Það eru almenn mannréttindi

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar

0
232

Það er ljóst að það þarf að tryggja það sem ég vil kalla mannréttindi öryrkja. Í umræðunni er gjarna talað um hópa, en við þurfum að hafa í huga að innan hópa eru margir mismunandi einstaklingar með styrkleika og veikleika og þar með ólíkar þarfir. Það er ekkert öðruvísi en í samfélaginu öllu, innan þess eru líka mismunandi einstaklingar með ólíkar þarfir og það sem meira er, að þar leggjum við okkur fram um að tryggja mannréttindi allra einstaklinga, það ætti að hafa í huga þegar verið er að ræða aðstæður öryrkja.

Við eigum að sjá til þess að viðhorf til öryrkja breytist, kerfinu þarf að breyta þannig að öryrkjar eins og aðrir verði metnir að verðleikum. Sem dæmi vil ég nefna að oft er talað um að öryrkjar séu nokkurskonar kerfisfræðingar, þessi fullyrðing sett fram sem kaldhæðni eða jafnvel niðrandi en veruleikinn er nú samt þannig að til þess að geta fótað sig í lífinu þurfa öryrkjar að vera kerfisfræðingar. Það er þvílíkur frumskógur sem mætir einstaklingum sem oft skyndilega þurfa á framfærslu hins opinbera að halda og eins gott að þeir hafi getu til þess að krafla sig fram úr öllum þeim reglum sem fylgja því að dragast skyndilega inn í heim hindrana.

Oft verður þessi frumskógur kerfisins of þéttur og þess vegna þarf að bregðast við. Það á að koma til móts við öryrkja, taka þarf upp viðræður við Öryrkjabandalagið til þess að tryggja öryrkjum almenn mannréttindi, við ætlum að horfa til styrkleika einstaklinga í stað þess sem hindrar, það er mikilvæg viðhorfsbreyting því það þarf að breyta því hvernig kerfið lítur á öryrkja og þeirra aðstæður, fjárhagslegt sjálfstæði er einn þáttur og hann á að byggja á sterkum grunni, allir einstaklingar eiga rétt á því. Það eru almenn mannréttindi.

Anna Kolbrún Árnadóttir, höfundur skipar 2. sæti Miðflokksins í Norðaustur-kjördæmi.