Umhverfis- og lýðheilsuþing Stórutjarnaskóla verður þriðjudaginn 17. apríl

0
110

Þriðjudaginn 17. apríl nk. munu starfsmenn og nemendur Stórutjarnaskóla halda sitt umhverfis- og lýðheilsuþing í 9. sinn.  Þingið verður í sal skólans, það hefst kl 13:10 og stendur til kl. 15:20.

Auk glærukynninga nemenda mun tónlistardeild skólans sjá um tónlistaratriði að venju með hljóðfæraleik og söng.

Aðal fyrirlesari þingsins verður Rannveig Magnúsdóttir hjá Landvernd en hún verður með umfjöllun sem á erindi til allra um það sem skiptir okkur máli varðandi náttúru og heilsueflandi umhverfi.

 Kynntar verða niðurstöður rannsóknar um matarsóun sem nemendur framkvæmdu í vetur. Einnig verður sagt frá fyrstu niðurstöðum á mælingum í vistheimtarverkefni Landverndar sem nemendur í 6. – 8. bekk taka þátt í. Þá kemur fyrrum nemandi skólans með fyrirlestur um Barnasáttmála sameinuðuþjóðanna og nýráðinn verkefnastjóri hjá Þingeyjarsveit segir frá verkefninu heilsueflandi samfélag í sveitarfélaginu. Loks verður gerð grein fyrir smá könnun sem framkvæmd var meðal nemenda skólans varðandi símaeign og símanotkun þeirra.

Umhverfis- og lýðheilsunefnd Stórutjarnaskóla