en kynntist þeim fljótt. Þetta var mjög flottur hópur”.

Nú hefur þú spilað í næst efstu og efstu deildi í boltanum hér heima. Er ekki talsverður getumunur á liðunum í 1. deildinni og Dominosdeildinni ?

“Jú, getumunurinn er mikill og alvaran er miklu meiri í Dominosdeildinni en í 1. deild. Þetta er allt miklu stærra dæmi”.

 

U-20 ára landsliðið – Hundlélegur í fyrsta leiknum

Hvernig var tilfinningin að spila fyrsta landsleikinn fyrir Íslands hönd ?

“Ég spilaði fyrsta landsleikinn með U-18 ára landsliðinu á Norðurlandamótinu í Svíþjóð árið 2015 sem var mitt fyrsta mót erlendis. Þetta var snilld, en þegar ég horfi til baka var ég hundlélegur í leiknum. En maður gerði sitt besta”.

Fimm manna úrvalslið mótsins. Tryggvi Snær er áberandi stærstur. Mynd: Karfan.is

Nú náði U-20 ára liðið besta árangri sem íslenskt körfuboltalandslið hefur nokkurn tíman náð í júlí sl. Þú varst valinn í lið mótsins þrátt fyrir að spila í liði sem endaði í 8. sæti á mótinu. Var það ekki góð tilfinning ?

“Þetta var geggjað. Við vildum náttúrulega fara lengra. Þegar maður vinnur einn leik vill maður vinna þann næsta. Ég hefði viljað ná í annan sigur eftir átta liða-úrslitin, en ég er mjög sáttur við þetta og það var gaman að komast í 8-liða úrslitin”.

Erlendir fjölmiðlar voru áhugasamir um þig á meðan á mótinu stóð. Hvernig upplifun var það að vera í sviðsljósinu ?

“Ég fylgdist lítið með þessu. Þetta er bara partur af þess. Ég var í fyrsta skiptið á stóra sviðnu og athyglin meiri en áður. Þetta var gaman en maður heldur sér bara niðri á jörðinni og breytir engum plönum”

Tryggvi var valinn í fimm manna úrvalslið Evrópumóts undir 20 ára karla 23. júlí sl. Tryggvi skilaði 16 stigum, 12 fráköstum, 2 stoðsendingum og 3 vörðum skotum að meðaltali í þeim 8 leikjum sem liðið spilaði. Tryggvi leiddi alla leikmenn mótsins í framlagi með 26 framlagsstigum að meðaltali í leik. Þá var hann þriðji í fráköstum, efstur í vörðum skotum og sá sjöundi stigahæsti allra á mótinu.
“All star five” viðurkenningin sem Tryggvi fékk þegar hann var valinn í lið mótsins

Æfingaleikir með A-landsliðinu og Eurobasket 2017

Hvaða væntingar hefur þú fyrir Eurobasket 2017 í Finnlandi ?

“Ég reikna með því að fara í æfingaferðina til Rússlands (og fleiri landa) og ég vonast til þess að enda í 12 manna lokahópnum sem fer á Eurobasket í haust. Eftir æfingaferðina kemur betur í ljós hvar maður stendur og hvaða væntingar ég hef til sjálfs míns. Það eru margir æfingaleikir framundan og þá kemur betur í ljós hvar ég stend”.

“Ég hef mjög háar væntingar fyrir Eurobasket. Síðast var Ísland í hrikalega erfiðum riðli og var mjög erfitt að gera eitthvað, en núna hef ég væntingar um að við náum fyrsta sigrinum á Eurobasket. Pólverjar, Finnar, Grikkir, Slóvenar og Frakkar eru í riðli Íslands á Eurobasket. Við eigum möguleika á móti öllum þessum liðum. Við getum komið þeim á óvart því við spilum öðruvísi bolta. Við spilum með þessu íslenska brjálæði og mörg lið lenda í bullandi veseni gegn okkur. Það er planið. Ef við hittum vel þá getum við unnið alla”. Sjá riðil Íslands hér

Brynjar Þór Björnsson landsliðsmaður fékk Tryggva til þess að hjálpa sér að sýna fólki hvernig tilfinningin er að láta sjö feta leikmann (er 7.1 fet eða 216 cm) troða boltanum yfir sig. Sjá myndbandið hér að ofan.

USA.

Nú fórst þú til USA sl. haust til að skoða háskóla í New York. Vildu þeir fá þig ?

“Ég skoðaði Marist háskólann í New York en Kristinn Þór félagi Tryggva í landsliðinu er þar í námi. Þeir voru áhugasamir um að fá mig í skólann. Ég fór þarna bara í skoðunarferð. Niðurstaðan varð sú að fara ekki í þennan skóla”.

Valencia

Hvenær reiknar þú með því að flytja til Valencia og hvernig var samningurinn sem þú gerðir við Valencia ?

“Líklega fer ég út um miðjan september. Þetta er 2+2 samningur eða samtals fjögur ár. Eftir fyrstu tvö árin opnast nokkurskonar félagaskiptagluggi sem ég get nýtt mér kjósi ég það, ef ég vil fara eitthvað annað. Ég kem til með að æfa með aðalliði Valencia, en spila ekki með því fyrr en ég er orðinn nógu góður. Valencia útvegar mér íbúð og bíl og allan búnað varðandi æfingar og slíkt. Íbúðin er rétt hjá heimavelli liðsins í miðbænum. Ég skoðaði aðstæður í Valencia í vor og leist mjög vel á. Einn félagi minn frá Akureyri kemur með mér og verður líklega fyrsta árið. Markmiðið er að komast í 12 manna aðallið Valencia sem fyrst og bæta mig”

Svartárkot og Svartárvatn fjær

Æfingar.

Hverjir eru þínir helstu veikleikar körfuboltalega séð ?

“Ég held að það sé hægt að benda á allt. Ég er ungur í körfubolta og það vantar margt uppá. Hraða og snerpu þarf ég að bæta”.

Ertu með sérstakt æfingaprógramm og ertu með sérstakan þjálfara sem leiðbeinir þér í þeim efnum ?

“Sumrin nota margir körfuboltamenn til að styrkja sig. Ég er að lyfta með strákunum í A-landsliðinu núna en það er erfitt að gefa sér tíma í sérstakar styktaræfingar þegar landsliðsæfingar eru á fullu og svo eru mótsleikir líka. Það hafa verið tvær æfingar á dag og því lítill timi til að styrkja sig. Þetta er þungt sumar, en það er þess virði”.

Hvað með matarræðið ? Borðar þú öðruvísi mat í dag en þú gerðir áður en þú fórst að æfa körubolta og kannski meira en þú gerðir áður ?

“Ég borða margfallt meira en ég gerði og marfallt betur. Ég reyni að halda mig við hollt eins og ég get. Ég fékk mér á sjö diska í morgunmat. Ég var búinn með fjóra þegar þú komst. Ég þarf að borða 8-10 þúsund kaloríur dag meðan á æfingum stendur, en núna þegar ég er í fríi borða ég minna”.

Hver eru þín markmið líklamlega séð ?

” Að verða sterkari og styrknum fylgir þyngdin”.

Tryggvi Snær fyrir utan heimili sitt í Svartárkoti í Bárðardal

Framtíðin – NBA ?

Er það markmið hjá þér að spila í NBA í framtíðinni ?

“Markmiðið er að komast sem lengst og NBA er það lengsta sem hægt er að komast í dag. Auðvitað er alltaf planið að reyna að komast þangað”.

Ef þú fengir tilboð frá liði sem spilar í NBA þegar samningstíma þínum líkur hjá Valencia, hversu líklegt er að þú stökkvir á það ?

“Það er mjög erfitt að segja til um það núna en mér finnst það líklegt”.

Áttu eitthvert óskalið í NBA deildinni ?

“Nei, í raun ekki. Ég gef mér ekki tíma í að fylgjast með þessu núna. Kanski fylgist ég meira með þessu þegar ég verð kominn til Spánar”.

Hefur Pétur Guðmundsson fyrrverandi körfuboltamaður verið í sambandi við þig varðandi NBA og USA ?

“Jú hann hefur haft mikinn áhuga á því að koma mér til USA”.

Nú hefur körfuboltinn tekið mikinn tíma síðustu tvö ár hjá þér. Hefur þú eitthvað verið heima í Svartárkoti síðustu tvö árin ?

“Já eitthvað, en minna en ég hefði viljað. Ég kem sennilega ekki heim um næstu jól frá Spáni”.

Hefur þú samastað í Reykjavík þegar landsliðsæfingar standa yfir ?

“Já. Ég bý hjá systur pabba fyrir sunnan þegar æfingar og leikir standa yfir”.

Tíðindamaður 641.is þakkar Tryggva fyrir fróðlegt spjall og óskar honum góðs gengis í framtíðinni.

Aðeins liðu 40 mánuðir frá því að Tryggvi mætti á sína fyrstu æfingu hjá Þór þar til hann skrifaði undir samning hjá Valencia, sem er sennilega einstakt. Tryggvi Snær Hlinason er fyrsti Bárðdælingurinn sem vinnur sér sæti í íslensku landsliði í boltaíþróttum. Hann er líka fyrsti Bárðdælingurinn sem skrifað hefur undir samninig við erlent atvinnumannalið og á örugglega eftir að gera góða hluti á vellinum.

641.is óskar Tryggva Snæ Hlinasyni góðs gengis í framtíðinni.

Ferill Tryggva Snæs Hlinasonar hingað til.

Janúar 2014 mætir á sína fyrstu körfuboltaæfingu hjá Þór Akureyri
2014.Spilar sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2015
2015. Valinn í landsliðsúrtök: U-18 og A-landslið karla
2015. Spilaði með U-18 ára landsliðinu bæði Norðurlandamótinu og Evrópumótinu
2016. Fyrsti leikur með A-landsliðinu
Valinn í lokahóp A-landsliðsins fyrir undankeppni EM
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2016 og Körfuboltamaður Þórs 2016
Júní 2017. Skrifar undir samning við Valencia á Spáni
Júní 2017. Spilar með A-landsliði Íslands á smáþjóðaleikunum
Júlí 2017. Valinn í lið mótsins í A-deild U-20 ára eftir frábæran árangur á mótinu
Ágúst 2017. Valinn í 15 manna æfingahóp fyrir Eurobasket 2017
Tryggvi Snær og tíðindamaður 641.is sem er aðeins 178 cm að hæð og virkar agnarsmár miðað við Tryggva.

Í myndbandinu hér að neðan má skoða samantekt um frammistöðu Tryggva í leikjunum á Evrópumóti U-20 ára landsliða í júlí.