Þingeyjarsveit – Stefnumál Samstöðu

Framboðsfundur með Samstöðu í Stórutjarnaskóla í kvöld kl 20:00

0
423

Stefnumál A-lista Samstöðu vegna sveitarstjórnakosningana 26. maí nk. hafa komið fram. Í kvöld kl 20:00 verður framboðsfundur í Stórutjarnaskóla með Samstöðu þar sem stefnumálin verða kynnt nánar. Einnig verður Samstaða með framboðsfund í Ýdölum 22. maí kl 20:00

Stefnumálin má lesa hér fyrir neðan

Skólamál

Rekstur leik-, grunn- og tónlistarskóla eru viðamestu verkefni sveitarfélagsins. Á síðasta kjörtímabili náðist fram veruleg hagræðing í rekstri þessara stofnanna. Stefna Samstöðu er að reka skólana með því fyrirkomulagi sem er í dag. Samstaða mun kappkosta að standa vörð um það góða og faglega starf sem unnið er í skólunum.

Áfram verður boðið upp á frí námsgögn og frítt fæði fyrir öll leik- og grunnskólabörn.

Samstaða er meðvituð um mikilvægi Framhaldsskólans á Laugum fyrir sveitarfélagið og vill veg hans sem mestan.

Skipulags- og byggingamál

Við upphaf hvers kjörtímabils ber nýkjörinni sveitarstjórn að endurskoða aðalskipulag sitt. Samstaða mun gera það og hafa að leiðarljósi sömu áherslur og eru í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins 2010-2022.
Á þessu kjörtímabili verður einnig hafist handa við vinnu á nýju aðalskipulagi.
Mótuð verður umhverfisstefna fyrir sveitarfélagið á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á landnýtingu og landvernd, t.d. varðveislu lands til matvælaframleiðslu, varðveislu menningarminja, áninga- og skoðunarstaða.

Sorp er nú flokkað í sveitarfélaginu með góðum árangri. Markmiðið er að endurvinnsla og endurnýting verði sem mest en dregið hefur gífurlega úr því magni sem fer til urðunar. Áfram verður sorphirðuverkefnið þróað íbúum til hagsbóta.

Atvinnumál

Núverandi meirihluti Sveitarstjórnar Þingeyjasveitar vinnur að húsnæðisstefnu sveitarfélagsins þar sem leitað verður leiða til þess að auka framboð á búsetuúrræðum. Samstaða lítur svo á að hlutverk sveitarfélagsins sé að vera hvetjandi og auðvelda einkaaðilum að ráðast í framkvæmdir við íbúðarbyggingar. Gangi það hins vegar ekki er ljóst að sveitarfélagið verður að koma að þessari uppbyggingu með beinum hætti.

Framkvæmdin við Goðafoss verður kláruð samkvæmt því skipulagi sem unnið er eftir.

Unnið verður deiliskipulag fyrir ferðaþjónustu á Þeistareykjasvæðinu.

Samstaða stefnir á að kanna til hlítar afkastagetu lághitasvæðisins á Stórutjörnum með frekari lagningu hitaveitu í huga.

Samstaða mun áfram eftir fremsta megni veita góðum verkefnum brautargengi í gegnum Atvinnueflingu Þingeyjarsveitar.

Félagsþjónusta

Samstaða leggur til að sveitarfélagið kaupi áfram þjónustu af félagsþjónustu Norðurþings og samstarf um málefni fólks með fötlun verði með óbreyttum hætti sem og aðild að dvalarheimilum aldraðra á Húsavík og Eyjarfjarðarsvæðinu.

Jafnframt verði kannað hvort fært er að koma upp búsetuúrræðum fyrir aldraða í sveitarfélaginu.

Unnið verði að því í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands að bæta heilsugæsluna í sveitarfélaginu.

Samstaða vill knýja á um úrbætur í heimahjúkrun þannig að hún standi íbúum til boða oftar en einu sinni í viku.

Við munum leita leiða til að auka og bæta heimaþjónustu sveitarfélagsins eins og kostur er.

Haldið verður áfram með opin hús í samstarfi við Félag eldri borgara og byggt á því góða starfi sem þar hefur verið unnið undanfarin ár.

Samstaða vill halda áfram innleiðingu á verkefninu Heilsueflandi samfélag.

Bruna- og almannavarnir

Við stefnum á áframhaldandi samstarf við sveitarstjórn Skútustaðahrepps í bruna- og eldvarnarmálum.

Ljóst er að starfsumhverfi slökkviliðanna á svæðinu breytist mikið með opnum Vaðlaheiðarganga og nú þegar eru brunavarnir Skútustaðhrepps og Þingeyjarsveitar í góðu samstarfi við slökkvilið Akureyrar og Norðurþings og mikilvægt að auka það í framtíðinni.

Menningar-, íþrótta- og æskulýðsmál

Áfram verði unnið að því að bæta rekstur félagsheimilanna og auka nýtingu þeirra um leið og kannaðir eru möguleikar á því að leigja þau eða selja. En vinna undanfarinna ára hefur leitt það í ljós að málefnið er flóknara en virðist í fyrstu sýn.

Ungmennaráð verður komið á fót og starfsemi þess tryggð.

Vinnuskóli fyrir unglinga verði starfræktur yfir sumarmánuðina og leitast við að starf hans verði sem fjölbreyttast og taki mið af uppeldislegum gildum.

Íþrótta- og æskulýðsstarf sem og menningarstarf verði áfram styrkt með myndarlegum hætti líkt og verið hefur.

Áfram verða Frístundastyrkir barna og ungmenna veittir.

Rekstur

Samstaða leggur áherslu á gott upplýsingaflæði og gegnsæi í stjórnsýslu.

Mikill árangur hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins á kjörtímabilinu, skuldir hafa lækkað, tekjur hafa hækkað og aðhalds verið gætt í rekstri.

Samstaða hefur það að markmiði að halda áfram á sömu braut, að veita góða þjónustu en jafnframt verði aðhalds og aga gætt í útgjöldum.

Ráðist verði í hóflegar fjárfestingar og skuldir lækkaðar enn frekar.

Stjórnsýsla

Samstaða leggur til að fjórar fastanefndir starfi í sveitarfélaginu og hver þeirra fundi að lágmarki fimm sinnum á ári.

Þær verði fræðslunefnd, félags- og menningarmálanefnd, skipulags- og umhverfisnefnd og atvinnumálanefnd.

Samstaða mun ganga til samninga við núverandi sveitarstjóra um áframhaldandi starf.