Tvær elstu merktu álftir Evrópu eru Þingeyskar

0
257

Þann 1. mars s.l. las Gaukur Hjartarson á litmerki álftar (með merkið BXM) við Arnþórsgerði í Kaldakinn með sjónauka.  Upplýsingar um álesturinn sendi hann á Náttúrufræðistofnun Íslands sem fann út að fuglinn hefði upprunalega verið merktur sem ungur kvenfugl 5. september 1986 við Engivatn á Fljótsheiði og kemur fuglinn því til með að eiga 28 ára afmæli á næstu vikum.  Frekara grúsk á stofnuninni leiddi í ljós að kerlingarálftin er nú talin elsta merkta álft sem fundist hefur í Evrópu.  Fuglinn náðist raunar á sama Engivatni 22. ágúst 2013 og fékk þá litmerkið sem Gaukur las á.  Þá var hún í fylgd tveggja unga sinna.

Ósk Helgadóttir passar ungana og Lára Guðmundsdóttir heldur á með BXN. Mynd: Sverrir Thorstensen.
Ósk Helgadóttir passar ungana og Lára Guðmundsdóttir heldur á með BXN. Mynd: Sverrir Thorstensen.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á ferðum sínum um Bárðardal í gær, 8. maí, fann Sverrir Thorsteinsson sömu álft með maka sínum á kornakri við Arndísarstaði þar sem hún bíður væntanlega eftir að snjóa leysi í heiðinni.

Álftin BXN sem er 28 ára gömul, við Engivatn. Mynd: Sverrir Thorstensen
Álftin BXN sem er 28 ára gömul, við Engivatn. Mynd: Sverrir Thorstensen

 

 

En Sverrir fann annan öldung á sínum ferðum, því að á litlum snjólausum bletti við Stóruvelli var merkt álftapar.  Annar þeirra fugla var merktur sem a.m.k. tveggja ára fugl í Felli á Jökuldal 1988 og er því a.m.k. kosti jafngömul þeirri sem Gaukur las á við Arnþórsgerði.  Þetta par er talið eiga óðal við Sigurðarstaðatjörn á Fljótsheiði.

 

 

Að sögn  Sverris Thorstensen voru BXN og maki hennar í blautum kornakri sunnan við Arndísarstaði í gær. NXF og maki hennar VL3 voru neðan við Stóruvelli á litlum auðum bletti þar.  NXF og VL3 hafa verið par á Sigurðarstaðatjörn í nokkur ár.

 

“Ég náði NXF síðast 2009, en í sumar sem leið tók ég VL3 en náði ekki maka hennar (sem var með litmerki og því nokkuð örugglega NXF).  Tekið skal fram að VL3 er reyndar ekki neinn unglingur, en þó einum 8 árum yngri en NXF.  Kristlaug Pálsdóttir í Engidal merkti VL3 1997 sem fullorðin fugl í Fjaðrafelli á Kálfborgarárvatni – stálmerkið er A3757.  Ég bætti litamerkinu VL3 við sumarið 2002 og þá var hún pöruð NXF sem er með stálmerkið A2269”, sagði Sverrir í spjalli við 641.is í dag.

Tvær elstu þekktu álftir í Evrópu eru því Þingeyskar og bíða nú færis að komast enn á ný í varp á Fljótsheiði. GH.