Tryggvi Snær – Næst stigahæstur í fyrsta leik með Zaragoza

0
392

Tryggvi Snær Hlinason fór frábærlega af stað með liði Zaragoza þegar Spánarmeistaramótið í körfubolta, ACB deildin, hófst sl. föstudagskvöld. Tryggvi Snær og samherjar hans unnu sigur á liði Gran Canaria á útivelli, 79:73, fyrir framan rúmlega 5000 áhorfendur. Frá þessu segir á vef Þórs á Akureyri.

Tryggvi skoraði 12 stig í leiknum og var næst stigahæstur leikmanna Zaragoza. Hann byrjaði á bekknum en lék í alls 17 mínútur og 29 sekúndur. Tryggvi hitti úr 6 af 8 skotum og tók tvö fráköst, eitt í vörn og annað í sókn.

Leikurinn var sveiflukenndur framan af; heimamenn byrjuðu betur og voru mest 8 stigum yfir í fyrsta leikhluta en þegar honum lauk voru Tryggvi og félagar stigi yfir, 17:16. Þeir höfðu enn forystu í hálfleik, 39:33 og létu hana aldrei af hendi.

Á vef Þórs á Akureyri er eftirfarandi haft eftir Tryggva um leikinn.

„Ég spilaði slatta og gekk bara mjög vel. Nú er bara að halda áfram að vinna og verða betri, verði stærri hluti af þessu liði,“ sagði Tryggvi við heimasíðuna í kvöld. Tryggvi var í sjöunda himni með þessa góðu byrjun á tímabilinu í sterkustu landsdeild í Evrópu. „Þetta er stór sigur fyrir okkur. Og fyrir mig er þetta mjög góður leikur til að byrja tímabilið á,“ sagði hann.

Á vef Zaragoza má lesa umfjöllun um leikinn auk myndbands úr leiknum og í myndbandinu hér að neðan má sjá frammistöðu Tryggva í leiknum