Tillögur ríkisstjórnarinnar um vanda sauðfjárbænda komnar fram – bændur ósáttir

Að mismunda bændum eftir búsetu er óásættanlegt

0
1063

Ágæt tillaga að mörgu leiti en því miður stórgölluð. Það að ætla mismuna bændum eftir búsetu er með öllu óásættanlegt. Það sitja allir í sama skítnum hvað hrun á afurðarverði varðar, hvort heldur sem menn búa við Eyjafjörð eða Öxarfjörð. Eigum við ekki að stoppa þessa vitleysu?” skrifar Þórarinn Ingi Pétursson sauðfjárbóndi í Höfðahverfi og fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í færslu á facebook í morgun.

Tilefni þessara ummæla Þórarins eru tillögur ríkistjórnarinnar sem komnar eru fram til að bregðast við markaðserfiðleikum sem steðjað hafa að sauðfjárframleiðslu á yfirstandandi ári, en í tillögunum er m.a. lagt til að 200 milljónum króna verði varið í svæðisbundin stuðning til viðbótar við svæðisbundinn stuðning skv. gildandi búvörusamningi.

Þórarinn Ingi sagði í spjalli við 641.is í dag að þessi hluti tillögunnar væri meingallaður og var Þórarinn langt því frá sáttur við hann.

Sæþór Gunnsteinsson bóndi í Presthvammi í Aðaldal og formaður sauðfjárbænda í Suður Þingeyjarsýslu tók í sama streng í spjalli við 641.is í dag, að með þessum tillögum væri landbúnaðarráðherra að fara þvert ofan í það sem Landsamtök sauðfjárbænda lögðu áherslu á í viðræðum við ríkisvaldið, að björgunaraðgerðirnar myndu ekki mismuna bændum ekki eftir búsetu.

“Þetta er algjörlega óþolandi framganga hjá nýjum ráðherra Landbúnaðarmála. Þessu verður ekki tekið þegjandi því ef þetta fer í gegn sundrar það stéttinni endalega”.

Böðvar Baldursson bóndi í Heiðargarði í Aðaldal og stjórnarmaður í Landsambandi sauðfjárbænda sagði að það hefði ekki verið neinn àgreningr innan stjórnar LS frà upphafi þessa màls, að þeir fjàrmunir sem kæmu til að bæta skaðann skiptist jafnt à alla bændur. Því hefur verið fylgt eftir með ótal fundum og brèfaskrifum við ràðherra og ràðuneytisfólk.

“Mestu vonbrigðin eru þau að nýji ràðherrann hefur ekkert hlustað à okkur og engu breytt. Hann sótti bara rykfallnar tillögur Þorgerðar og skundaði à fund ríkisstjórnarinnar. Þvílík innkoma. Ef niðurstaðan verður svona fær bóndi með 500 kindur frà 400.000 kr til 1.000.000 kr eftir hvar hann býr à landinu”

Tillögur ríkisstjórnarinnar eru á þann veg að lagt er til að veitt verði 665 m.kr. framlag til landbúnaðarmála, til að koma til móts við sauðfjárbændur í þessari erfiðu stöðu. Tillögurnar má sjá hér fyrir neðan.

  • 300 m.kr. verði varið í greiðslur til bænda sem miðast við fjölda kinda á vetrarfóðrum skv. haustskráningu Matvælastofnunar,
  • 200 m.kr. verði varið í svæðisbundin stuðning til viðbótar við svæðisbundinn stuðning skv. gildandi búvörusamningi,
  • 100 m.kr. verði varið til að undirbyggja verkefni á sviði kolefnisjöfnunar, nýsköpunar og markaðssetningar.
  • 15 m.kr. verði varið í úttekt á afurðastöðvakerfinu sem verði grundvöllur viðræðna stjórnvalda, sláturleyfishafa og bænda um breytingar til hagsbóta fyrir neytendur og bændur.
  • Ef niðurstaða úttektarinnar leiðir í ljós að hægt sé að lækka sláturkostnað og auka hagræðingu í greininni þá er opnað á þann möguleika að allt að 50 m.kr. geti verið nýttar til að styðja við hagræðingu í sláturhúsum.

Rétt er að benda á að þessar aðgerðir eru hluti af frumvarpi til fjáraukalaga 2017.  Fjáraukalögin eiga eftir að fara í gegnum umræðu og afgreiðslu á Alþing og geta tekið efnislegum breytingum.

Sauðfé.is