Þingeyingar á gráu svæði

Áskorun á Þingeyjarsveit, Norðurþing og Skútustaðahrepp

0
1034

Landssöfnunin Vinátta í verki hófst mánudaginn 19. júní þegar fréttist af hamförum á Grænlandi. Flóðbylgja gekk yfir smáþorpið Naarsuuriaq, og kostaði fjögur mannslíf og gríðarlegt eignatjón. Grænlendingar eru næstu nágrannar Íslendinga og mikilvægt að láta þá strax finna kærleika og vináttu frá okkur. Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn tóku höndum saman um Vináttu í verki í þágu þeirra sem verst urðu úti í Nuugaatsiaq.

Hafin er vakning meðal allra sveitarfélaga á Íslandi um að taka þátt í söfnuninni og minnast þess þannig þegar Grænlendingar efndu til landssöfnunar eftir snjóflóðið ógurlega á Flateyri árið 1995. Söfnunin hefur gengið mjög vel og hafa 39 sveitarfélög svarað kallinu af 74. Samkvæmt upplýsingum frá forráðafólki söfnunarinnar er söfnunarupphæðin rétt að nálgast 40 milljónir króna markið.

Á vef söfnunarinnar má sjá Íslandskort þar sem þau sveitarfélög sem gefið hafa í söfnunina eru lituð með rauðum lit en þau sem hafa ekki enn gefið í söfnunina eru litið með gráum lit.

Þingeyingar á gráu svæði

Nokkuð áberandi er stór grár blettur á kortinu sem nær að mestu yfir báðar Þingeyjarsýslurnar og er þetta gráa svæði áberandi stærst á kortinu.

Við þetta verður ekki unað og skorar 641.is hér með Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp að minnka gráa svæðið á kortinu sem fyrst.

Reikningsnúmer Vináttu í verki:
  • 0334-26-056200
  • Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur

Vinátta í verki.is 

Hér fyrir neðan má lesa bréf sem Hrafn Jökulsson forsvarsmaður söfnunarinna “Vinátta í verki” hefur sent á öll sveitarfélög í landinu.

 

„Aðfararnótt sunnudagsins 18. júní skall ægileg flóðalda á grænlenska þorpinu Nuugattsiaq, sem er á samnefndri eyju í Uummanaq-firði, 600 kílómetrum fyrir norðan heimskautsbaug. Íbúar voru innan við 100 og lifðu á veiðum. Fjórir fórust og ellefu hús gjöreyðilögðust, m.a. rafveitan, verslunin og grunnskólinn. Hættuástandi var lýst yfir í Uummannaq-firði og tvö þorp til viðbótar rýmd. Þjóðarsorg lagðist yfir Grænland.
Grænlendingar eru næstu nágrannar Íslendinga og djúp vinátta milli þjóðanna. Einn skýrasti vottur þess, er að Grænlendingar efndu til landssöfnunar þegar snjóflóðið mikla féll á Flateyri 1995. Þar gaf margur af litlu.
Mánudaginn 19. júní gengu Hjálparstarf kirkjunnar, Hrókurinn og Kalak til samstarfs um landssöfnunina Vinátta í verki, í þágu þeirra sem verst urðu úti í hamförunum á Grænlandi. Lagt var upp með að alls enginn kostnaður yrði við söfnunina og að öll framlög skili sér óskert til Grænlands.
Viðtökur Íslendinga voru stórkostlegar og nú fyrstu vikuna hafa þúsundir hringt í styrktarsímann og lagt inn á söfnunarreikninginn.
Markmið okkar er að senda Grænlendingum sterk skilaboð um að þeir geti ávallt treyst á Íslendinga, og við munum ævinlega standa með nágrönnum okkar á Grænlandi.
Grænlendingar eru djúpt snortnir yfir hlýhug, vináttu og stuðningi Íslendinga og Færeyinga.
Nú leggjum við til að öll sveitarfélög á Íslandi taki þátt í að senda Grænlendingum skýr og kærleiksrík skilaboð um samstöðu og vináttu.
Reykjavíkurborg (4 millj.) og Borgarbyggð (100.000) gengu frá framlögum í síðustu viku, og Árneshreppur hefur sent vilyrði.
Við heitum á sveitarfélögin að vera með og ganga frá málinu sem allra fyrst. Sveitarfélögin standa vitanlega mis vel að vígi, og þó upphæðir skipti ekki miklu máli eru sveitarfélögin hvött til að sýna eins mikinn myndarskap og efni leyfa.