Þankar um sameiningu sveitarfélaga

Ari Teitsson skrifar

0
1187

Sameining sveitarfélaga hefur víða verið rædd að undanförnu m.a. vegna áforma um lagabreytingar á þessu sviði. Sveitarfélög á Austurlandi munu sameinast og hafin er umræða um sameiningu sveitarfélaga í Rangárþingi, á Snæfellsnesi og jafnvel víðar.

Þessi umræða hefur ekki farið fram hjá Þingeyingum og er nú er rætt um að sameina Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp. Fleiri kostir virðast þó skoðunarverðir ekki síst að sameina öll sveitarfélög í Þingeyjarsýslum í eitt öflugt sveitarfélag.

Staða og styrkur hvers sveitarfélags ræður nokkru um lífsgæði íbúanna og val á búsetu. Því er eðlilegt að huga að því hvaða skilyrði nýtt (eða eldra) sveitarfélag þurfi að uppfylla til að teljast eftirsóknarvert til búsetu.

Sé horft til framtíðarmöguleika ungs fólks virðist öflugur byggðakjarni með grunn- og framhaldsskóla nánast forsenda. Fjárhagsleg staða sveitarfélags þarf einnig að vera sterk og skuldir hóflegar svo unnt sé að takast á við komandi verkefni. Innan sveitarfélagsins þarf að vera nægt framboð einstaklinga sem hafa þekkingu hæfni og vilja til að takast á við krefjandi sveitarstjórnarverkefni. Þá þarf að varast að í sveitarfélagi séu þær aðstæður að líkur séu á landfræðilegum meiri- og minnihluta. Öflug heilbrigðis- og öldrunarþjónusta er einnig forsenda. Þá virðist sameiginlegt ungmenna- og íþróttastarf mikilvægt eigi að skapa framtíðarheild íbúanna. Sveitarfélagið þarf einnig að hafa styrk til að takast á við stjórnsýslu- og hagsmunaöfl í harðnandi samkeppnisþjóðfélagi.

Fullt tilefni virðist til að skoða þá þingeysku valkosti sem nefndir eru hér að framan í þessu ljósi, lítum fyrst á sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps:

Eru möguleikar á öflugum byggðakjarna? Tæplega í Reykjahlíð vegna landfræðilegrar legu en einnig vegna skorts á framhaldsskóla. Á Laugum? Gæti orðið ef þar væri grunnskóli og vilji til að þar sé miðstöð ungmenna og íþróttastarfs sveitarfélagsins en eru líkur á að svo verði? Verður slíkt sveitarfélag nægilega öflugt fyrir komandi stjórnsýslu og er þar nægt framboð fólks til stjórnunarstarfa?

Sameining allra sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum: Í ljósi umræðu undanfarinna ára virðist eðlilegt að spurt sé hvort eitthvert sveitarfélaganna sé svo skuldsett að það hafi hamlandi áhrif á möguleika nýs sveitarfélags. Sé svo hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga lagt lið til lausnar slíkum vandamálum. Mun styrkur Húsavíkur í nýju sveitarfélagi ógna stöðu annarra sveitarhluta? Það virðist ekki sjálfgefið enda íbúar Húsavíkur aðeins um helmingur íbúa Þingeyjarsýslna og með mikil tengsl við aðra íbúa Þingeyjarsýslna.

Ofannefnt sveitarfélag virðist raunar uppfylla öll þau skilyrði sem nefnd voru hér að framan. Sérstakt íhugunarefni er einföldun stjórnsýslu með fækkun sveitarstjórna úr sex í eina, en slíkt ætti að gefa svigrúm fyrir öfluga sveitarstjórn sem greiða mætti boðleg laun fyrir vinnu sína. Þá er hér vert að líta til hugmynda um mögulegt sjálfræði einstakra sveitarhluta í eigin málum.

Samstarf Þingeyinga er þegar öflugt og farsælt á mörgum sviðum: Heilbrigðisþjónusta er sameiginleg. Sýslumannsembætti og löggæsla einnig. Eitt ungmennasamband er á svæðinu. Verkalýðsfélög og stéttarbarátta er sameiginleg fyrir svæðið. Samstarf er í atvinnumálum, skipulagsmálum, félags og öldrunarþjónustu og fleiri þáttum.

Sveitarfélögum hefur fækkað og þau stækkað á undanförnum árum. Þannig er nú öflugt sveitarfélag í Skagafirði með um 4000 íbúa, annað í Borgarfirði með um 3750 íbúa og í sameinuðum Ísafjarðarbæ búa um 3700 íbúar. Væri ekki fullt tilefi til að kynna sér reynslu íbúa í þessum sveitarfélögum?

Svo sem fyrr er nefnt er unnið að sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi, í Rangárþingi og jafnvel víðar. Allt mun þetta gert með eflingu viðkomandi sveitarfélaga að leiðarljósi.

Ætla Þingeyingar að sitja hjá eða í besta falli að sameina tvö fámenn sveitarfélög?

Myndu ekki tækifæri Þingeyjarsýslna nýtast betur í sameiginlegu öflugu sveitarfélagi?

(þessi grein er einnig birt í Skarpi í dag)