Tónkvíslin er á morgun – 20 söngatriði á dagskrá

Helgi Björns er gestur kvöldsins - Í beinni á N4

0
268

Annað kvöld kl 19:30  verður Tónkvíslin, söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum haldin í íþróttahúsi Framhaldsskólans að Laugum. Þar munu söngvarar etja kappi um Tónkvíslina, verðlaunagrip keppninnar. Sigurvegari fær rétt til þess að taka þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna nú í vor.

Viðburðurinn er gríðarlega metnaðarfullt verkefni framhaldsskólanema á Laugum, er sjá alfarið um framkvæmd og undirbúning. Allt er unnið í sjálfboðavinnu, en þeir sem óska eftir því geta fengið verkefni sín metin til eininga. Þeir nemendur sem kjósa að taka þátt skapa sér því mikilvægan sess innan viðburðarins og öðlast þar ómetanlega reynslu.

Tónkvíslin hóf göngu sína sem framhaldskólasöngkeppni árið 2006, en hefur nú stækkað umgjörðina og eiga nemendur í efstu bekkjum grunnskóla auk framhaldsskólanema, tækifæri til að taka þátt. Grunnskólanemendur frá Þingeyjarskóla, Borgarhólsskóla,  Stórutjarnaskóla og Öxarfjarðarskóla taka þátt í Tónkvíslinni og veitt eru verðlaun bæði í grunnskólaflokki og framhaldsskólaflokk. Að þessu sinni munu 20 atriði taka þátt og var í fyrsta sinn í ár haldin undankeppni þar sem aðsóknin var gríðarleg.

Dómarar Tónkvíslarinnar verða þau Camilla Rut, Borgar Þórarins og Lára Sóley, en þau þekkja öll vel til tónlistar. Dómarar velja efstu þrjú sætin á báðum hlutum en áhorfendur greiða sínu uppáhaldssöngatriði atkvæði sitt í símakosningu og velja þannig vinsælasta atriðið. Öll lögin hafa númer 900-91xx.

Hljómsveit Tónkvíslarinnar sem heitir Skilnaðarþjónustan, er að meirihluta skipuð nemendum við skólann og hafa þeir æft mikið að undanförnu.

Helgi Björns verður sérstakur gestur Tónkvíslarinnar í ár og mun hann skemmta gestum á meðan dómarar gera upp hug sinn og niðurstaðan úr símakosningunni liggur fyrir.

Tónkvíslin verður í beinni sjónvarpsútsendingu á N4, fyrir þá sem ekki komast á staðinn. Exton sér um hljóðbúnað og ljósabúnað og Kukl um tökubúnað.

Tónkvíslin hefst stundvíslega kl 19:30 annað kvöld. Hægt er að kaupa miða rafrænt á miðasöluvefnum tix.is. Þar er hægt að borga með greiðslukorti eða í gengum smáforritin Aur og Kass. Einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn.

Almennt miðaverð: Kr. 3000
Börn 6 – 15 ára Kr. 2000
Frítt fyrir börn undir 6 ára

Meðfylgjandi myndir voru teknar á æfingu í kvöld.

Mikill tækjabúnaður er notaður á Tónkvísl
Meira dót
Enn meira dót
Sviðið