Vaðlaheiðargöng – VEII !

Benedikt Sigurðarson skrifar

0
585

Laugardaginn 12 janúar 2019 kom mannfjöldi saman austan og vestan við Vaðlaheiðina – og fagnaði samgöngubótum.    Menn hlupu og hjóluðu og tóku allskonar farartæki í gegn um göngin og létu í ljós ánægju sína með margvíslegu móti.   Stórfengleg kaffiboð í Gamla skóla í Skógum og í Valsárskóla  – nú og svo ræðuhöldin og myndatökurnar.

Benedikt Sigurðarson

Það er ánægjulegt að hafa sjálfur á einu stigi sem stjórnarmaður í KEA fengið tækifæri til að leggja að mörkum til að greiða fyrir því að framkvæmdin færi af stað.    Það er líka ánægjulegt að geta sagt það menn sanni að hafa allan tímann reynt að tala jákvætt fyrir framkvæmdinn og leiðrétta eða reka til baka rangfærslur og róg sem nokkrir hávaðasamir fjölmiðlungar og stjórnmálamenn hafa haft í frammi gegn Vaðlaheiðargöngum.

Það er á sama hátt sorglegt að hafa orðið vitni að því að stjórn svokallaðs Félags Íslenskra bifreiðaeigenda og nafn þess félagsskapar skuli margsinnis hafa verið misnotan í ándróðri og afvegaleiðandi orðræðu gegn þessarri gríðarlegu samgöngubót.

Þegar horft er til baka þá má telja það meira en furðulegt að Vegagerð ríkisins skuli á engu stigi hafa átt frumkvæði að því að setja greiningu og undirbúning Vaðlaheiðarganga á dagskrá og koma í verkröð og á Vegaáætlun.       Sama var auðvitað á sínum tíma með Hvalfjarðargöng –  þar var ekki frumkvæði eða jákvæð vinnsla í höndum Vegagerðarinnar eða ríkisstjórnar og Alþingis.

Vera kann að það hafi verið fleiri en Glúmur bóndi í Vallakoti í Reykjadal sem höfðu á orði fyrir hundrað árum og þaðan síðar að rétt væri að grafa sig í gegn um Vaðlaheiðina fremur en að brölta endalusa ófærðarvegi yfir Heiðina eða í gegn um Fnjóskadal/Dalsmynni og Nollabrekkuna og Ystuvíkurhólana.

Ótvírætt er að Tryggvi Helgason flugmaður og Matthías Gestsson ljósmyndari og samstarfsmenn þeirra í Lýðræðisflokknum héldu Vaðlaheiðargöngum á stefnuskrá í Alþingiskosningum 1974.   Þeir mættu meira en tómlæti á sínum tíma og ræðum það ekki frekar hér.

Síðan gerist lítið lengi vel;   málamyndaskýrsla Vegagerðarinnar 1990 og ekkert meira fyrr en 2002-2003.

    • “Stofnfundur einkahlutafélags um undirbúning að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði með 4.410.000 kr. hlutafé var haldinn í Valsárskóla á Svalbarðseyri 28. febrúar. Stofnendur félagsins voru öll 20 sveitarfélög innan vébanda Eyþings og tíu fyrirtæki á svæðinu: Alli Geira hf., Brim hf., Flytjandi/Eimskip hf., Grímur ehf. , Kaupfélag Eyfirðinga, Norðlenska ehf., Norðurmjólk ehf., SBA-Norðurleið hf., Skipaafgreiðsla Húsavíkur ehf. og Vélsmiðja Steindórs ehf.  Á stofnfundi voru þrír stærstu hluthafarnir Akureyrarbær, sem skráði sig fyrir 36% stofnfjár, Kaupfélag Eyfirðinga með 23% og Þingeyjarsveit með 11%. Greið leið ehf. var samþykkt sem nafn á hið nýja félag. Í stjórn félagsins voru kjörnir: Andri Teitsson, Ásgeir Magnússon og Pétur Þór Jónasson. Varamenn voru kjörnir Jóhann Guðni Reynisson og Bjarni Jónasson. Pétur Þór var kjörinn formaður stjórnar á fyrsta stjórnarfundi 24. mars 2003.”

Við vígsluna voru margir gleiðir og áhugasamir um að fá myndir af sér að loknu verkinu.    Sá sem þetta ritar getur ekki annað en velt því upp við minnisbetri áhugamenn um samfélagsmálin að þónokkrir þingmenn og ráðherrar fyrr og nú  – voru áhugalausir eða beinlínis andsnúnir Vaðlaheiðargöngum lengi og vel eða allt þar til að þeim sýndist að framkvæmdin yrði að veruleika og þeirra tækifæri fælist þá í því að skreyta sig með stuðningi við verkið.

Það þarf ekki langa upprifjun til að komast að raun um að borðleggjandi má telja að hvatning og stuðningur KEA við verkefnið í byrjun hafði afgerandi vægi –  og alveg sérlega þegar kom að því að fjármagna undirbúningsrannsóknirnar.   Án KEA er meira en óvíst hvort verkefnið hefði lifað af andstreymið – og alla vega ólíklegt að það hefði komist á framkvæmdaplönin frá árinu 2010.

Að fjármagna hluta af framkvæmdakostnaði með veggjöldum;

Upphaflega var meining frumkvæðisaðila að fjármagna ca þriðjung kostnaðar með framlögum hins opinbera en greiða niður lánsfjármögnun með veggjöldum fyrir tveimur þriðju kostnaðarins –  líka  var velt væri upp þeim hugmyndum að skipta verkinu í 50:50 með fjármögnun á fjárlögum á móti veggjöldunum. .    Illa gekk að fá ríkisstjórn og ALþingi til samtals á þeim nótum  og má eiginlega segja að þingmenn margra flokka og frá flestum landshlutum hafi fundið Vaðlaheiðargöngum allt til foráttu.

Svo kom Hrunið og allt í kaldakoli;

Í kjölfar hruns  lögðu áhugamenn og Greið leið upp við ráðamenn að fullfjármagna Vaðlaheiðargöng  með veggjöldum notenda.    Ljóst var að heimamenn staðfestu verulegan greiðsluvilja sinn og stuðning við verkefnið.    Áhrifafólk í atvinnulífi reyndust áfram um að koma þessu mannvirki á koppinn.

Já annars; hvers vegna Vaðlaheiðargöng?

1984 var vegur um Víkurskarð opnaður – og reyndist mikil samgöngubót framyfir gamla krókótta veginn um há-heiðina og hinn um Fnjóskadal og snjóflóðasvæðið í Dalsmynni.    Fljótt kom hins vegar á daginn að vegarstæðið í Víkurskarði reyndist veðravíti – – og ófærðardagar urðu margir.   Vikum saman hefur vegurinn um Víkurskarð verið illfær eða ófær 12-20 klukkustundir á sólarhring –   og algerlega vonlaust að skipuleggja vinnu og þjónustusókn yfir heiðina –  að maður tali nú ekki um ferðaskipulag milli Akureyrar og Austfjarða.      Hvern einasta vetur hafa komið upp kaflar þar sem Víkurskarðið hefur verið lokað vegna óveðra og ófæraðr  – sólarhringum saman – og engin leið að koma neyðarflutningum sjúkrabíla yfir.

Síðustu 10 árin hefur skipulega verið unnið að því að skerða sjúkrahúsþjónustu á Húsavík og ma. leggja af fæðingarþjónustu.    Ferðamannasprengingin sem hefur nánast staðið frá 2010 hefur gerbreytt viðhorfum til samgangna á þessu landshorni.    Það er fyrst frá árinu 1995-1996 sem reynt var að halda reglulegum vetrarsamgöngum milli Mývatnssveitar og Egilsstaða.     Á rúmum 20 árum hefur orðið alger viðhorfsbreyting ganvart samgönguöryggi í landshlutanum.

Vaðlaheiðargöng snúast ekki að neinu leyti um vegstyttingu um 16 kílómetra sem slíka – styttingin um nokkrar vegmínútur er að mestu bara bónus.     Vaðlaheiðargöng snúast eiginlega eingöngu um samgönguöryggi og samfélagslega og efnahagslega hagsmuni á þeim grunni.    Þjónustusókn frá Þingeyjarsýslu og Austurlandi verður miklu auðveldari og tryggari –  og heilbrigðis- og öryggismál landshlutans færist á nýtt og betra stig aftur.   Ferðaþjónustan getur gert út á val um gistingu á Akureyri, Húsavík eða Mývatnssveit og nokkuð öruggar samgöngur á mill og til áhugaverðustu áningarstaðanna í nágrenni.    Vinnusvæði Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu verður næstum samfellt  –  og Austurland öllu nær en fyrr.

Með því að þjónustustofnun almennings í formi Vegagerðarinnar neitaði að undirbúa verkefnið í alvöru – og sinnti því ekki í áratugi –  og alþingismenn og ríkisstjórn kusu að horfa framhjá þessu mikilvæga hagsmunamáli varð til stemming á nærsvæðinu fyrir því að notendur mundu sjálfir taka þetta verkefni upp á sína eigin ábyrgð og borga allan kostnaðin með notkun sinni í 25-40 ár.   Þar var sannarlega horft til reynslunnar af Hvalfjarðargöngum.

Rétt er þó að rifja upp að Spölur sem byggði Hvalfjarðargöngin var fjármagnaður af einkaaðilum sem fengu ríkisábyrgð og einkaleyfi til innheimtu veggjaldanna  –  og var tryggður býsna ríflegur arður af sínu fjármagni.   Greið leið og Vaðlaheiðargöng sækja ekki hagnað af rekstri Vaðlaheiðarganga og munu ekki fá slíkan arð.     Það vekur hins vegar athygli að ríkissjóður sem er lánveitandi Vaðlaheiðarganga innheimtir rosalegt vaxtaálag á fjármögnun –  er beinlínis að okra á láninu og okkur vegfarendum í gegn um Heiðina.   Á sama hátt er það mjög óvenjulegt að gera Vaðlaheiðargöngum að kosta allar vegtengingar og frágang – ólíkt því sem hefur tíðkast við önnur jarðgöng.

Andróður FÍB gegn  Vaðlaheiðargöngum og afvegaleiðing á gögnum –  jafnvel með beinum öfugsnúningum sem teljast varla annað en fölsun  eins og skýrsla kennd við Pálma Kristinsson –  er meira en furðulegur þar sem meint félag bifreiðaeigenda er hagsmunafélag vegfarenda og ættu undir engum kringumstæðum að beita sér gegn framförum í einstökum landshlutum.

Einn og einn þingmaður hefur farið offari gegn Vaðlaheiðargöngum og gengið býsna langt í skrumskælingum raunveruleikans.   Sérstaklega er framganga Björns Leví Gunnarssonar ámælisverð þar sem hann dylgjar og snýr útúr á margan hátt og fullyrðir –  jafnvel að lögbrot falsanir og lygi hafi verið beitt þegar ALþingi tók sínar ákvarðanir.   Auðvitað var sett fráviksákvæði í sérstökum lögum gagnvart ríkisábyrgðum –  enda eru Vaðlaheiðargöng ekki dæmigerð “einka-hagnaðar-framkvæmd” – af því að ríkið er þriðjungs eigandi og Greið leið eigandi að tveimur þriðju – og ríkið eignast framkvæmdina að fullu að loknum endurgreiðslutíma án þess að stofnaðilar taki hagnað af sínu stofnhlutafé.

Á sama hátt;  tapsáhætta ríkisins af framkvæmdinni er ekki fyrir hendi þar sem ef Vaðlaheiðargöngum reynist ofviða að standa undir afborgunum af lánum ríkisins þá yfirtekur ríkið einfaldlega framkvæmdina og reksturinn og innheimtir veggjöldin beint þar til framkvæmdin verður að fullu greidd.

Væntingar okkar margra hér á NA-landi er að spár um umferðarmagn muni reynast langt undir því sem raunin er þannig að fljótt verði mögulegt að lækka grunngjaldið  –  og menn verði jafnvel ásáttir um að lengja endurgreiðslutímann líka þannig að íþynging fyrir atvinnurekstur og heimili íbúanna verði bókstaflega minniháttar.

Sjálfur hyggst ég fagna því að með fleiri ferðum milli þingeyjarsýslu og Akureyrar – að það verður álíka langt heiman frá mér að tvíbreiðri Fnjóskárbrú eins og er út á Svalbarðseyri – – og ekki erfiðari ferðaleið.    Kolefnissporið mun minna en áður með brölti yfir fjallveginn – og öryggið raunverulegt að maður komist aftur heim þrátt fyrir kolvitlaust veður á Víkurskarðinu.

Til hamingju öll – íslendingar – fögnum framförum