Þingeyskar heimildir aðgengilegar á Ísmús vefnum -þú getur lagt þitt af mörkum-

0
70

Vefurinn www.ismus.is geymir og birtir á vefnum gögn er varða íslenska menningu fyrr og nú: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta. Verkefnið er í umsjá Tónlistarsafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þegar verkefnið hófst snerist það eingöngu um að birta heimildir um íslenska tónmenningu. Með tímanum hefur áherslan breyst og nú opnar Ísmús breiðan aðgang að tónlistar- og sagnamenningu og ýmsum heimildum um menningarsögu þjóðarinnar. Ísmús opnar þannig áður óþekkta möguleika til rannsókna og heimildaöflunar af ýmsum toga, fyrir almenning, sérfræðinga, nemendur og kennara.

Ísmús.is

 

Öllum er heimill aðgangur að Ísmús og efnið sem þar er birt má brúka til einkanota, miðla til vina og vandamanna og nota til kynningar, kennslu og rannsókna.

 

Á vefnum er nú þegar að finna talsvert magn af hljóðupptökum úr Þingeyjarsýslum.  Athugulir Þingeyingar ráku augun í að mikið efni héðan er einungis talið upp en er ekki aðgengilegt. Það efni á eftir að klippa og tengja við vefinn. Við Þingeyingar getum lagt Árnastofnun lið við þetta verkefni. Rósa Þorsteinsdóttir, sérfræðingur við Árnastofnun verður nk. mánudag og þriðjudag (26.-27. maí) með örnámskeið á Safnahúsinu í því hvernig á að klippa upptökurnar til að setja þær á vefinn. Rósa segir að þetta sé ekki mjög flókið og á færi þeirra sem eitthvað hafa nýtt sér tölvur. Í framhaldinu geta þeir sem læra tæknina hjá Rósu komið á Safnahúsið og unnið að verkefninu þar. Um sjálfboðaverkefni er að ræða og hver og einn setur í verkið þann tíma sem honum hentar.

Þeir sem eiga stundir aflögu og vilja leggja verkefninu lið eru beðnir að setja sig í samband við Sif í síma: 464 1860 eða 896 8218.

ismus.is

husmus.is