Vegasamgöngubætur í Bárðardal

0
201

Með þessu greinarkorni langar mig til þess að beina sjónum íslenskra stjórnvalda að bágum vegasamgöngum í Bárðardal í Þingeyjarsveit. Þar er um að ræða afar varasama malarvegi beggja vegna Skjálfandafljóts, venjulegast holóttir, sleipir í vætutíð, grýttir og ekki hægt að ímynda sér annað en að þeir séu hverri manneskju, er um þá fer, til mikils ama.

Bolli Pétur Bollason
Bolli Pétur Bollason

Ég ek þessa vegi ósjaldan sjálfur í embættiserindum mínum, þar sem Bárðardalur heyrir undir Laufásprestakall, og þekki því vel til aðstæðna og veit um hvað er að ræða. Í prestakallinu eru vegir víðast hvar með bundnu slitlagi nema í Bárðardal þannig að vegasamgöngur í dalnum eru í hrópandi ósamræmi við allt í nágrenninu.

Bárðardalur er besta sveit, þó langt sé á milli bæja, á kraftskáldið Látra-Björg að hafa sagt forðum daga og það eru orð að sönnu. Þarna býr öflugt bændafólk með mikilvæg fyrirtæki á jörðum sínum og allir leggja sig fram um að iðja og starfa með heill þjóðar í huga. Þarna fer fjöldinn allur af ferðafólki um á sumrin, dalurinn fóstrar vinsælar og athyglisverðar náttúruperlur.

Þegar umferðarþungi eykst á vegum sem þessum í Bárðardal er alls ekki von á góðu.  Á köflum eiga bílar, t.a.m. þeir er draga ferðavagna, meira að segja erfitt með að mætast. Við erum að tala um vegi, sem kalla sterklega á umferðaróhöpp, jafnvel þótt um eðlilegan akstur sé að ræða, enda hafa slík óhöpp sannarlega átt sér stað. Í þessu greinarkorni er því einnig verið að hvetja til þess að brunnurinn verði byrgður.

Það er sömuleiðis vert umhugsunar, nú þegar verið er að sprengja fyrir göngum í gegnum Vaðlaheiði, hvort ekki sé kominn tími á bættar vegasamgöngur í Bárðardal, því óhætt er að fullyrða að sú mikla samgöngubót sem Vaðlaheiðargöngin verða, muni síður en svo draga úr umferðarþunga í Bárðardal heldur þvert á móti.

Bolli Pétur Bollason.