Þingeyjarsveit í skugga Covid-19

0
264

Kórónuveirusýkingin sem hefur gengið yfir heiminn hefur haft sín áhrif á starfsemi Þingeyjarsveitar. Flestum er í fersku minni að skólarnir voru með minni mætingarskyldu og fjarkennslu í vor. Opnum húsum hjá eldri borgurum var aflýst til haustsins. Heimaþjónusta var valkvæð,  fólk afþakkaði þjónustuna eða þáði en var jafnvel ekki heima. Starfsfólk hafði grímur og hanska í sínum störfum.  Virða þurti fjarlægðarmörk á fundum og sveitarstjórn fundaði jafnvel í gegnum fjarfundabúnað.

Nú er staðan breytt að því leyti að ekki er lengur um tímabundna aðgerð að ræða. Að sögn Dagbjartar Jónsdóttur sveitarstjóra ætlar Þingeyjarsveit að reyna að halda sínum stofnunum opnum en auðvitað kalla þessar aðstæður á meiri þrif og þ.a.l. meiri vinnu. Viðburðir verða með breyttu sniði. Grunnskólarnir eiga að opna samkvæmt áætlun en skólasetningar verða væntanlega með breyttu sniði.

Þingeyjarskóli verður settur föstudaginn 21. ágúst og Stórutjarnaskóli verður settur mánudaginn 24. ágúst.