Til hvers þingmenn í höfuðborginni ?

0
117

Íslendingar hafa byggt upp glæsilega höfuðborg, Reykjavík eða „bæinn“ líkt og Reykjavík sé eina byggða bólið á Íslandi. En hvers vegna hefur þjóðinni tekist að byggja upp höfuðborg? Við þessari spurningu er einfalt svar; við verjum tekjum þjóðarinnar þar. Það mætti kallað þetta sogkraft skattpeninga. Ef skattar eru teknir af einstaklingum og fyrirtækjum og eytt í einum ákveðnum landshluta, hverjum þarf þá að koma að óvart og hvers vegna þarf að líta á það sem kraftaverk, ef sá hluti landsins verður hlutfallslega ríkari en aðrir? Enda virðist ríkja sátt um nýtingu skatttekna landsmanna í þeim landshluta.

Hjálmar Bogi Hafliðason.

Rannsóknir hafa sýnt að viðhorf manna eru eitt af því erfiðasta sem hægt er að eiga við. Sérstaklega þegar kemur að hlutum sem skipa stóran sess í lífi fólks. Þá skipta rök og staðreyndir jafnvel engu máli. Það er viðhorfið sem gildir og nægir mörgum sem staðreynd. Fólk hefur þörf á að hafa málstað og myndar sér gjarnan einhverja skoðun byggða á óskhyggju, þ.e. fólk trúir einhverju svo mikið að það fer að búa til rök sem leiða að fyrirfram gefinni niðurstöðu.

 

Viljum við halda landinu í byggð verður að byggja það upp! Þau tækifæri sem felast í uppbyggingu á einu samfélagi veikir ekki önnur. Því miður hefur þetta viðhorf einkennt stjórnun landsins í of langan tíma. Leyfum samfélögum að nýta sín tækifæri til uppbyggingar öllum til heilla.

Til að ná því takmarki þarf landið að eiga fleiri talsmenn. Með vísan í samkomulagið um uppbyggingu á glæsilegri höfuðborg tel ég skynsamlegt að Reykjavíkurkjördæmin tvö eigi engan þingmann. Einhver kann að spyrja sig; en hvað með lýðræðishallann? Við því er einfalt svar. Fyrir hverjar tvær krónur sem verða til utan höfuðborgarsvæðisins verður önnur þeirra eftir og hin fer á höfuðborgarsvæðið. Hverjar tvær krónur sem verða til á höfuðborgarsvæðinu verða báðar eftir á höfuðborgarsvæðinu. Sé t.d. litið til Norðausturkjördæmis koma um 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar úr því kjördæmi. Engu að síður er verðlagning lífsgæða svo háttað að einstaklingur í því kjördæmi skiptir minna máli en á höfuðborgarsvæðinu. Þegar byggja á brú, bora göng eða treysta atvinnu á svæðinu er slíkt talið kjördæmapot en eðlileg uppbygging á höfuðborgarsvæðinu.                         Hjálmar Bogi Hafliðason