Tryggvi Snær magnaður gegn Svartfjallalandi – Svíþjóð á miðvikudag

0
256

Íslenska U-20 ára landsliðið í körfubolta vann gríðarlega mikilvægan sigur á liði Svartfjallalands 60-50 í A-deild Evrópukeppninar í gær.

Vefurinn Karfan.is segir að Bárðdælingurinn stóri, Tryggvi Snær Hlinason hafi átti ofboðslega mikið í þessum sigri, en Tryggvi endaði með 19 stig, 13 fráköst og 3 varða bolta. Auk þess að hitta 64% í leiknum.

Á vefnum Karfan.is segir einnig að Íslenska liðið leitaði mikið á Tryggva Snæ í sókninni sem reyndist erfitt fyrir Svartfjallaland að bregðast við. Varnarlega breytti hann sóknarleik Svartfjallalands mikið með veru sinni í teignum.

Blaðamenn hér í Krít halda vart vatni yfir frammistöðu Tryggva á þessu móti. Þeir spyrja ítrekað hvers vegna leikmaðurinn hefur ekki spilað erlendis og eru gapandi hissa þegar þeim er tjáð að ekki séu mörg ár síðan Tryggvi byrjaði að leika körfubolta.

Ísland – Svíþjóð á morgun í 16-liða úrslitum

Ljóst er nú þegar öllum leikjum í riðlakeppni A-deildar evrópumóts U20 landsliða er lokið, að Íslendingar fá Svía í 16 liða úrslitum mótsins, en Svíþjóð endaði í öðru sæti A-riðils sem lauk í Chania í dag.

Ísland mætti Svíþjóð á æfingamóti sem fram fór í Reykjavík fyrir nokkrum vikum. Þar vann Ísland þriggja stiga sigur eftir frábæra endurkomu í lokin. Íslenska liðið spilaði alls ekki frábærlega í þeim leik og því má segja að möguleikar Íslands á að komast í átta liða úrslit séu að minnsta kosti til staðar. Karfan.is