Þingeyjarsveit dæmd til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar ráðningar

0
197

 

Þingeyjarsveit, var fyrir héraðsdómi Norðurlands-eystra í dag, dæmd til að greiða Gróu Hreinsdóttur fyrrverandi skólastjóra tónlistardeildar Hafralækjarskóla  992.028 krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta, vegna ólögmætrar ráðningar á deildarstjóra við tónlistardeild Hafralækjarskóla árið 2009. Þingeyjarsveit var einnig dæmd til þess að greiða 1.2 milljónir króna í málskostnað.

héraðsdómurGróa Hreinsdóttir starfaði tímabundið frá janúar 2008 sem skólastjóri tónlistarskóla sem hafði verið rekinn í tengslum og samvinnu við Hafralækjarskóla í Aðaldal. Tónlistarskólinn var lagður niður 1. ágúst 2009, en í staðinn stofnuð sérstök tónlistardeild við Hafralækjarskóla. Við þessa breytingu var starfsheitið tónlistarskólastjóri lagt niður og stofnuð staða deildarstjóra tónlistardeildar Hafralækjarskóla. Skólastjóri Hafralækjarskóla auglýsti stöðu deildarstjóra við tónlistardeild lausa til umsóknar með umsóknarfresti til 25. júní 2009. Þrjár umsóknir bárust, þ.á m. frá Gróu Hreinsdóttur og Mauricio Weimar. Var hinn síðarnefndi ráðinn.

Eftir mat á hæfni beggja og þörfum Hafralækjarskóla hafi það verið niðurstaðan að báðir umsækjendur væru jafnhæfir til að gegna stöðu deildarstjóra á tónlistarsviði. Er síðan í rökstuðningnum rakið efni 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynja á vinnumarkaði. Síðan er tekið fram að við Hafralækjarskóla starfi mun fleiri konur en karlar. Þá skipi konur tvær af þremur stjórnunarstöðum við skólann en sú þriðja sé staða deildarstjóra á tónlistarsviði. Þar sem tveir umsækjenda teljist jafnhæfir til að gegna stöðunni hafi það verið mat skólastjóra og skólanefndar að ráða bæri Mauricio Weimar til að jafna stöðu karla og kvenna í starfsliði skólans og í stjórnunarstöðum innan hans.

Gróa kærði ákvörðunina til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem kvað upp úrskurð 20. september 2010. Var niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun um ráðningu í stöðu deildarstjóra við skólann í júlí 2009 væri ólögmæt.

Gróa byggði dómkröfu sína á því að hún eigi rétt á skaðabótum frá Þingeyjarsveit þar sem Þingeyjarsveit hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið henni tjóni með því að hafna umsókn hennar. Með vísan til framangreinds úrskurðar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins taldi Gróa að saknæmi háttseminnar sé óumdeilt, enda úrskurðir ráðuneytisins bindandi fyrir stefndu samkvæmt 103. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga.