Tónkvísl 2018 – 20 flytjendur taka þátt í aðalkeppninni

Tilkynnt um gest Tónkvíslarinnar í næstu viku

0
855

Nú er ljóst hvað flytjendur taka þátt í Tónkvísl 2018, söngvakeppni Framhaldsskólans á Laugum, en halda þurfti sérstaka undankeppni í fyrsta skipti, vegna mikils áhuga. Í Tónkvíslinni í ár verða 20 söngatriði. Tólf flytjendur koma úr Framhaldsskólanum á Laugum, fimm frá Borgarhólsskóla á Húsavík og einn frá Stórutjarnaskóla, Öxarfjarðarskóla og Þingeyjarskóla.

Upphaflega voru skráðir 31 flytjandi til keppni í Tónkvíslinni, en nú er sérstök dómnefnd búin að velja 20 bestu söngatriðin sem keppa í aðalkeppninni 17. mars nk. en undankeppnin fór fram um sl. helgi. Stúlkur eru í miklum meirihluta flytjenda í ár, en af 20 flytjendum eru 16 stúlkur.

“Forvalshelgin gekk vel, en eins og hefur komið fram áður voru 31 þáttökutilkynning og niðurskurðurinn erfiður að sögn dómnefndarinnar. Gestur Tónkvíslarinnar hefur verið bókaður og það verður sagt frá því hver það er í næstu viku. Það verður þá einhver gjafaleikur í kringum það. Dómnefndin fyrir sjálfa Tónkvíslina hefur ekki verið fullskipuð en það verður tilkynnt á næstunni hverjir munu skipa hana”, sagði Gabríel Ingimarsson framkvæmdastjóri Tónkvíslarinnar í spjalli við 641.is í dag.

Tónkvíslin er skipt í tvær keppnir, í grunnskólahluta og framhaldsskóla hluta eins og undanfarin ár. Ef listi yfir flytjendur er skoðaður má sjá að sigurvegari grunnskólakeppninar frá því í fyrra, Friðrika Bóel úr Borgarhólsskóla er aftur með í ár. Kristjana Freydís sem varð í öðru sæti í fyrra er einnig með, en tekur þátt fyrir Framhaldsskólann á Laugum í ár og Hafdís Inga sem varð í 3. sæti í grunnskólakeppninni í fyrra er líka með í grunnskólakeppninni í ár. Þrír efstu keppendur í Framhaldsskólahlutanum frá því í fyrra verða ekki með í ár þar sem þau hafa öll lokið námi við skólann.

Miðasala á Tónkvíslina hefst fimmtudaginn 1. mars og mun fara fram rafrænt á tix.is eða á tonkvislin@laugar.is. Tónkvíslin verður einnig í beinni sjáonvarpsútsendingu á N4.

Lagalisti og flytendur í Tónkvísl 2018 (smella á mynd til að skoða stærri útgáfu)