Sveitarstjórnarpistill númer 7 – Þorsteinn Gunnarsson skrifar

0
293

Mér er sagt að ég hafi enn ekki fengið að kynnast alvöru vetri í Mývatnssveit. Ótrúlegt er að upplifa snjóleysið þessa dagana og hvernig byggingaframkvæmdir í nýju götunni, Klappahrauni, ganga vel en væntanlega hefði það einhvern tímann verið talið óhugsandi að standa í slíkum framkvæmdum á þessum árstíma. Sem fyrr hafa síðustu vikur verið viðburðaríkar og hér verið stiklað á stóru.

Af fráveitu- og upplýsingamálum
Í síðustu viku fór ég ásamt Yngva Ragnari Kristjánssyni oddvita og Jóhönnu Katrínu Þórhallsdóttur sveitarstjórnafulltrúa til Reykjavíkur til þess að hitta nýjan umhverfis- og auðlindaráðherra, stofnanir, þingmenn og fleiri. Tilgangurinn var aðallega tvenns konar. Annars vegar að fylgja eftir stöðu fráveitumála við Mývatn. Hins vegar að fara yfir upplýsingagjöf til ferðamanna í ljósi breyttra aðstæðna. Á fundi með Björt Ólafsdóttur nýjum umhverfis- og auðlindaráðherra lagði starfsfólk ráðuneytisins fram fyrstu drög að nýrri úttekt á vegum ráðuneytisins á núverandi stöðu á fráveitumálunum og tillögur að úrbótum. Ljóst er að stofnkostnaður við innleiðingu aukinnar skólphreinsunar svo ákvæði reglugerða um verndun Mývatns og Laxár og um fráveitur og skólp verði uppfyllt hleypur á hundruðum milljóna. Sveitarstjórn leggur áherslu á aðkomu ríkisins að málinu enda er það sveitarfélaginu fjárhagslega um megn að kosta þær skólphreinsunarframkvæmdir sem reglugerðin kveður á um að þurfi að fara í.  Í 1. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár segir m.a. að markmið laganna sé að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Jafnframt segir í 9. gr. að kostnaður við framvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði. Þess má geta að við munum eiga fund með þingmönnum kjördæmisins vegna þessa máls í næstu viku.

Í júní 2016 lagði vinnuhópur fram skýrslu að ósk þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra með lykilupplýsingum um ástand mála í Mývatni, orsakir þess vanda sem þar er nú við að etja og hugsanlegar aðgerðir til að bæta þar úr, m.a. á sviði fráveitumála. Tilgangur samantektarinnar er liður í ákvarðanatöku varðandi mögulegar aðgerðir sem gætu komið að gagni til að draga úr álagi af manna völdum á lífríki vatnsins.  Við áttum einnig fundi með Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði og Ferðamálastofu vegna upplýsingargjafar til ferðamanna. Líkt og kom fram í bókun sveitarstjórnar á síðasta fundi leggur sveitarstjórn áherslu á að upplýsingagjöf til ferðamanna í Mývatnssveit verði fram haldið í ljósi breytinga hjá Mývatnsstofu. Á fundum okkar kom fram að það er fullur vilji hlutaðeigandi að finna lausn á málinu og verður unnið áfram að því af fullum krafti.

Vel sóttur íbúafundur um nýja gámavöllinn
Nýr gámavöllur í landi Grímsstaða var tekinn í notkun í síðustu viku. Frekar rólegt hefur verið á gámavellinum fram að þessu enda voru margir sem nýttu tækifærið og fylltu vel á gámana sem voru á gamla svæðinu við Sniðil en þeir hafa nú verið fjarlægðir.  Gámaþjónustan og Skútustaðahreppur héldu kynningarfund í Skjólbrekku um nýja gámavöllinn og sorphirðu almennt í sveitarfélaginu (sjá meðfylgjandi mynd). Aðsókn var góð og sköpuðust líflegar og fróðlegar umræður. Aðallega bárust fyrirspurnir um sorpflokkunina en hún hefur gengið framar vonum fram að þessu þrátt fyrir að enn sé tækifæri til þess að gera betur. Bæði einstaklingar og fyrirtæki sem koma með úrgang/rusl á gámavöllinn er bent á að lykilatriðið er að minnka rúmmál eins og kostur er því það er hagkvæmast fyrir alla aðila. Á opnunartíma er starfsmaður á gámavellinum sem tekur á móti flokkuðu sorpi samkvæmt þeim reglum sem gilda. Minnt er á að sækja þarf klippikort á skrifstofu Skútustaðahrepps en allar nánari upplýsingar má finna www.myv.is.   Næsta sumar verður farið í að klára gámavöllinn. Enn á eftir að steypa við rampa, girða svæðið og leggja vatn og rafmagn. Þá skal ítrekað að um þróunarverkefni er að ræða og því verður opnunartími á gámavellinum endurskoðaður reglulega í ljósi eftirspurnar. Opið er mánudaga og fimmtudaga frá kl. 15-16.

Bókasafn Mývatnssveitar
Ég leit við á Bókasafni Mývatnssveitar um daginn sem hefur aðstöðu sína í kjallaranum í Skjólbrekku en þar ræður Þuríður Pétursdóttir ríkjum. Hún var að í óða önn að plasta nýjar bækur sem streyma á bókasafnið þessa dagana. Bókasafnið hefur verið staðsett í Skjólbrekku í hartnær þrjá áratugi. Væntanlega er það með allra elstu bókasöfnum á landinu en það var stofnað árið 1858. Alls eru skráðir tæplega ellefu þúsund bókatitlar á safninu samkvæmt skráningabók sem enn er í notkun frá árinu 1958. Drjúgur hluti af safninu eru bækur og innbundin blöð sem Arnþór Árnason úr Garði gaf safninu á sínum tíma. Nýtt netfang bókasafnsins er bokasafn@myv.is. Opið er alla mánudaga frá kl. 15-19, allt árið um kring.

Mynd að komast á líkamsræktina
Endurbætur á líkamsræktarstöðinni standa nú yfir. Í síðustu viku kom talsvert af notuðum tækjum og í næstu viku kemur sending af glænýjum tækjum og lóðum.  Aðstaðan hefur verið stækkuð um helming og er í raun orðin þrískipt. Í fyrsta lagi verður núverandi aðstaða fyrst og fremst notuð undir lyftingatæki. Í öðru lagi er rými þar sem áður var félagsaðstaða en þar eru upphitunartæki eins og hlaupabretti, hjól, róðravél og stigavél. Í þriðja lagi er svo glænýtt rými þar sem áður var tækjageymsla. Þar er búið að útbúa flott teygju- og æfingarými og verða settar upp speglar og fleira. Þegar allt verður tilbúið um miðjan mánuðinn verður blásið til formlegrar opnunar þar sem verða tilboð á árskortum og vonandi aðili sem mun leiðbeina fólki í tækjasal. Fylgist nánar með á heimasíðu sveitarfélagsins og í Mýflugunni.

Unnið að starfsmannastefnu
Hafinn er undirbúningur að starfsmannastefnu Skútustaðahrepps. Fyrsti undirbúningsfundur var haldinn í gær. Stýrihópur heldur utan um verkefnið. Sveitarstjóri er verkefnisstjóri, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir er fulltrúi sveitarstjórnar og Jóhanna Jóhannesdóttir og Ólöf Gunnarsdóttir fyrir hönd starfsfólksins. Markmiðið er að efla mannauðsmál og gera eftirsóknarvert að starfa hjá sveitafélaginu.

Félagsstarf eldri borgara
Sú nýjung var tekin upp eftir áramót í félagsstarfi eldri borgara að boðið er upp á akstur í samverustundina á fimmtudögum á vegum sveitarfélagsins og er eldri borgurum að kostnaðarlausu. Ég leit við í samverustundinni um daginn en þá var fámennt en afskaplega góðmennt. Voru dömurnar nýkomnar úr leikfimi og búnar að fá sér hádegismat í skólanum. Ég átti gott spjall við þær og kom m.a. fram að þær áttu allar sameiginlegt að vera ekki úr Mývatnssveit en hafa búið hér í áratugi og fest rætur. Annað hvort komu þær á sínum tíma sem kaupakonur eða unnu á hótelinu og kynntust prýðis piltum úr Mývatnssveit. Þeir sem ætla að nýta sér aksturinn í samverustundina þurfa að láta vita í hvert skipti, í síðasta lagi daginn áður í síma 86 86 821 (Brynja).  Gísli Rafn Jónsson sér um aksturinn. Að lokinni samverustund er svo einnig boðið upp á akstur heim.

Sólveig kveður
Eftir hartnær 20 ára farsælan starfsferil á skrifstofu Skútustaðahrepps er síðasti vinnudagur Sólveigar Erlu Hinriksdóttur á hreppsskrifstofunni fimmtudaginn 9. febrúar n.k. Af því tilefni verður opið hús á hreppsskrifstofunni frá kl. 11:30-13:00 þann dag. Kaffi á könnunni. Allir velkomnir að samfagna Sólveigu á þessum tímamótum

Mývatn Open
Hið árlega ísmót Mývatn Open verður haldið laugardaginn 11. mars 2017 á Stakhólstjörn við Skútustaði í Mývatnssveit. Keppnisgreinar að þessu sinni eru A-flokkur, B-flokkur, tölt (1. og 2. flokkur) og hraðaskeið. Vegleg verðlaun. Á föstudeginum bjóða hestamannafélögin Þjálfi og Grani og Sel-Hótel Mývatn í reiðtúr á ísilögðu Mývatni þar sem boðið verður upp á samlokur og heitt kakó úti í eyju – allir hjartanlega velkomnir (ekkert þátttökugjald). Nánari upplýsingar um mótið, reiðtúrinn og skráningar munu birtast á heimasíðum hestamannafélaganna Þjálfa og Grana.

Umsagnir óskast um nýja lögreglusamþykkt
Á fundi sveitarstjórnar í morgun var lögð fram tillaga að nýrri lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélagið Skútustaðahrepp til fyrri umræðu. Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að á milli umræðna verði lögreglusamþykktin birt á heimasíðu hreppsins og óskað eftir athugasemdum frá íbúum Skútustaðahrepps. Sveitarstjórn vísar tillögunni að öðru leyti til síðari umræðu sveitarstjórnar. Þeir sem vilja gera athugasemdir eða koma með ábendingar geta kynnt sér lögreglusamþykktina á www.myv.is og sent tölvupóst á netfangið sveitarstjori@myv.is eða sent bréf á hreppsskrifstofuna.

Ýmis mál
Unnið hefur verið að ýmsum málum frá síðasta sveitarstjórnarfundi. Meðal annars sat ég fund í framkvæmdastjórn Héraðsnefndar Þingeyinga. Sveitarstjórn hefur samþykkt að skipuð verði sameiginleg barnaverndarnefnd aðildarsveitarfélaga Héraðsnefndar Þingeyinga.  Undirbúningur er hafinn að breytingum á húsnæði þar sem gamli leikskólinn var og er nú hluti af hreppsskrifstofunni. Þar verður opið skrifstofurými og hafa nokkrir aðilar sýnt því áhuga.  Búið er að semja við ráðgjafafyrirtækið Alta um að ljúka við stefnumótun í ferðaþjónustu og koma henni inn í aðalskipulag Skútustaðahrepps. Sú vinna er komin af stað. Fundað var með fulltrúum Viðlagatryggingu Íslands um vátryggingu opinberra mannvirkja. Þá vek ég athygli á auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins frá Uppbyggingasjóði Norðurlands sem augýsir eftir umsóknum. Hlutverk sjóðsins er að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni, auk þess veitir sjóðurinn stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar n.k.

Sem fyrr er hér stiklað á stóru.  Ætlunin er að pistill sveitarstjóra birtist tvisvar í mánuði, í kjölfar sveitarstjórnarfunda.

Bestu kveðjur Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri