Um húsnæðismál á NA landi

Benedikt Sigurðarson skrifar

0
360

Um þessar mundir skortir húsnæði víðast um landið.  Leiguverð rýkur upp og á markaðssvæðum Höfuðborgarinnar og á Akureyri seljast nýar íbúðir verulega yfir raunverulegum byggingarkostnaði. Lánakjör eru erfið fyrir flesta – og unga fólkið sem ekki er fætt til auðs eða arfs á mjög erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn –  sætir óöryggi og okri á leigumarkaði spákaupafélaga.

Verktakar og fjárfestar hafa ekki áhuga á að byggja ódýrt eða taka áhættu á byggingum á jaðarsvæðum í dreifbýlinu.   Nýlega staðfestist að ca 6.600 íbúðir eru reglulega í Airb&b ráðstöfun og þannig ekki til leigu fyrir lögheimili fjölskyldna yfir árið.   Nú er staðfest að gert er ráð fyrir varanlegum störfum fyrir á bilinu 7.000-11.000 innflytjendur á næstu missirum. Þar með virðist augljóst að skorturinn er alls ekki 9.000 íbúðir á landsvísu eins og Íbúðalánasjóður metur heldur sennlega nokkru nær 20.000.  Síðustu nærri 30 mánuði hefur mældur byggingarkostnaður einungis hækkað óverulega – á meðan er mikil þensla en afköst í íbúðabyggingum samt langt undir þörfum.   Framboð íbúða mun lítið aukast meðan við eru föst í  hefðbundnum staðbyggingum íbúða til hagnaðar fyrir verktaka og braskfélög.

Einstök fyrirtæki eru farin að byggja starfsmannahús; – jafnvel einhvers konar nýja gerð af “verbúðum” sem tæplega bjóða upp á viðunandi félagslegar aðstæður til lengdar.

Fyrir hönd Búfesti hefur verið reifuð hugmynd um samstarf neytendafélaga og sveitarfélaga á landsvísu;  Viðlagasjóð húsnæðismála – sem mundi byggja kannski 5.000 íbúðir á næstu fáeinum árum.  Þá er vísað til reynslunnar eftir Vestmannaeyjagosið þegar byggðar voru um 500 íbúðir með innflutningi einingahúsa og góðri aðstoð velviljaðra nágranna.

Búfesti hsf er neytendafélag en getur að sjálfsögðu átt samstarf við sveitarfélög og velvildarfjárfesta um byggingu nýrra íbúða og á nýjum þjónustusvæðum.   Það eru þá félagsmenn og sveitarstjórnir sem mundu staðfesta að eftirspurn og þörf sé fyrir nýbyggingar á viðkomandi svæðum.

Búfesti hsf hefur kannað hvort ekki er einmitt nú réttu skilyrðin til að freista þess að ná saman fulltrúum fleiri sveitarfélaga og Íbúðalánasjóðs og hugsanlega fyrirtækja á NA landi með það markmiði að til verði “samstarfsverkefni um raðsmíði og magninnkaup á forsmíðuðum einingahúsum eða húshlutum.”   Með hagkvæmri hönnun og raðsmíði er augljóslega hægt að lækka byggingarkostnað umtalsvert  – og með innkaupasamstarfi munu einingarverð lækka og flutningskostnaðurinn út á landsbyggðirnar jafnvel verða viðráðanlegur.

Með lögum nr. 52/2016 um stofnstyrki til íbúðabygginga fyrir lágtekjufólk skapast möguleikar til að unnt verði að byggja íbúðir á jaðarsvæðum þar sem þörf fyrir húsnæði er til staðar.   Sá misskilningur virðist hins vegar ríkjandi í einstökum sveitarfélögum á landsbyggðinni að það sé “ekki þörf fyrir íbúðir handa lágtekjufólki” og þess vegna ekki eftirsóknarvert að fara slíka leið í byggingum.    Þá er hins vegar eðlilegt fyrir kjósendur að spyrja sveitarstjórnina sína hvort menn vilji virkilega ekki greiða fyrir því að ungt fólk með sérfræðiþekkingu eða nýlega menntun – geti flutt (til baka) í sveitarfélagið og hvort menn hafi ekki áttað sig á að til að rosknari borgarar eigi möguleika á að stíga upp frá bújörðum eða stórum fjölskylduhúsum þá þurfi að vera til nett húsnæði –  til leigu eða í hóflegum búseturétti.   Framtíð byggðar á landsbyggðunum og jákvæð íbúaþróun er því aðeins möguleg að það verði endurnýjun – með nýju húsnæði og með fólki sem ekki er á fastri íbúaskrá um þessar mundir.

Það er mat okkar stjórnenda Búfesti hsf að möguleikar neytendafélaga séu í aðstæðum sem nú eru –  með íbúðaskorti, háu leiguverði og ótryggum lánakjörum.  Íbúðafélög sem stefna á sjálfbæran rekstur og hagkvæmni þar sem útlokað er að einstaklingar taki fjármuni út úr rekstri  til einkahagnaðar eru því að okkar mati svarið sem beðið er eftir árið 2017.

Tækifæri slíkra félaga verða einungis raungerð með því að neytendur sjálfir, kjósendurnir og sveitarstjórnir og Alþingismenn leggist á eitt með stéttarfélögum og velvildarfjárfestum  – og skapi betri skilyrði fyrir því að félögin geti fjármagnað sig hagkvæmt (í gegn um Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði og/eða Lánasjóð sveitarfélaga).   Jafnhliða þarf sveitarfélag að tryggja ódýrt aðgengi að lóðum og sveigjanleika í deiliskipulagi og túlkun á byggingarreglum.

Búfesti hsf hefur boðið sveitarfélögum á NA-landi upp á samtal með samstarf fyrir augum.   Allmörg sveitarfélög sýna áhuga og einnig hefur Félag Eldri Borgara á Akureyri (EBAK) staðfest áhuga á samstarfi um nýtt íbúðaframboð með leigu og í  búseturétti.   Búfesti hsf undirbýr því að vinna með aðilum að hönnun og áætlanagerð og  leggja formlegri drög að innkaupum.  Búfesti hsf mun hugsanlega geta orðið eigandi og rekstraraðili íbúða á nýjum þjónustusvæðum ef félagsmenn og sveitarfélögin staðfesta þörf og eftirspurn.

Sveitarfélög, stéttarfélög og velvildarafjárfestar (félög-fyrirtæki) gætu td. orðið eigendur að búseturétti íbúða á byggingarstigi en síðan selt búseturéttinn til neytenda.  Á sama hátt gætu samstarfsaðilar haldið á nýju félagi meðan það væri að fóta sig  –  en notfært sér að kaupa umsýslu og rekstur íbúðanna hjá Búfesti hsf og ganga þar með inn í hagkvæmni af aukinni samlegð.

Við erum þá að tala um nettar og hagkvæmar íbúðir sem geta verið til leigu eða með hóflegum búseturéttarhlut (5%-30% af verðmæti).  Einnig er vel hugsanlegt að bjóða upp á að einstaklingar fjármagni eignaríbúðir –  sem þeir geta þá einungis selt innan félags aftur miðað við fast verð en ekki nýtt til einkahagnaðar.

Á næstu vikum og mánuðum ættu kjósendur að setja húsnæðismálin í slíkan samvinnufarveg –  og skapa með því forsendur fyrir hagkvæmum nýbyggingum og auknum tækifærum fyrir allar kynslóðir á landsbyggðunum –  rétt eins og á markaðssvæðum stórbæjanna.

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri Búfesti hsf

Búfesti hsf er húsnæðissamvinnufélag sem áður hét Búseti á Norðurlandi.  Félagið rekur 234 íbúðir á Akureyri og Húsavík.  Markmið félagsins er að tryggja félagsmönnum húsnæðisöryggi með hóflegum kostnaði miðað við gæði íbúða.