Úthlutun styrkja úr Þróunarsjóði Ferðamála

0
70

Tólf styrkir voru veittir úr Þróunarsjóði Ferðamála 10. desember sl, samtals 31,1 milljón króna, en að sjóðnum standa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Landsbankinn . Þetta var önnur úthlutun úr sjóðnum og bárust honum 56 umsóknir að þessu sinni. Í fyrri úthlutun voru veittar 38,9 milljónir króna til 20 verkefna.

Styrkþegar þróunarsjóðs 2012. Mynd af vef Landsbankans
Styrkþegar þróunarsjóðs 2012. 

Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið. Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímann á Íslandi, með því að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka á þann hátt arðsemi þeirra. Stofnendur sjóðsins lögðu fram 70 milljónir í upphafi, 40 milljónir komu frá Landsbankanum og 30 milljónir frá atvinnuvegaráðuneyti sem úthlutað skyldi í tveimur úthlutunum.Þróunarsjóðnum er ætlað að styðja við samstarfsverkefni fyrirtækja sem lengt geta ferðamannatíma á tilteknum svæðum eða afbragðsverkefni stakra fyrirtækja undir sömu formerkjum. Hvatt er til samstarfs skapandi greina við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Sjóðurinn styrkir einkum verkefnisstjórn, greiningarvinnu, undirbúning verkefna, kaup á ráðgjöf og þróun hugmynda en einnig önnur verkefni sem stuðlað geta að lengingu ferðamannatímans. Styrkir sjóðsins geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnis.

Meðal styrkþega voru;

  • Norðurhjari – Uppbygging ferðaþjónustu frá Kelduhverfi að Bakkafirði – 5.000.000 kr.
    Til að vinna að gerð áætlunar um uppbyggingu á völdum ferðamannastöðum á svæðinu frá Kelduhverfi að Bakkafirði, skipulagi þeirra og merkingum. Greind verða tækifæri í ferðaþjónustu á haustin og vorin, m.a. í veiðiferðamennsku og menntatengdri ferðaþjónustu.
  • Harald Jóhannesson – Fuglaskoðunarferðir á Norðausturlandi – 3.000.000 kr.
    Til að skipuleggja fugla- og náttúruskoðunarferða fyrir erlenda ferðamenn og þróa markaðsefni fyrir þær hérlendis og erlendis.
  • Mývatnsstofa ehf. – Orka vetrarins – 1.800.000 kr.
    Mývatnsstofa og Húsavíkurstofa er samstarfsvettvangur aðila í verslun og ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Félögin koma að ýmsum viðburðum en þeirra á meðal er Orkugangan, “Hestar á ís” og “Mývatnsmaraþon”.

Nánari upplýsingar um aðra styrkþega og frekari upplýsingar um Þróunarsjóð Landsbankans og atvinnuvegaráðuneytisins má finna hér
Myndin er fengin af vef Landsbankans. (atthing.is)