Það var mikil fyrirhöfn fyrir bændur á Héðinshöfða á Tjörnesi á ná forystukindum sínum í hús um helgina, en tvær ær þaðan hafa verið úti í allan vetur og erfitt að ná þeim. Lengi vel voru þær í fjallgarðinum, en upp á síðkastið voru þær farnar að sjást við bæi og þá aðallega í landi Hringvers og Syðri-Tungu. Með þeim var ein hvít ær frá Hóli í Kelduhverfi og tveir hrútar undan annarri forystuánni.  Allar þessar kindur náðust og tók eltingaleikurinn upp undir sex klukkutíma.

Að síðustu náðust þær við Héðinshöfða með hjálp nokkurra manna og tíkurinnar Pöndu frá Ketilsstöðum, en hún er mjög þjálfaður og þekktur fjárhundur. Jónas Jónasson bóndi á Héðinshöfða sagðist hafa verið mjög þreyttur þegar viðureigninni lauk, en jafnframt ákaflega glaður með það að hafa náð kindunum.

Á myndinni má sjá f.v. Jónas Jónasson bónda á Héðinshöfða með forystuána Hosu og Halldór Sigurðsson bónda á Syðri-Sandhólum  með forystuána Lipurtá, en Halldór aðstoðaði Jónas ásamt fleirum við að ná fénu. Þess má geta að Lipurtá átti hrútana og við fósturtalningu sem fór fram á Héðinshöfða rétt eftir að féð náðist kom fram að báðar forystuærnar ganga með tvö lömb og hvíta ærin frá Hóli í Kelduhverfi er með þrjú. Útigönguærnar þrjár ganga því með sjö lömb.

Forystuærnar eru upphaflega tvílembingar saman, en Hosa slapp út úr réttinni við Héðinshöfða sl. haust og skildi sín lömb þar eftir og fór til fjalls. Líklega hefur hún hitt Lipurtá systur sína einhversstaðar, en búið var að sjást til þeirra og héldu þær hópinn. Tíðarfar hefur verið þannig að ekkert amaði að kindunum og tiltölulega vel í holdum miðað við aðstæður.