Sýning safnaranna

0
243

Sýningaropnun í Safnahúsinu á Húsavík sunnudaginn 26. nóvember kl. 14:00. Á sýningunni kennir margra grasa, en á henni eru bæði söfn sem einstaklingar hafa þegar afhent byggðasafninu og söfn sem eru í einkaeigu.

Safnarasýning 003

„Ertu kannski með safnaragenið“ spurði einn safnarinn sem sýnir á Safnarasýningunni. Ekki er víst að búið sé að afmarka það gen, en fyrir liggur að það leynist í mörgum. Þegar Safnahúsið auglýsti eftir einkasöfnum til sýningar fyrr á árinu stóð ekki á viðbrögðum hjá Þingeyingum. Fjölbreyttari og áhugaverðari söfn leyndust í sýslunni en okkur hafði grunað og voru eigendur þeirra boðnir og búnir að lána söfnin og lögðu margir hverjir í mikla vinnu við að koma þeim í sýningarhæft ástand.

Kristbjörn Óskarsson sýnir pennasafn, þau eru nokkuð algeng en það sem einkennir þann hluta safns Kristins sem er á sýningunni er að það eru eingöngu pennar frá Húsavík. Þar er m.a. að finna penna merkta fyrirtækjum sem hafa hætt starfsemi, sum jafnvel fyrir margt löngu en rótgrónir Húsvíkingar kannast við.

Elín Kjartansdóttir sýnir hluta af baukasafni sínu sem telur í heildina yfir 500 bauka. Í söfnun sinni leggur Elín áherslu á að baukarnir hafi haft hlutverki að gegna, þ.e. að þeir hafi verið gerðir sem ílát undir tiltekna vöru en ekki sem skrautmunir. Hún sýnir m.a. fyrsta baukinn sem hún eignaðist, fyrsta baukinn sem hún markvisst geymdi sem safngrip og fleiri gersemar.

Safnarasýning 006

 

Kókmunasafn Jóns Sveins Þórólfssonar öðlaðist frægð fyrr á árinu þegar um það var fjallað á N4. Safnið er sett upp því sem næst í heild sinni á Safnarasýningunni. Það er óhemju viðamikið og fjölbreytt, en enginn veit hversu margir gripirnir eru. Jón Sveinn og Sigríður Baldursdóttir eiginkona hans eru bæði safnarar af lífi og sál. Sigríður sýnir brot af fingurbjargasafni sínu, en hún á líka fallegt bollasafn. Fyrir nokkrum árum afhendi Jón Sveinn byggðasafninu kveikjarasafn mikið og er það sett upp á sýningunni.

Spilasöfn eru algeng og oft afar fallegt, en lítið brot af safni Maríu Kristjánsdóttur verður á sýningunni. Þar fæst innsýn í ýmsa flokka spilabaka, dýramyndir, fuglamyndir o.fl..

Björn Sigurðsson sýnir hluta af myntsafni sínu, eingöngu íslenska mynt þ.á.m. ýmsar sérslegnar myntir.

Húsvíkingar og gestir hafa margir hverjir séð hluta af seðla og myntsafni Sólrúnar Hansdóttir sem hékk á veggjum Bakka Café, það safn er á sýningunni.

Safnarasýning 012

 

Einnig má þar skoða lítið en afar skemmtilegt peningaveskjasafn, sem var hluti af stórri gjöf Sigurðar Péturs Björnssonar til Safnahússins.

Bjórmiðasafn Þórðar Jónssonar hefur um nokkurt skeið verið í eigu safnsins og vakið mikla athygli. Í því eru hátt í 100.000 miðar af bjórflöskum frá ýmsum löndum. Það er að sjálfsögðu hluti sýningarinnar.+

Einn safnaranna Aðalgeir Egilsson, er vel þekktur fyrir sína munasöfnun enda rekur hann eigið safn á Mánárbakka á Tjörnesi.  Hans framlag til sýningarinnar er fallegt sumarkortasafn, sem sýnir glöggt að sumardagurinn fyrsti var í hávegum hafður sem hátíðisdagur fyrr á tímum.

Síðast skal nefna afar merkilegt safn Jóns Þorgrímssonar sem lengi rak bifreiðaverkstæði á Húsavík. Jón lést árið 2009 en eitt mörgu sem sér fyrir hendur, var að skrá bílnúmer Þingeyjarsýslu, frá þriðja og fram á níunda áratug 20. aldar. Í skránni eru númerin H-1 til H-42 ; NÞ-1 til NÞ-18 og Þ-1 til Þ-4521. Hann safnaði einnig fjölmörgum myndum af þingeyskum bílum og eigendum þeirra. Safnið hefur mikið heimildargildi og það var því mikill fengur þegar Sólveig Þrándardóttir eiginkona Jóns og afkomendur þeirra afhentu safninu eintak af skránni og myndunum á síðasta ár.

Sýningin verður opnuð klukkan 14:00 sunnudaginn 26. október, þann dag verður opið til 17:00. Sýning safnaranna stendur til 23. nóvember. Opið er virka daga frá 10-16 og einnig verður opið helgina 22.-23. nóvember.