Sveitarstjórn hefur þungar áhyggjur af ástandi vega

0
119

Víða í sveitarfélaginu fá fjölfarnir malarvegir lítið sem ekkert viðhald. Þessir vegir eru grýttir og holóttir og ástand þeirra víða óviðunandi. Vegagerðin ber því við að það fjármagn sem ætlað er til viðhalds vega sé lítið og vegir með bundnu slitlagi sitji fyrir. Ástand vega í Bárðardal hefur lengi verið óásættanlegt, en meðfylgjandi myndir tók Bergljót Þorsteinsdóttir af veginum sunnan við Halldórsstaði í Bárðardal um daginn og er vegurinn þar líkari árfarvegi en akvegi. Á neðri myndinni sést hvar Ásgrímur Sigurðarson frá Lækjarvöllum fjarlægir stærstu steinanna af veginum.

Óásættanlegar aðstæður. Mynd: Bergljót Þorsteinsdóttir
Óásættanlegar aðstæður. Mynd: Bergljót Þorsteinsdóttir.

 

 

Mynd: Bergljót Þorsteinsdóttir
Mynd: Bergljót Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á 153. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 18. september sl. var eftirfarandi áskorun samþykkt

„Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur þungar áhyggjur af ástandi og viðhaldi malarvega í Þingeyjarsveit og telur að slæmt ástand þeirra ógni umferðaröryggi íbúa og annarra vegfarenda, ber þar helst að nefna Bárðardalsveg vestri nr. 842 og Útkinnarvegur nr. 851. Sveitarstjórn skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjármagn til þessar vega og bæta þjónustu við þá.“

Sveitarstjóra var falið að senda ályktunina til Vegagerðar ríkisins, Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Fjárlaganefndar Alþingis, innanríkisráðherra, fjármálaráðherra, og þingmanna Norðaustur kjördæmis.