Tvíreykta Húsavíkurhangikjötið frá Norðlenska þykir best samkvæmt bragðprófun DV

0
414

Tvíreykta Húsavíkurhangikjötið frá Norðlenska bar sigur úr býtum í árlegri hangikjötsmökkun DV þar sem sex manna dómnefnd smakkaði og dæmdi fjórtán tegundir af íslenskum hangilærum frá fimm framleiðendum. Hangikjöt þykir ómissandi hluti af jólahaldi á ótal íslenskum heimilum og miðað við niðurstöður blindsmökkunar DV í ár er árgangurinn í ár einstaklega góður. Frá þessu segir á DV.is

Tvíreykt Húsavíkurhangikjöt. Mynd: DV

Keppnin var hnífjöfn að þessu sinni og sjaldan verið eins mjótt á munum. Aðeins skildu 0,5 stig að fyrstu sex sætin í ár en á endanum var það tvíreykta Húsavíkurhangikjötið sem var hlutskarpast.

Sambandshangikjötið, sem er einnig frá Norðlenska, varð í öðru sæti með 7,66 stig og birkireykta hangikjötið frá SS hafnaði í þriðja með 7,58 stig.

Hangikjötið frá Norðlenska kom vel út úr bragðprófinu í ár en Norðlenska átti þrjú af fimm bestu hangikjötslærunum sem smökkuð voru. Hin tvö voru frá SS. Kjarnafæði, sem átti besta hangikjötið í fyrra samkvæmt DV, varð í sjötta sæti í ár.

Þetta er tíunda árið í röð sem DV framkvæmdir blinda bragðprófun á jólakjöti, en í ár var ákveðið að einblína á hangikjötið.

 

Sambandshangikjötið frá Norðlenska. Mynd: DV

Dómnefndina í ár skipuðu Bjarki Hilmarsson, matreiðslumeistari á Hótel Geysi, Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans, Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Samtaka sauðfjárbænda, Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Hvolsvelli, Bjarni Geir Alfreðsson matreiðslumeistari, einnig þekktur sem Bjarni snæðingur, og Margrét Ríkharðsdóttir, matreiðslumeistari á Bryggjunni brugghúsi.

 

 

Sigurvegarar fyrri ára hjá DV.

2015 –  Kjarnafæði – taðreykt norðlenskt
2014 –  KEA
2013 – Fjarðarkaup
2012 – Iceland
2011 – Sambandshangikjötið
2010 – Húsavíkurhangikjötið
2009 – Hólsfjallahangikjötið og Húsavíkurhangikjötið
2008 – Húsavíkurhangikjötið
2007 – Hólsfjallahangikjötið

DV.is