Verðlauna Hrútar

0
289

Það biðu margir með mikilli eftirvænting eftir því að sjá verðlauna kvikmyndina Hrútar í Laugabíói í fyrrakvöld í allri sinni dýrð. Það hafði byggst upp mikil spenna fyrir myndinni í Bárðardal og reyndar um alla Þingeyjarsýslu og jókst hún enn ferkar eftir að hún vann til verðlauna í Cannes nokkrum dögum áður. Það spurðist fljótlega út að aðstandendur myndarinnar ætluðu að framsýna hana í Laugabíói aðeins tveimur dögum eftir að hún kom frá Cannes og áður en hún yrði sýnd fyrir sunnan og í öðrum kvikmyndahúsum landsins.

Hrútar mynd

Þetta var vel til fundið og komust færri að en vildu á Íslandsfrumsýningunni í fyrrakvöld. Með þessu vildi leikstjórinn, Grímur Hákonarson og framleiðandinn Grímar Jónsson, þakka Bárðdælingum kærlega fyrir alla aðstoðina við tökurnar á Hrútum sl. sumar og vetur.

 

Myndin er hreint út sagt stórkostleg og það tekst að skapa trúverðuga sögu. Aðalleikararnir Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson sýna stórleik í sínum hlutverkum og eru mjög sannfærandi sem eldri bændur sem hafa búið einir, konulausir og hlið við hlið, áratugum saman á þess að talast við. Þeir hafa ekkert annað en kindurnar sínar sem þeir hugsa vel um. Þegar riðuveiki er staðfest hjá öðrum þeirra og ákveðið er að skera allt féð hjá öllum bændum í dalnum hrynur þeirra veröld til grunna. Hvað eiga þeir til bragðs að taka og hvað eiga þeir að hafa fyrir stafni ? Annar þeirra hallar sér að flöskunni en hinn tekur til sinna ráða.

Myndin snertir mjög við áhorfendum og tár runnu niður margar kinnar á framsýningunni í áhrifamestu atriðunum. Áhrifamestu atriðin eru felst á orða enda orð óþörf í þeim. Svo eru önnur bráðfyndin atriði og sum þeirra án orða. Ógleymanlegt er atriðið þar sem dráttavél kemur við sögu og þegar starfsmaður MAST fær að nota klósettið á Bólstað og þegar lögreglumaðurinn er…best að segja ekki meira til að skemma ekki fyrir öllum þeim sem eiga eftir að sjá myndina. Lokaatriði myndarinnar er magnþrungið.

Bárðdælingar og Þingeyingar leika nokkur aukahlutverk í myndinni og fer Jón Friðrik Benónýsson (brói) með stærsta hlutverkið af heimafólki. Hann gerir það óaðfinnalega, enda vanur leikari. Einnig koma Ólafur Ólafsson, Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir og Anna Sæunn Ólafsdóttir fyrir í litlum hlutverkum, að ógleymdum kindunum þeirra Bergljótar og Ingvars á Halldórsstöðum 2. Fjöldinn allur af aukaleikurum úr Bárðardal og Þingeyjarsýslu bregður fyrir í myndinni og svo má ekki gleyma hundinum sem færði skilaboð á milli þeirra bræðra með skemmtilegum hætti.

Tónlistin í myndinni er eftir Atla Örvarsson, sem er af Bárðdælskum ættum, fellur mjög vel að söguþræðinum og smell passar við upplifun bíógesta. Kvikmyndatakan er fagmannleg og ægifagurt landslag Bárðardals kemur mjög vel út.

Verðlauna Hrútar

Einn af stærstu kostum myndarinnar er að það er ekkert bull og rugl í gangi í henni eins og kemur stundum fyrir í Íslenskum kvikmyndum. Það er ekkert í myndinni sem ekki gengur upp og gæti ekki gerst. Líklega er Hrútar ein albesta Íslenska kvikmyndin sem gerð hefur verið. Hrútar fá því fimm stjörnur í einkunn hjá 641.is af fimm mögulegum !

Hrútar verða frumsýndir í Háskólabíói í kvöld og myndin fer svo í almennar sýningar á morgun, fimmtudag.