Tap í fyrsta leik hjá Geisla

0
116

Geisli spilaði sinn fyrsta leik í 4. deildinni á Ýdalavelli í dag. Mótherjarnir voru Léttir úr Reykjavík og fóru Léttismenn með sigur af hólmi 4-1. Léttismenn komust í 1-0 snemma leiks og bættu svo við öðru marki úr vítaspyrnu þegar um 15 mínútur voru liðnar af leiknum. Leikmenn Geisla virtust nokkuð óöruggir fyrstu 15 mínúturnar og fátt gekk upp hjá þeim. Þegar leið á fyrri hálfleik komust þeir meira inn í leikinn og fengu nokkur færi, en náðu ekki að skora. Léttir bætti svo við þriðja markinu rétt fyrir leikhlé.

Frá leiknum í dag
Frá leiknum í dag

Guðmundur Jónsson þjálfari hefur sennilega sagt eitthvað gott og uppbyggilegt við sína menn í leikhlé því Geislamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Þórgnýr Valþórsson minkaði muninn með fallegu marki snemma í seinni hálfleik. Geislamenn héldu áfram að spila vel og sköpuðu sé nokkur ágæt færi en inn vildi boltinn ekki. Léttismenn bættu svo fjórða markinu við um miðjan seinni hálfleik og voru úrslitin þá ráðin.

Nokkur gul spjöld fóru á loft í leiknum, en ekkert rautt og heilt yfir var leikurinn ekki grófur og dómgæslan ágæt. Hrannar Guðmundsson var þó borinn meiddur af velli snemma í fyrri hálfleik.

Aðstæður í dag voru ágætar sól og blíða, en Ýdalavöllur er illa kalinn eftir veturinn. Hátt í hundrað manns fylgdust með leiknum og hvöttu Geislamenn til dáða

Guðmundur Jónsson þjálfari Geisla
Guðmundur Jónsson þjálfari Geisla

 

“Við vorum mjög stressaðir fyrsta korterið í leiknum. Við reiknuðum með því að andstæðingurinn væri með sterkara lið en við og þar sem þetta var jú fyrsti alvöru leikurinn okkar í sumar var kanski ekki að búast við sigri í dag. Við reynum að gera betur í næsta leik”, sagði Guðmundur Jónsson þjálfari Geisla í spjalli við 641.is eftir leikinn.

Næsti leikur Geisla fer fram á Ýdalavelli 16. júní gegn Kormáki/Hvöt og hefst hann kl 18:00.