Við erum öll prestar

Hugleiðing við skírnarkvöldstund í Svalbarðskirkju

0
749
Þau lágu á kirkjugólfinu í Grenivíkurkirkju kringum skírnarfontinn og spjölluðu um skírnina. Ungmennin sem fermast í Laufásprestakalli í vor voru að rifja upp skírnardaginn sinn, skírnarprestinn, skírnarvotta og fleiri minningar sem þau höfðu einkum frá foreldrum sínum.
Sjálf áttu þau takmarkaðar minningar frá deginum stóra í kirkju sem einkum ástundar ungbarnaskírn en fá nú tækifæri til að staðfesta skuldbindingu foreldra og skírnarvotta forðum og það með hækkandi sól.
Þegar kom að Matthíasi, sem nú í kvöld hefur þegið skírn, og hópurinn uppgötvaði að hann var óskírður upphófust miklar vangaveltur m.a. hvort hann gæti þá breytt nafninu sínu í leiðinni.
Það leiddi síðan til þeirrar umfjöllunar að nafnið væri eitt og skírnin annað og það væri svo sem alltaf sá möguleiki að ganga inn á Þjóðskrá og fá nafninu sínu breytt en skírnin verður alltaf einu sinni og aldrei breytt.
Þá var einnig rætt hvort skírð börn væru aðeins Guðs en hin ekki og gaf það sannarlega tilefni til að leggja áherslu á að við fæddumst öll sem Guðs börn en þau sem væru skírð tilheyrðu Jesú Kristi og kristinni kirkju.
Margt kom fram í þessu ágæta spjalli okkar og ávallt varpa ég fram fullyrðingu sem fær unga fólkið til að leggja vel við hlustir enda er hún áhugaverð og virkilega áminnandi. Fullyrðingin er þessi: Við erum öll prestar! Síðan bæti ég því við að þau gætu meira að segja sjálf orðið fyrir því í lífinu að þjóna við skírnarathöfn.
„Ha, hvernig þá!”, heyrðist frá opineygum hópnum á kirkjugólfinu. Þá fór ég í gegnum svokallaða skemmri skírn, um hana má lesa framarlega í sálmabók íslensku kirkjunnar.  Þar segir m.a.
„Ef óskírt barn er hættulega sjúkt og eigi unnt að ná til prests, má skíra það skemmri skírn. Má hver skírður maður, fullvita karl eða kona, framkvæma skemmri skírn….”
Og á sama stað fáum við jafnframt leiðbeiningar hvernig slíkt á að fara fram:
„Sá eða sú er skírir, nefnir nafn barnsins, eys þrisvar með lófa sínum vatni á höfuð þess og segir um leið:  Ég skíri þig í nafni föður og sonar og heilags anda.  Amen.”
Mér finnst alltaf jafn áhugavert að koma inn á þetta með skemmri skírnina því hún kemur unga fólkinu venjulegast á óvart enda sjaldan um hana fjallað, auk þess sem hún fær það til að hugsa meira um hlutverk og ábyrgð hins kristna í kirkju og tilvist. Þá er líka mikilvægt ef til þessara aðstæðna kæmi að vera búinn að fræðast eilítið um inntak kristinnar trúar, raunar hvatning þess efnis.
Ég nefni það iðulega þegar um skemmri skírnina er fjallað að ég eigi vinkonu sem er starfandi ljósmóðir og hún hafi skírt fáein börn á fæðingardeildinni.
Þó svo að ákveðnir aðilar, og við nefnum þá gjarnan presta, séu ráðnir til safnaða til að leiða helgihald og bera vissa ábyrgð í því samhengi öllu, þá megum við aldrei gleyma því að í kirkjunni gegnum við öll hlutverki og berum ábyrgð og sinnum í því ljósi prestsþjónustu, sú þjónusta getur aðeins beinst að náunganum.
Skírnþeginn Matthías lét í té mikilvæga pælingu á kirkjugólfinu í Grenivíkurkirkju um daginn hvort við mættum þá skíra okkur sjálf fyrst við mættum öll skíra. Nei, það er reyndar ekki hægt því prestsþjónustan beinist nefnilega alltaf að náunga okkar, enginn getur verið sjálfum sér prestur. Þjóna skaltu Guði og þjóna skaltu náunganum í kærleika.
Mjög kunnur og mikilsvirtur maður í kirkjusögunni lagði áherslu á þetta en hann hét Marteinn Lúther. Við hann er lúthersk-evangelísk kirkja kennd eins og Þjóðkirkjan á Íslandi.
Lúther var þýskur munkur. Hann var þekktastur fyrir að vera einn af siðbótarmönnum kirkjunnar á 16. öld og nú í ár eru einmitt 5 aldir frá því hann negldi táknrænt skjal á dyr kirkjunnar í Wittenberg.  Það var við háskólann í þeirri þýsku borg í Saxlandi sem hann gegndi stöðu prófessors í biblíufræðum.
Skjalið innifól í 95 greinum kenningar um kristna trú og leiðir til að endurbæta hana og þá hafði Lúther einkum í huga þá sölumennsku sem hafði átt sér stað innan kaþólsku kirkjunnar er laut að kaupum almennings á svokallaðri syndaaflausn. Það er t.a.m. vitað að Péturskirkjan í Róm var reist einkum fyrir ágóða af sölu svokallaðra aflátsbréfa.
Með þessum gjörningi sínum kom Lúther af stað mótmælendahreyfingu innan Rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem þróaðist í fyrrnefnda evangelíska-lútherska kirkju.
En Lúther gaf líka þeim mikilvæga kirkjuskilningi vængi að við værum öll prestar. Á uppvaxtarárum kristinnar kirkju hafði hún þá sérstöðu umfram önnur trúarbrögð að þar voru allir safnaðarmeðlimir prestar, önnur trúarbrögð höfðu sína sérstöku prestastétt.
Síðan gerðist það að söfnuður kristinna manna varð að kirkju hins rómverska heimsveldis og skipulag kirkjunnar varð spegilmynd af uppbyggingu rómverska ríkisins þar sem menn voru flokkaðir í leika og lærða.
En Lúther vildi ekki raða fólki í tignarraðir, allir skyldu vera jafnir og að prestsembættið fæli fyrst og fremst í sér þjónustu en síst vald. Þannig virkar hinn almenni prestsdómur sem býr yfir þremur meginþáttum og þeir eru:  boðun, fyrirgefning og fyrirbæn.
Við sjáum það að þessi almenni prestsdómur mótar kirkjuna hér  á landi mikið sbr. allt það fólk sem sinnir margvíslegum störfum fyrir kirkjuna m.a. sóknarnefndarfólk, kirkjukórar, kirkjuverðir, organistar og listinn er mikið lengri.
Og sérhver safnaðarmeðlimur skal hafa rödd og sannarlega vel þegið þegar fólk kemur með hugmyndir og ábendingar og þar beini ég t.d. orðum mínum til hins nýskírða Matthíasar.
Það er einfaldlega andstætt þeirri hugmyndafræði sem kirkjan hér skal grundvallast á, þetta að klerkar eigi að ráða öllu, það er barasta reginmisskilngur, við erum samfélag og þar er það samvinna og sameiginleg þjónusta sem skal hafa að leiðarljósi.
Bæði meðvitað og ómeðvitað erum við að sinna þessari prestsþjónustu í dagsins önn. Og ekki hvað síst þegar eitthvað bjátar á, í raun.
Ég segi það fyrir mig að það var áhrifaríkt að koma inn á minningarsafn í New York-borg um daginn um hryðjuverkin 11. september 2001. Safnið stendur á grunni tvíburaturnanna sem hrundu eftir að flugvélum var stýrt inn í þá af hryðjuverkamönnum. Í turnunum störfuðu 50.000 manns af ýmsum þjóðernum og tæplega 3000 fórust í þessum voðaatburði.
Myndirnar allar á þessu safni og tilvitnanir í fólk sem þurfti að þola þennan hrylling á sínum tíma, myndir af hverju einasta fórnarlambi og umfjöllun, snerti við hverju hjarta sem sló þarna inni í þessu safni. Og það gerðu líka upptökur af frásögnum sjónarvotta og fólks sem komst undan á þessum örlagaríka morgni.
Þar sagði kona ein frá því þegar hún var að flýja út úr annarri turnbyggingunni að hún hafi mætt ungum björgunarmanni. Hún varaði hann við að fara inn í bygginguna því hún væri að hrynja. Björgunarmaðurinn svaraði því til að hann yrði að fara inn, hann yrði að sinna starfi sínu. Hann kom ekki lifandi út aftur.
Við viljum auðvitað ekki að fólkið okkar láti lífið í kærleiksþjónustunni, en við vitum þó að það er ekki bara hatrið sem er sterkt afl, það er kærleikurinn sannarlega líka, og þegar allt kemur til alls og eftir að hafa séð þetta safn og myndir frá uppbyggingunni þá trúi ég því og treysti alltaf, öllum stundum, að kærleikurinn er og verður hatrinu yfirsterkari.
Þess vegna gleðst ég yfir kirkjusamfélaginu, yfir prestsþjónustunni, þess vegna gleðst ég yfir ungu fólki sem þiggur skírn, þess vegna gleðst ég yfir lífinu í allri sinni fjölbreyttu mynd, yfir kærleikanum sem fellur aldrei úr gildi.
Bolli Pétur Bollason.