Svar til Atla Vigfússonar

0
74

Nú hefur þú ritað þrjár greinar og birt á 641.is og í Skarpi um skólamál í Þingeyjarsveit. Þar hefur þú sett fram gagnrýni á sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í eina stofnun, Þingeyjarskóla. Bæði hefur þú gagnrýnt hvernig að sameiningunni var staðið á árunum 2011 og 2012 og eins hvernig hefur tekist til.

Ólína Arnkelsdóttir
Ólína Arnkelsdóttir

Mér er ljúft og skylt að svara þér og ætla að freista þess í greinarkorni. Fyrst er að upplýsa þig um ákvarðanatöku og stjórnsýslu. Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 20. október 2011 var bókað eftirfarandi: „Sveitarstjórn samþykkir að Hafralækjarskóli og Litlulaugaskóli verði sameinaðir í eina stofnun með tveimur starfsstöðvum. Þessi breyting taki gildi frá og með 1/8 2012. Skipaður verður starfshópur til að undirbúa breytinguna.Stórutjarnaskóli starfi áfram sem sérstök stofnun. Samþykkt samhljóða.“ Á fundi sveitarstjórnar 3.nóvember var svo skipað í starfshópinn. Fulltrúar sveitarstjórnar funduðu með starfsfólki, foreldrum og nemendum Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla til að útskýra þessara ákvörðun og markmið hennar. Einnig var ákvörðunin rædd og kynnt fyrir fulltrúum Norðurþings sem var í samstarfi um rekstur Hafralækjarskóla skv. þágildandi samningi þar um. Tjörneshreppur fór út úr samstarfinu á árinu 2009 en þá var ekkert ungmenni á grunnskólaaldri á Tjörnesi.
Starfshópur um sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla tók til starfa skv. settu erindisbréfi og hélt 5 fundi og fundargerðir hans voru birtar á heimasíðu sveitarfélagsins eins og aðrar fundargerðir. Starfshópurinn skilaði síðan af sér til sveitarstjórnar tillögum sem ég birti hér ásamt umræðum þegar þær voru teknar fyrir í sveitarstjórn 8. mars 2012. Sama dag, 8. mars 2012 voru tekin fyrir drög að nýjum samningum milli Þingeyjarsveitar og Norðurþings og bókað eftirfarandi:
„Lögð fram drög að þremur samningum; kaupsamningur milli Þingeyjarsveitar og Norðurþings um eignarhluta Norðurþings í Hafralækjarskóla og Ýdölum í Aðaldal, samkomulag um slit á samningi milli Þingeyjarsveitar og Norðurþings um rekstur Hafralækjarskóla í Þingeyjarsveit og Þjónustusamningur vegna nemenda úr Norðurþingi sem stunda nám í Hafralækjarskóla. Ólína gerði grein fyrir drögunum.
Sveitarstjórn felur oddvita og varaoddvita að ganga frá samningunum við Norðurþing á grundvelli fyrirliggjandi draga.“
Hér kemur svo tillaga starfshóps ásamt bókunum sveitarstjórnar við afgreiðslu tillögunnar:
„Tillaga til sveitarstjórnar frá starfshópi um sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla:
Starfshópur var skipaður af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 3. nóvember 2011 og skyldi hlutverk hans samkvæmt erindisbréfi vera að leggja til leiðir við sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í nýja stofnun með tveimur starfsstöðvum frá 1. ágúst 2012.
Starfshópurinn hefur haldið 5 fundi og leitað upplýsinga og ráða hjá Kennarasambandi Íslands, Framsýn, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Acta lögmannsstofu. Þau álit fylgja með eftirfarandi tillögu starfshóps til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar.
„Tillaga starfshóps til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar:
Starfshópurinn leggur til að farin verði sú leið við að sameina Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í eina stofnun að um samruna tveggja stofnana sé að ræða . Sú stofnun fái nýtt nafn og nýja kennitölu.
Með samrunanum er horft til þess að hægt verði að þróa aukið samstarf nemenda, starfsfólks og foreldra á þessum tveimur starfsstöðvum. Við þá þróun verði hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi. Með samrunanum verði sköpuð aukin tækifæri til að bæta stöðu nemenda námslega og félagslega.
Lagt er til að beitt verði ákvæðum laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum sem almennt vernda hag starfsfólks. Starfsfólk færist þá yfir til nýrrar stofnunar án uppsagnar enda er það heimilt skv. þeim upplýsingum sem starfshópur hefur aflað sér. Sjá einnig meðfylgjandi greinargerð.
Fengin verði aðstoð við sameininguna hjá Acta lögmannsstofu, Berglindi Svavarsdóttur hdl., sem hefur verið starfshópi til aðstoðar.
Stjórnskipulag nýrrar stofnunar. Áfram verði aðstoðarskólastjórar grunnskóladeilda, deildarstjórar leikskóladeilda og deildarstjórar tónlistardeilda. Aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar heyra beint undir skólastjóra, en í forföllum skólastjóra leysa aðstoðarskólastjórar hann af á sinni starfsstöð. Í forföllum skólastjóra heyra þannig deildarstjórar tónlistardeilda og leikskóladeilda undir aðstoðarskólastjóra á hvorum stað. Störf stjórnenda verði endurskilgreind og starfslýsingar og ábyrgð þeirra liggi ljós fyrir 1. ágúst 2012. Skólastjóri tekur endanlega ákvörðun um starfssvið og ábyrgð þessara millistjórnenda.
Varðandi nafn á nýja stofnun leggur starfshópur til nafnið Menntastofnun Þingeyjarsveitar og sem undirnöfn núverandi nöfn skólanna. Til vara leggur hópurinn til að haldin verði samkeppni um nafn á nýja stofnun.
Greinargerð með tillögu: Starfshópurinn er einhuga um þessa tillögu í heild sinni, nema hvað varðar yfirfærslu starfsmanna í efstu stjórnunarlögum yfir til nýrrar stofnunar. Starfshópurinn vísar því til sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hugsanlegar uppsagnir og ráðningar í efstu stjórnunarlögum þar sem einstaklingar innan starfshópsins eru vanhæfir til þeirrar ákvarðanatöku.
Starfshópur beinir því til sveitarstjórnar að hún tilgreini nánar hvaða ávinningur á að nást með samrunanum.“
Umræður.
Tillaga fulltrúa N-lista:
„Við samþykkjum þær tillögur starfshóps sem einhugur var um. Er ljóst að þar sem litlar breytingar felast í tillögu hópsins og ákvörðun sveitarstjórnar koma miklar skipulagsbreytingar í hlut skólastjórans. Svo miklar að inntak starfsins tekur verulegum breytingum. Leggjum við því til að störf undirstjórnenda séu óbreytt en auglýst verði eftir nýjum skólastjóra.“
Tillagan felld með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Tillaga fulltrúa A-lista:
„Sveitarstjórn samþykkir það sem starfshópur leggur til og að engum starfsmanni verði sagt upp við sameiningu skólanna í eina stofnun. Samþykkt að vísa ákvörðun ásamt tillögu til skólaráða Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla til umsagnar.“
Tillaga samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Fulltrúar N-listar leggja fram eftirfarandi bókun:
„Minnihlutinn harmar ákvörðun meirihluta um hvernig staðið er að sameiningu Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla, enda óljóst hvaða ávinningur eigi að nást með samrunanum þegar engar breytingar eiga sér stað þ.m.t. engar breytingar á efsta stjórnunarlagi skólans.“

Ekki barst umsögn frá skólaráði Litlulaugaskóla en eftirfarandi umsögn frá skólaráði Hafralækjarskóla var tekin fyrir í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 12. apríl 2012 og bókað eftirfarandi: „Lögð fram umsögn skólaráðs Hafralækjarskóla frá 21.03.2012 um tillögu sveitarstjórnar og starfshóps um sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla sem afgreidd var á fundi sveitarstjórnar 8. mars s.l.
Umsögn skólaráðs Hafralækjarskóla:
„Skólaráð telur skynsamlegt að sameina skólana í eina stofnun. Ráðið telur mjög brýnt að skólastjóri sameinaðrar stofnunar komi sem fyrst til starfa og vinni að skipulagi næsta vetrar. Einnig telur skólaráð að skóladagatal grunnskólans þurfi að vera sameiginlegt með starfsstöðvunum. Skólaráð sér hagsmuni í því fyrir nemendur að félagslíf verði sameiginlegt svo og valgreinar á unglingastigi. Einnig telur skólaráð góða möguleika felast í því að samkenna milli starfsstöðva íþróttir, list- og verkgreinar og nýta þannig sem best þá aðstöðu sem völ er á.“
Sveitarstjórn þakkar umsögnina.“
Fræðslunefnd fjallaði um sameininguna og má sjá þá umfjöllun í fundargerðum fræðslunefndar á heimasíðunni.

Þá hef ég farið yfir stjórnsýslu þessarar ákvörðunar um að sameina Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í eina stofnun með tveimur starfsstöðvum. Ég geri mér grein fyrir því að allt orkar tvímælis það gert er, en finnst slæmt að þú teljir Atli að stjórnsýslunni hafi verið ábótavant í málinu. Nánast allt sem ég hef farið yfir hér að framan eru bókanir sveitarstjórnar af þessu ferli. Fundargerðir sveitarstjórnar eru birtar á heimasíðu sveitarfélagsins og fara einnig í dreifingu í Hlaupastelpunni. Fundargerðir nefnda og starfshópa eru birtar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Í síðustu grein þinni sem birtist á 641.is síðastliðið sunnudagskvöld gerir þú að umtalsefni eins og í fyrri greinum að óvissa sé um hvort eigi að sameina skólana á einum stað. Þarna erum við öldungis ósammála og ég bið þig að lesa aftur tillögu starfshóps og bókanir sveitarstjórnar. Ákvörðun var tekin um að sameina Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla í eina stofnun með tveimur starfsstöðvum. Þessi ákvörðun stendur. Enginn veit nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér, ekki ég og ekki þú Atli. Mun nemendum fækka stórlega frá því sem nú er? Mun þeim fækka hlutfallslega jafn mikið og fækkunin varð á árabilinu 2001- 2011? Verða um 40 nemendur á hvorri starfsstöð eftir 10 ár? Verða þeir 15? Eða munum við sjá fjölgun nemenda? Ég hef þá trú að skóli sé ekki hús heldur starfsemi. Starfsemi sem verður að vera það sveigjanleg að hún geti fylgt breytingum sem verða á nemendafjölda svo og breytingum sem gerðar eru á lögum og reglugerðum og öðrum þeim breytingum, innri og ytri sem upp koma.
Eins vitum við bæði Atli, að á fjögurra ára fresti er kosið til sveitarstjórna. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á fræðslumálum og ekki er hægt að fullyrða um það hvaða stefnu sveitarstjórnir munu hafa mörg kjörtímabil fram í tímann.

Þú gerir einnig að umtalsefni nafngift Þingeyjarskóla og telur hana fara á svig við gamlar hefðir þingeyskar. Fræðslunefnd lagði til að haldin yrði opin samkeppni í sveitarfélaginu um nafn á sameinaðan skóla. Það var gert. Niðurstöður þeirrar nafnasamkeppni voru teknar fyrir á fundi fræðslunefndar 22.júní 2012 og bókað eftirfarandi:
„13 nöfn bárust í hugmyndasamkeppnina. Voru þau eftirfarandi: Dalaskóli, Farskóli, Grunnskóli Þingeyjarsveitar, Iðuskóli, Kátiskóli, Laugalækjarskóli, Lækjarskóli, Skemmtiskólinn í Þingeyjarsveit, Vatnshlíðarskóli, Þingdalaskóli , Þingeyjarskóli, Þingskóli. Fundarmenn fóru yfir tillögurnar og fékk Þingeyjarskóli flest atkvæði og Dalaskóli næst flest. Fundurinn leggur þessar 2 tillögur fyrir sveitarstjórn og þakkar öllum sem lögðu inn tillögur. „
Niðurstaðan var síðan Þingeyjarskóli.

Í grein þinni segir þú eftirfarandi:“ Sé það ekki ætlunin að stofna einn skóla í sama skólahúsnæðinu er miklu betra að láta ferlið ganga til baka frekar en að standa í sífelldum keyrslum með börnin á milli skóla.“ Á haustönn 2013 fara börn starfsstöðvar Litlulaugaskóla einu sinni í viku í Hafralækjarskóla og nýta þá meðal annars aðstöðu í Hafralækjarskóla til verklegs náms í smíðum og heimilisfræðum. Börn starfsstöðvar Hafralækjarskóla fara tvisvar í viku í Litlulaugaskóla og nýta þá meðal annars sund- og íþróttaaðstöðu. Einnig eru valgreinar á unglingastigi sameiginlegar með starfsstöðvunum og fara fram í Litlulaugaskóla þá Hafralækjarskólanemendur eru þar. Nemendur kynnast og vinna saman að úrlausnarefnum sínum.
Ef áhyggjur þínar snúa að auknum skólaakstri og viðveru barna í skólabílum með samstarfi starfsstöðvanna vil ég benda þér á að ef starfsstöðin væri ein yrðu nemendur hinnar starfsstöðvarinnar að bæta við sig viðveru í skólabílum fimm daga vikunnar.
Ég get verið þér fyllilega sammála í því að skólar þurfi sífellt að þróa og þroska vinnuaðferðir og að enginn skóli sé svo góður að ekki megi gera betur. Þetta hefur verið, er og verður alltaf viðfangsefni skólastarfs allstaðar á öllum tímum. Einnig samstarf heimila og skóla, samstarf starfsfólks og nemenda og svo mætti lengi telja.

Þú klykkir síðan út með því að tilkynna þeim sem skólamálum ráða í Þingeyjarsveit að þeir þurfi að gera upp við sig hvert stefnir í þróun skólastarfsins. Vona að þetta greinarkorn gefi þér einhverjar upplýsingar þar um. Vona einnig að áhyggjur þínar af fræðslumálum og stjórnsýslu í Þingeyjarsveit minnki með hækkandi sól.
Með góðri kveðju,
Ólína Arnkelsdóttir, oddviti.