Til kjósenda í Þingeyjarsveit

0
99

Ágæti kjósandi, um leið og við hvetjum þig til að mæta á kjörstað á morgun og nota atkvæðisrétt þinn til að hafa áhrif á framtíð sveitarfélagsins viljum við koma eftirfarandi á framfæri.

X14

 

Á lista Samstöðu er samankomið fólk með mikila reynslu og þekkingu á rekstri sveitarfélagsins ásamt ungu og fersku fólki sem færir með sér nýja sýn á viðfangsefnin. Þessi hópur býður sig fram til starfa með ábyrgð, einlægni og lýðræði að leiðarljósi.

 

Það hefur alltaf verið sýn Samstöðu að skapa svigrúm til að setja þær tekjur sem koma af væntanlegri virkjun Þeistareykja í nýsköpunar og framkvæmdasjóð en ekki taka þær inn í rekstur í því formi sem hann er nú.  Með þetta að leiðarljósi lögðu fulltrúar samstöðu á sig mikla vinnu á síðasta kjörtímabili við að tryggja hagstæða samninga við Landsvirkjun um landleigu, vatnsréttindi, efnisgjöld og fleira.

Samstaða hefur á stefnuskrá sinni að boða til íbúakosninga næsta haust um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Þátttakendur í þessum kosningum verði íbúar á starfssvæði skólans. Við trúum því að með þesu sé verið að stíga jákvætt skref til aukins íbúalýðræðis og mikilvægt sé að þessar kosningar séu vel undirbúnar. Viðberum fullt traust til íbúanna til að nálgast þetta verkefni á málefnalegan og ábyrgan  hátt.

Samstaða stefnir að því að leggja ljósleiðara um allt sveitarfélagið á næstu þremur til fimm árum. Vinna við frumathugun á kostnaði og lagningu stendur nú yfir og allt bendir til þess að þetta sé vel framkvæmanlegt. Við leggjum áherslu á að þessi framkvæmd  nái til alls samfélagsins og trúum því að í þessari aðgerð séu falin mikil sóknarfæri til framtíðar fyrir atvinnulíf og búsetugæði um sveitarfélagið allt.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur af þeim viðfangsefnum sem vinna þarf að á komandi kjörtímabili. Sum þeirra munu taka á okkur íbúana önnur eru ánægjulegri eins og gengur. En eftir stendur að ábyrgð okkar allra liggur í því að nálgast þau  af alvöru og vandvirkni með hagsmuni heildarinnar að markmiði.

Við á framboðslista Samstöðu sem bjóðum okkur fram til að leiða þetta starf í umboði ykkar gerum okkur fulla grein fyrir þessari ábyrgð. Þín ábyrgð kjósandi góður liggur í því að mæta á kjörstað og greiða atkvæði samkvæmt þinni sannfæringu og samvisku og veita síðan komandi sveitarstjórn málefnalegt og uppbyggilegt aðhald á komandi kjörtímabili.

Gleðilegan kjördag.

Frambjóðendur A- listans.