Viðhald á Þingeyjarskóla – Spurningar til meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, sveitarstjóra og byggingafulltrúa

0
112

Nú standa framkvæmdir yfir á heimavistarhluta Hafralækjarskóla sem hefur verið lítið eða ekkert notaður undanfarin ár. Samkvæmt heimildum 641.is er ætlunin að koma upp aðstöðu fyrir kennara á þessum stað og er kostnaður við þessar framkvæmdir áætlaður um 20 milljónir króna samkv. óstaðfestum heimildum 641.is. Einu heimildirnar sem finnst um þessar framkvæmdir er í fundargerð Fræðslunefndar frá 19. mars 2015 en þar segir að “til standi að stofnaður verði hópur skipaður byggingarfulltrúa, sveitarstjóra og skólastjórum sem hefur umsjón með skipulagsbreytingum og endurbótum á húsnæði Þingeyjarskóla og kemur jafnframt með tillögu að forgangsröðun framkvæmda fyrir næsta skólaár

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

 

Í fundargerð sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 26. mars sl. er fundargerð Fræðslunefndar staðfest en ekki koma fram neinar aðrar upplýsingar um þessar framkvæmdir td. hvað kostnað varðar, né heldur að búið sé að skipa “hóp” sem á að hafa umsjón með endurbótum á húsnæðinu. Þar fyrir utan hafa þessar framkvæmdir, eða stofnun hópsins ekki verið ræddar í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar með formlegum hætti, að öðru leyti en að staðfesta fundargerð Fræðslunefndar.

 

 

 

Spurt er:
Er það eðlileg stjórnsýsla að framkvæmdir sem þegar eru hafnar og að hópur sem stendur til að skipa um endurbætur á húsnæði Þingeyjarskóla, sé ekki rædd í sveitarstjórn með formlegum hætti og samþykki fengið fyrir því ?

 

Spurt er:
Hvenær má búast við tillögu að forgangsröðun framkvæmda frá hópnum fyrir næsta skólaár og kostnaðaráætlun framkvæmdanna ? Verður sú áætlun ekki örugglega rædd í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar ?

 

Samkvæmt skýrslu Bjarna Einarssonar um viðhald og rýmisþörf Þingeyjarskóla er talað um nauðsynlegt viðhald á Hafralækjaskóla og því skipt upp í viðhald sem framkvæma þyrfti sem fyrst og svo viðhald sem framkvæma mætti síðar (ótímasett).

Dæmi.
Verkleg kennsla í kjallara Kr. 3.600.000   (Viðhald síðar Kr. 54.000.000)
Kennslurými 1. hæð        Kr. 10.000.000   (Viðhald síðar Kr. 120.000.000)
Matsalur og eldhús          Kr. 3.000.000   (Viðhald síðar Kr. 45.000.000)
Heimavist 2. hæð            Kr. 0               (Viðhald síðar Kr. 100.000.000)

Athygli vekur að viðhaldi sem áætlað er að þurfi að gera á heimavist er flokkað sem viðhald sem þarf að framkvæma síðar en ekki sem fyrst, enda ekki talin þörf á aðkallandi viðhaldi þar sem húsnæðið er ekki í (var ekki í) notkun.

 

Spurt er:
Af hverju er farið í þessar framkvæmdir á heimavist ? Er þetta meira aðkallandi en aðrar framkvæmdir sem nauðsynlega þarf að gera á húsnæðinu ?

 

Spurt er:
Hvenær á að fara í viðhald á matsal og eldhúsi, kennslurými á 1. hæð og aðstöðu til verklegrar kennslu í kjallara, sem samkvæmt skýrslu Bjarna kostar 235.600.000 krónur ? (bæði viðhald nú og síðar)

 

Svör óskast sem fyrst. Hermann Aðalsteinsson ritstjóri