Þjóðfræði á Þorraþræl í Safnahúsinu á laugardag

0
214

Þjóðfræði á Þorraþræl verður haldin í Safnahúsinu á Húsavík 22. febrúar, milli kl 14-17. Í tilkynningu frá Menningarmiðstöð Þingeyinga segir að dagskráin verði fjölbreytt og áheyrendum gefst færi á að kynnast hinum ýmsu þjóðfræðilegu viðfangsefnum.

SafnahúsiðDagskrá: 14:00 – 15:10 stutt erindi.

Sif Jóhannesdóttir – Mátulegt er meyjarstig
Hvert er eðli og háttarlag tröllsins í íslensku þjóðsögunum. Eru þar á ferðinni tröllheimsk tryggðatröll, hin villta náttúra eða hafa sögurnar þann einfalda tilgang að halda börnum heim við bæ. Rýnt í sögurnar með sérstakri áherslu á íslensku tröllskessuna.

Oddný Magnúsdóttir – Eru gamlir „bústangsleikir“ tímalausir?
Flestir þekkja eða hafa heyrt um gömlu barnaleikina með legg og skel, kjúkur og kjálka. Í slíkum leikjum táknuðu leggir og kjúkur kinda eða stórgripa oftast hesta, kýr og kindur.
Fjallað verður í stuttu máli um eitt afbrigði af gömlum bústangsleik; kjúkuleik með kjúkubretti.

Búi Stefánsson – Dauðatónar
Kynning á efni BA-ritgerðar sem er í smíðum. Þar er m.a. skoðuð birtingarmynd tónlistar í tengslum við dauðann í sögulegu samhengi. Fyrst og fremst er þó horft til þeirra breytinga innan hefðarinnar sem átt hafa sér stað á undanförnum árum.

Sigurlaug Dagsdóttir – Kreddur, veftímarit um þjóðfræði
Kynning á tímaritinu sem stofnað var árið 2013. Farið verður lauslega yfir hversvegna þetta tímarit komst á laggirnar og hvernig það á að stuðla að tengslum nemenda við HÍ og annara þjóðfræðinga við samfélagið. Sjá: http://kreddur.is/.

15:10 – 15:40 fyrirspurnir og kaffi

15:40-16:10
Trausti Dagson – Landslag þjóðsagna
Hvernig túlkum við kort yfir þjóðsögur frá 19. öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu? Hvernig getur slíkt kort nýst okkur? Umfjöllun um kortlagningu íslenskra þjóðsagnasafna.
Guðrún Sædís Harðardóttir – Hvar er reykdælska huldufólkið? 
Erindi um reykdælskar þjóðsögur og hvaða vísbendingar þær gefa um þjóðtrú á svæðinu.

16:10-16:50
Eiríkur Valdimarsson MA, þjóðfræðingur – “Frá bleytu til breytu: Af veðurspám almennings fyrr, nú og æ síðan””
Í erindinu verður fjallað um rannsókn höfundar á alþýðlegum veðurspám Íslendinga, sem er þekking fjölmargra kynslóða þessa lands sem þróuðu spár sínar um aldir. Nokkra slíkar spár verða gerðar að umtalsefni, sérstaklega spár úr S-Þingeyjarsýslu. Að auki verður horft til framtíðar og rætt hvernig við upplifum veðrið í dag og hvernig upplifir almenningur stórar breytingar á borð við loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar.”

16:50 – 17:00 fyrirspurnir og spjall. Allir velkomnir, enginn aðgangseyrir.