Þingeyjarskóli settur

0
419

Þingeyjarskóli var settur sl. miðvikudag. 103 nemendur munu verða við nám í skólanum í vetur á þremur starfsstöðum. 30 nemendur verða í leikskólunum á Barnaborg og í Krílabæ og 73 nemendur í grunnskólanum. Að auki er tónlistarskólinn rekinn undir merkjum Þingeyjarskóla. 35 starfsmenn koma að skólanum í mismiklum stöðuhlutföllum.

Haustþemavinna í 4.-7. bekk.
Haustþemavinna í 4.-7. bekk.

Að sögn Jóhanns Rúnars Pálssonar skólastjóra Þingeyjarskóla hefur tekist vel til með breytingarnar og þakkar hann öllu því góða fólki sem starfaði í sumar við framkvæmdirnar. “Aðstaða nemenda og starfsfólks er að verða til fyrirmyndar og gaman að segja frá því að gestir sem hafa komið í húsið hafa haft það á orði að aðstaðan sé að verða með því besta sem þekkist. Búið er að útbúa afar skemmtilegt rými inn í kennsluálmu skólans til að taka við bókasafninu sem er til húsa í kjallaranum í Ýdölum. Verður afar gaman að fá það inn í skólann. Tónlistarskólinn er með aðsetur niður í kjallara sem áður hýsti yngri barna kennslu. Starfsaðstaða starfsfólksins er kominn upp á ganginn sem áður var heimavist. Einnig er búið að laga aðstöðu matráðanna til muna. Breytingar munu verða á starfsháttum við skólann með innleiðingu teymiskennslu og aukins samstarfs innan skólans”, sagði Jóhann.

Frá haustþemavinnu 4-7. bekkjar
Frá haustþemavinnu 4-7. bekkjar

“Í mínum huga er samstarf lykill að faglegum vexti. Aflvaki allra breytinga sem kennarar og menntastofnanir innleiða á starfsháttum sínum eru framfarir og vellíðan nemenda. Barni sem líður vel getur tekist á við ótrúlegustu hluti í náminu. Ef okkur tekst að senda frá okkur við lok skólagöngu nemandans í grunnskólanum; sjálfstæðan, sjálfsöruggan og leitandi einstakling…. þá hefur okkur tekist vel upp með lærdómssamfélagið okkar.
Er það von mín að hér skapist góður og samheldinn vinnustaður nemenda og allra þeirra sem koma að velferð þeirra. Í því sambandi skipta allir máli og mikilvægt að við göngum jákvæð og samstíga til verka. Góð líðan á vinnustað, hrós, endurgjöf, samhugur og vinátta skipta miklu máli á vinnustöðum og ég vona að við getum státað af því hér við skólann”, sagði Jóhann Rúnar Pálsson skólastjóri Þingeyjarskóla að lokum í spjalli við 641.is.

 

 

Meðfylgjandi myndir eru frá haustþemavinnu 4.-7. bekkjar Þingeyjarskóla, sem eru að vinna með landnám og kristnitöku og nemendur tengja það við nágrenni sitt.

Þingeyjarskóli 3
Frá haustþemavinnu 4-7. bekkjar
Þingeyjarskóli 1
Frá haustþemavinnu 4-7. bekkjar