Verður bundið slitlag lagt á nyrsta hluta Bárðardalsvegar vestari næsta sumar ?

0
142

Stefnt er að því að bundið slitlag verði lagt á nyrsta hluta Bárðardalsvegar vestari (842) næsta sumar, en fjárveiting fékkst til verkefnisins í lokaútgáfu vegaáætlunar 2016-18 sem samþykkt var á lokadögum Alþingis.

Bárðardalsvegur vestari sunnan við Halldórsstaði
Bárðardalsvegur vestari sunnan við Halldórsstaði

Guðmundur Heiðreksson deildarstjóri hjá Vegagerðinni á Akureyri sagði í spjalli við 641.is í dag að samkvæmt vegaáætlun 2016-18 sé stefnt að því að taka fyrir nokkra kílómetra af Bárðardalsvegi vestari, byggja hann upp og leggja á hann bundið slitlag frá þjóðvegi 1 og eins langt suður og þeir komast fyrir þá fjármuni sem fást í verkefnið. Guðmundur treysti sér ekki til að gefa upp kílómetrafjöldann en samkvæmt heimildum 641.is verður kaflinn líklega um 6 kílómetrar að lengd og nái þar með langleiðina að bænum Hvarfi.

 

Vegurinn er núna í hönnunarfeli en gert er ráð fyrir að vegurinn verði að mestu leiti í sama vegstæði og núverandi vegur. Vegurinn verður breikkaður og hækkaður og Guðmundur sagðist reikna með að einbreið brú yfir Öxará verði aflögð og ræsi sett í staðinn á sama stað og núverandi brú

Samkvæmt samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026 var gert ráð fyrir að klára Bárðardalsveg vestari alls 37 kílómetra að lengd, fyrir árslok 2026 og áætlað er að verkið kosti 1 milljarð króna.

Bárðdælingar og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafa lengi barist fyrir því að vegir í Bárðardal verði byggðir upp og lagt á þá bundið slitlag. Gangi þetta eftir er kanski farið að sjást fyrir endann á þeirri baráttu.