Þrek og tár sýnt hjá LMA.

0
304

Nú er Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (LMA) að sýna Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson.  Sýningar hafa gengið vel og hlotið mikið lof áhorfenda. Ein af leikurunum er Ísey Dísa Hávarsdóttir frá Hriflu 3 í Þingeyjarsveit og fær hún alveg sérstakt lof fyrir sinn leik og túlkun. Ísey Dísa mun útskrifast frá MA 17. juní n.k.  Þegar Ísey var aðeins 11 ára lék hún í söngleiknum  Óliver hjá LA og stóð sig mjög vel. Þegar Ísey Dísa var 15 ára lék hún með Leikdeild Eflingar í Reykjadal, fyrst í Djöflaeyjunni eftir Einar Kárason 2008 og síðan Kvennskólaævintýrinu eftir Böðvar Guðmundsson ári síðar. Ísey Dísa hefur leikið með LMA á hverjum vetri, þessi fjögur ár sem hún hefur verið í MA. Fyrir þá sem ekki hafa séð þessa frábæru sýningu  þá verða síðustu sýningar föstudagskvöldið 17. maí,  sú fyrri kl. 20:00 og svo Power-sýning kl. 23:30. Sýnt  er í Rýminu (áður Dynheimar ) á Akureyri.

Ísey Dísa Hávarsdóttir
Ísey Dísa Hávarsdóttir

Í Akureyri vikublað skrifar Sóley Björk Stefánsdóttir :

“Sagan gerist í Reykjavík upp úr 1960 og fjallar um ástir og átök í vel stæðri kaupmannsfjölskyldu sem glímir við ýmis vandamál sem fylgdu uppbroti gamla bændasamfélagsins í kjölfar seinni heimsstyrjaldar.

Persónugallerýið er fjölbreytt og þrátt fyrir að fæstir leikararnir hafi náð að skapa jafn djúpa karaktera og verkið býður upp á þá skiluðu þau sínu vel og náðu afskaplega vel að leiða leikhúsgesti inn í andrúmsloft liðins tíma.

Sérstaklega vel gekk að skapa hið rómantíska andrúmsloft sem mörgum finnst svo óaðskiljanlegt hinum gömlu góðu dögum en verr gekk að magna upp fjölskylduerjur og átök enda er afar krefjandi að skila þess háttar samskiptum á sviði svo vel sé. Einn leikari stóð sérstaklega upp úr hvað varðar persónusköpun en það var Ísey Dísa Hávarðsdóttir sem túlkaði persónu Kristínar Jóhannsdóttur með miklum glæsibrag,,

Einnig skrifar Sóley Björk:

“Yfir heildina stóðu leikararnir sig allir með mikilli prýði, framsagan var virkilega góð og greinilegt að allir voru vel æfðir og þetta er sérstaklega eftirtektarvert þegar um svo langt verk er að ræða þar sem margir fara með heilmikinn texta. Mér varð hugsað til þess stutta stund hvort ég að ég væri jafnvel á leiksýningu listaskóla en ekki bóknámsskóla, ekki síst vegna þess að tónlist og dans er mjög stór þáttur í verkinu og á stundum nálgast það jafnvel að vera söngleikur. Þessu skiluðu menntskælingar afskaplega vel.

Sviðsmyndin er einföld en virkar alveg gríðarlega vel, ekki mikið um tæknibrellur, sem er alveg í anda verksins – einfalt og gamaldags.

leikhópurinn í Þrek og tár
Leikhópurinn í Þrek og tár

Þrek og tár gerir miklar kröfur til leikhópsins enda spilar tónlist, söngur og dans þar nánast jafn stóra rullu og leikurinn sjálfur og það er í raun alveg með ólíkindum að í ekki fjölmennari skóla en MA sé að finna jafn stóran hóp af fólki sem getur skilað öllu þessu með svo miklum sóma en um 50 nemendur taka þátt í sýningunni.  Ég get með góðri samvisku mælt með því að fólk skelli sér á Þrek og tár í Rýminu, ekki bara til að horfa á krúttlega framhaldsskólanemendur gera sitt besta á leiksviðinu heldur ekki síður til að njóta góðrar ánægjulegrar kvöldstundar yfir sögu sem sögð er á fallegan og skilmerkilegan hátt,,

Til hamingju með frábæra frammistöðu Ísey Dísa Hávarsdóttir.