Þeistareykjavirkjun gangsett

0
273

17. aflstöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum var gangsett sl. föstudag við hátíðlega athöfn. Í fréttatilkynningu segir að um sé að ræða þriðju jarðvarmastöð fyrirtækisins, en fyrir eru Kröflustöð og gamla gufustöðin í Bjarnarflagi. Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun byggir frá grunni.

Þeistareykjastöð verður 90 MW. Hún er reist í tveimur 45 MW áföngum og var vélasamstæða 1 gangsett í dag og tengd við flutningskerfi Landsnets. Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, gangsettu virkjunina í sameiningu.

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri stýrði athöfninni en í upphafi fór Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs, yfir öryggisatriði á staðnum. Þá tók Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður til máls og rakti meðal annars sögu Þeistareykjavirkjunar og þakkaði samstarfsaðilum, verktökum og starfsfólki. Hörður Arnarson forstjóri sagði í ávarpi sínu að framkvæmdin hefði tekist vel og lögð hefði verið mikil áhersla á samskipti og samráð og umhverfis- og öryggismál. Valur Knútsson, yfirverkefnisstjóri framkvæmdarinnar, rakti nokkra verkþætti framkvæmdarinnar.

Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra að um þjóðhagslega hagkvæman virkjunarkost væri að ræða, sem myndi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og hafa jákvæð áhrif í víðtækum skilningi. Benedikt fjármálaráðherra sagði að gangsetning Þeistareykjastöðvar væri mikið gleðiefni; sem fjármálaráðherra hlyti hann að gleðjast yfir því í hvert skipti sem Landsvirkjun yki verðmæti sitt með nýjum verkefnum.

Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar. Mynd; Hafþór Hreiðarsson

Þá hélt Arnór Benónýsson, oddviti Þingeyjarsveitar, ávarp, þar sem hann sagði að samvinnan við Landsvirkjun hefði verið góð, einkennst af kurteisi við samfélag og náttúru. Að því loknu gangsettu ráðherrarnir virkjunina með samskiptum við stjórnstöð Landsnets og vaktmann á Þeistareykjum í gegnum TETRA-kerfið

Mikil áhersla er lögð á varfærna uppbyggingu og nýtingu jarðvarmans á svæðinu, en fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 MW virkjun á svæðinu. Uppsetning á vélasamstæðu 2 er nú í fullum gangi og er stefnt að því að orkuvinnsla hennar hefjist í apríl 2018.

 

Saga framkvæmdar

Heimamenn áttu frumkvæði að nýtingu svæðisins, en saga Þeistareykjaverkefnisins nær allt til ársins 1999, þegar Þeistareykir ehf. voru stofnaðir í aprílmánuði. Stofnaðilar voru orkufyrirtækin Orkuveita Húsavíkur og Norðurorka, ásamt Aðaldælahreppi og Reykdælahreppi, sem er nú Þingeyjarsveit. Það var ekki fyrr en haustið 2005 að Landsvirkjun eignaðist um 32% í fyrirtækinu, en í kjölfarið jók fyrirtækið eignarhlut sinn smám saman og eignaðist félagið loks að fullu vorið 2010.

Árið 2011 hófst hönnun mannvirkja og þremur árum síðar, 2014, var  ráðist í umfangsmiklar undirbúningsframkvæmdir sem miðuðu að því að hægt væri að ráðast í uppbyggingu virkjunarinnar með stuttum fyrirvara.

Í febrúar 2015 var skrifað undir samning um kaup á einni 45 MW vélasamstæðu og tilheyrandi búnaði. Í ágústmánuði það sama ár var ákveðið að ráðast í annan áfanga verkefnisins, en hann snýr að kaupum og uppsetningu á annarri 45 MW vél.

Upphaf byggingaframkvæmda var á vormánuðum 2015, en hámarki náðu þær á verkstað  árið 2016 og þegar mest var störfuðu þar um 240 manns.

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, lagði hornstein að stöðvarhúsinu við hátíðlega athöfn í september 2016,. Frá þeim tíma hefur verið lokið við uppbyggingu stöðvarhúss, gufuveitumannvirki reist og lokið við boranir á þeim 8 vinnsluholum, til viðbótar þeim sem fyrir voru, sem knýja munu vélasamstæður virkjunarinnar.

Listaverkasamkeppni

Landsvirkjun hefur ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um hannað verk eða listaverk í nágrenni Þeistareykjavirkjunar, í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands. Samkeppnin verður opin samkeppni með forvali og verður auglýst nánar síðar.