Svartsýnni í dag en í gær

0
92

Afleiðingar veðurhamsins sem gekk yfir Norðurland í byrjun vikunnar halda áfram að koma fram. Í gær var nokkrum fjölda lamba úr Mývatnssveit lógað í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Um var að ræða lömb sem hafð tekist að bjarga tiltölulega fljótt úr hremmingum og ríkti ákveðin bjartsýni um að þau væru tæk til slátrunar, enda liggur mikið við að létta á húsum og högum bænda. Því miður kom í ljós að í hluta dilkanna mælist stress og slíkt kjöt er ekki hæft til manneldis. Það verður því að farga kjötinu  og gefa fé lengri tíma til að jafna sig.

Fé tekið á hús í Baldursheimi í Mývatnssveit.
Mynd: Margrét Þóra Þórsdóttir.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ólafur Jónsson héraðsdýralæknir Norðausturumdæmis var á Húsavík í gær og fylgdist með slátruninni. „Þetta voru lömb sem hafði náðst fljótlega til. Þau voru augljóslega þreytt en það var ekkert að sjá á skrokkunum þegar búið var að hengja þá upp. Hins vegar er orðið ljóst núna að þetta er að koma niður á gæðum kjötsins, það kemur fram stress í kjötinu. Mælingar hafa sýnt það í morgun og þetta kjöt er auðvitað tekið frá og fer ekki á markað, það er mikilvægt að það komi skýrt fram.“

Ólafur ræddi við Þórarinn Pétursson formann Landssamtaka sauðfjárbænda í morgun um stöðuna  og fyrir dyrum stendur  símafundur með yfirdýralækni og starfsfólki Matvælastofnunar. „Það er greinilegt að þau lömb sem við töldum að hefðu komist með minnstu hnjaski frá þessum ósköpum eru þreytt, það er að koma niður á kjötgæðum  og þá getum við alveg sagt okkur hvernig þetta er með önnur lömb sem hafa lent í meiri hrakningum. Þessi lömb þurfa hvíld og það er næsta verkefni að sjá hvernig það verður best leyst. Við erum að tala um einhverja daga á húsi, áður en hægt verður að slátra. Við verðum að þreifa okkur áfram með þetta en þrjá til fjóra daga þarf að lágmarki til að það fé sem náðist fljótt til jafni sig. Það fé sem lenti hins vegar í mestum hrakningum, sem var grafið upp úr fönn uppi á heiðum og þurfti að flytja í bílum auk annars, það þarf hálfan mánuð til að jafna sig á þessu. Almennt tel ég líka að fé sem að fennti ekki hafi víða hrakist um undan vindi og slyddu þannig að það er víða þreytt. Þetta er mín sýn á ástandið núna, ég er sem sagt svartsýnni núna en ég var í gær.“

Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda segir að þar hyggist menn fara fram á það við Matvælastofnun að sendur verði liðsauki dýralækna norður í land til að hjálpa til við að meta fé og hjarðir bænda með það að markmiði að hægt verði að senda í slátrun sem fyrst það fé sem virðist vera í lagi. Ljóst er að ekki er til húspláss fyrir allt það fé sem bjargað verður og sömuleiðis  vantar haga fyrir þann mikla fjölda fjár sem kemur til byggða þessa daga. Halldór Runólfsson yfirdýralæknir Matvælastofnunar segir að ekki hafi borist formleg beiðni þessa efnis en við því verði reynt að bregðast eins og hægt er.  Vefur Bændablaðsins