Um þjófa og heiðarlega viðskiptamenn

0
81

Um daginn þegar skattskráin var birt tjáði fjölmiðlakonan Inga Lind í fjölmiðlum þá skoðun sína að birtingin ýtti undir að þjófar rötuðu til að stela frá hinum ríku. Trúlega hefur hún þar verið að lýsa áhyggjum af eigin hag því hún ku einmitt tilheyra nefndum hópi, það er að segja hinum ríku.

Gílsi Sigurðsson
Gísli Sigurðsson

 

Nú ætla ég ekki að hampa sérstaklega gáfnafari þjófa almennt. Ég dreg þó í efa að til sé á Íslandi nokkur þjófur með snefil af faglegri sjálfsvirðingu sem ekki veit að blessuð konan er einmitt í hópi hinna ríku, og það án þess að viðkomandi hafi sérstaklega flett því upp í skattskránni. Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum árum segði Inga Lind okkur sjálf, og það í óspurðum fréttum í fjölmiðlum, að hennar áskæri eiginmaður hefði gefið henni einbýlishús á Akureyri í morgungjöf.

Slíkar morgungjafir fá jú ekki fátækar konur.

Í framhaldi af þessu hef ég verið að velta fyrir mér viðskiptum með hlutabréf. En eiginmaður nefndrar Ingu, hefur einmitt ásamt viðskiptafélaga sínum nokkuð fengist við slík viðskipti. Ég hef fyrir satt að þeir félagar hafi meðal annars hagnast um ca. 7,2 milljarða á viðskiptum með hlutabréf í Húsasmiðjunni, sel það ekki dýrara en ég keypti. Ekki á viðskiptum með byggingavörur, heldur á viðskiptum með hlutabréf í byggingavöruverslun. Eftir viðskiptin varð Húsasmiðjan fljótlega gjaldþrota, því söluverð bréfanna var langt umfram raunvirði, jafnvel svo að einhverjum gæti dottið í hug að um þjófnað hafi verið að ræða. Svo bankinn yfirtók verslunina og seldi síðan hræið til Dana. Eins dauði er annars brauð í þessum viðskiptum eins og öðrum.

Og það er einmitt málið. Þegar einhver græðir á hlutabréfaviðskiptum þá tapar einhver annar. Í slíkum viðskiptum verða engin verðmæti til, þau færast bara milli manna. Og kauphallir heimsins eru til þess gerðar að þeir sem græða óhæfilega á því að selja ónýt verðbréf á okur verði, þurfi ekki að horfast í augu við þá sem kaupa af þeim köttinn í sekknum. Fátækir berjast óvíða fyrir stofnun kauphalla, það gera þeir ríku hins vegar.

Fyrir nokkrum árum keypti ég hlutabréf í banka, til að fá skattaafslátt. Skattaafslátturinn var ástæðan fyrir kaupunum, í sjálfu sér átti ég aldrei von á að græða mikið meira á þessum viðskiptum. En viti menn, fáeinum árum síðar varð allt vitlaust í kauphöllinni og ég seldi bréfin á tvöföldu verði og rúmlega það. Og ég var rígmontinn af viðskiptasnilld minni. Það eina sem skyggði á var að bréfin héldu áfram að hækka eftir að ég seldi. En svo kom hrunið. Og sá sem keypti, tapaði öllu kaupverðinu.

Mér hefur ekki liðið sérstaklega illa þó að ég hafi með þessum hætti grætt á einhvers annars tapi. Enda svona gróði viðurkennd aðferð til að bjarga sér, og ég veit ekkert hver það var sem keypti og tapaði. Þekki ekki börnin hans heldur. Ég er þó nokkuð viss um, að ef ég hefði selt nágranna mínum bréfin augliti til auglitis, þá liði mér ekki eins vel með gróðann, þrátt fyrir að hann væri einungis talinn í þúsundum en ekki milljörðum eins og í fyrrnefndum viðskiptum með Húsasmiðjubréfin.

Ég held því að breyta ætti reglum um verðbréfaviðskipti. Öll slík viðskipti ættu að fara fram persónulega milli manna, þannig að sá sem selur þurfi að horfast í augu við þann sem kaupir. Slíkt fyrirkomulag dregur verulega úr líkum á því að menn leyfi sér að sprengja upp verð á ónýtum bréfum. Ef menn bara þurfa að tala persónulega við og kynnast þeim sem er að fara að tapa á viðskiptunum. Spillingin þrífst í skjóli leyndarinnar.

Gísli Sigurðsson.