Tryggvi Snær semur til þriggja ára við Þór

Stefnir á að leika með Valencia á Spáni

0
471

Miðherjinn efnilegi Tryggvi Snær Hlinason skrifaði í dag undir nýjan þriggja ára samning við körfuknattleiksdeild Þórs á Akureyri. Tryggvi er eitt mesta miðherjaefni sem fram hefur komið hér á landi og var lykilmaður í liði Þórs í sem endaði í 8. sæti úrvalsdeildar síðasta tímabil. Tryggvi á framtíðina fyrir sér og eins og flestir körfuboltaáhugamenn vita eru góðar líkur á að Tryggvi haldi í atvinnumennsku í Evrópu í haust. Að sjálfsögðu munu Þórsarar ekki standa í vegi fyrir slíkum fyrirætlunum en samningurinn tryggir hins vegar að ef Tryggvi kýs að bíða með atvinnumannsferilinn eða gera hlé á honum og spila á Íslandi mun hann spila með Þór á Akureyri. Frá þessu segir á vef Þórs á Akureyri í dag.

Að sögn Ágústas H. Guðmundssonar sem skrifaði undir fyrir hönd Þórs eru menn þar á bæ hæstánægðir með samninginn.

Við erum bæði þakklátir og ánægðir. Tryggvi er einstakur leikmaður og frábær drengur og auðvitað eru miklar líkur á því að hann haldi í atvinnumennsku í haust og í sjálfu sér vona ég að svo verði.  Ætli hann sér að þróast í rétta átt sem stór leikmaður þá verður hann að spreyta sig á meðal þeirra bestu og þá á meðal hávaxnari leikmanna en eru á Íslandi.  Þessi undirritun sýnir hins vegar að hjarta hans slær með Þór og hann hefur trú á því góða starfi sem hér hefur verið unnið síðustu ár. Við erum nýbúnir að ráða öflugan og þrautreyndan þjálfara fyrir meistaraflokk karla og yngri flokka starfið er í blóma og ætti að skila öflugum leikmönnum upp í meistaraflokkinn innan fárra ára. Framtíðin er því björt að okkar mati og við erum gríðarlega ánægðir og þakklátir með að Tryggvi ætli að taka þátt í að móta hana með okkur ef hann á annað borð spilar hér á landi

Sagði Ágúst H. Guðmundsson glaðbeittur eftir að hafa skrifað undir samninginn við Tryggva.

En hvað segir Tryggvi Snær um framtíðina?

,,Ég stefni á að fara út í haust til að leika körfubolta og er Evrópa líklegasti áfangastaðurinn. Ég fór og skoðaði aðstæður hjá Valencia og líst mjög vel á það félag.  Næstu verkefni hjá mér í sumar eru með A-landsliðinu á smáþjóðaleikunum og í framhaldinu taka við leikir með U-20 liðinu”.

Hvernig hefur dvölin verið hjá Þór þín fyrstu ár hjá félaginu?

,,Þetta hefur verið algjörlega frábær tími og afskaplega vel verið hugsað um mig hjá Þór. Framfarir hafa verið miklar hjá mér og ég hef notið hverrar mínútu með félaginu.  Vegna þessa er ég tilbúinn að skrifa undir langtímasamning við mitt uppeldisfélag þar sem mér hefur liðið afskaplega vel”
.

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér hjá félaginu?

,,Framtíðin er verulega björt, það er á hreinu.  Ég var svo heppinn að kynnast 2001 árganginum hjá félaginu en ég æfði með þeim á tækniæfingum í vetur þ.e.a.s. morgunæfingum.  Þessi árgangur er algjörlega frábær og ekki þarf að kvíða framtíðinni þegar að þeir taka við keflinu sem er styttra í en margir halda að mínu mati”.