Á 252 fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var í dag var samþykkt eftirfarandi ályktun vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
“Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lýsir áhyggjum sínum yfir því hversu skammt undirbúningur fyrirhugaðra mótvægisaðgerða er kominn vegna þeirra breytinga sem í frumvarpinu felast. Þó aðgerðaáætlunin komi inn á mikilvæg atriði er ljóst að betur má ef duga skal. Eins verður ekki betur séð en að sá tími sem ætlaður er til innleiðingar sé allt of skammur. Því hvetur sveitarstjórn til þess að frumvarpið verði ekki samþykkt fyrr en mótuð hefur verið skýr stefna um framtíð landbúnaðarins í þessu umhverfi, tollasamningar endurskoðaðir og samkeppnisstaða atvinnugreinarinnar betur tryggð”.
Að öðru leyti tekur sveitarstjórn undir bókun Skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar:
Matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir”.
Fundargerð 252 fundar má skoða hér.