Svar til Arnar Byström frá meirihlutanum í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar

0
726

Í upphafi er rétt að geta þess að við getum ekki svarað fyrir sveitarstjórnina í heild heldur eru þau svör sem hér fara á eftir á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar, fulltrúa A-lista.

Hvað varðar tilvísun þína til Bjarna fjármálaráðherra vegna 25 milljóna rekstrarafgangs í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 getum við vonandi verið sammála um að rekstrarafgangur er jákvæður í sjálfum sér hvað sem Bjarna líður. Við teljum að þessi áætlun sé varkár og ábyrg og spyrjum að leikslokum. Það sem er mikilvægast er að rekstur sveitarfélagsins hefur farið batnandi síðustu ár og skuldir eru að lækka.

Auðvitað verður íbúafundur eða fundir fyrir kosningar svo hefur verið frá stofnun Þingeyjarsveitar og ekki ástæða til breytinga þar á.

Hvað varðar upplýsingastreymi teljum við að ekki hafi verið haldnir fleiri íbúafundir á nokkru kjörtímabili frá upphafi okkar víðlenda sveitarfélags. Eins hefur verið boðið upp á viðtalstíma sveitarstjóra, oddvita og annarra kjörinna fulltrúa. Kynningarfundir um skipulagsmál hafa verið haldnir. Þá eru sveitarstjórnarfundir opnir – og fundargerðir birtar sérstaklega í Hlaupastelpunni. Heimasíða sveitarfélagsins er aðgengileg þar sem hægt er að nálgast allar fundargerðir og annað sem tengist málefnum sveitarfélagsins. Einnig hefur sveitarstjóri birt bréf til íbúa um málefni sveitarfélagsins í Hlaupastelpunni og á heimasíðu sveitarfélagsins Upplýsingastreymið hefur því aukist verulega frá því sem var þó eflaust megi alltaf gera betur.

En víkjum að spurningum þínum:

  1. Það er stefna meirihluta sveitarstjórnar að reka tvo grunnskóla í sveitarfélaginu. Þingeyjarskóla á Hafralæk og Stórutjarnaskóla við Stórutjarnir. Auk þess að reka áfram þær þrjár leikskóladeildir sem nú eru starfandi og þær tvær tónlistardeildir sem nú starfa. Stefnan er að búa nemendum og starfsfólki í þessum stofnunum sem best starfsumhverfi og erum við reiðbúin til að leggja nokkuð til að svo verði.

Er hún fullmótuð til framtíðar spyrð þú. Þetta er sú stefna sem við höfum fylgt og munum fylgja í aðdraganda kosninga og á næsta kjörtímabili fáum við til þess stuðning.

  1. Eins og fram kemur í svari eitt gerum við ráð fyrir að annar grunnskóli sveitarfélagsins verði í fyrrum húsnæði Hafralækjarskóla.
  2. Upphafleg kostnaðaráætlun við breytingar vegna sameiningar starfsstöðva Þingeyjarskóla var 40.000.000 en endanlegur kostnaður, að frádregnu eðlilegu viðhaldi burtséð frá sameiningu , er rúmar fjörutíu og níu milljónir.
  3. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur ekki tekið neina ákvörðun um uppbyggingu á sundlaug Þingeyjarskóla. Ekki hefur borist  formlegt erindi um uppbyggingu laugarinnar, né hefur verið unnin formleg kostnaðaráætlun um uppbyggingu hennar. Laugin er á forræði skólans og því er það stjórnenda skólans að ákveða hvernig skólinn nýtir best það viðhaldsfé sem honum er úthlutað.
  4. Það er ekki á stefnuskrá meirihluta sveitarstjórnar að byggja grunnskóla á Laugum og því hefur ekki verið gerð kostnaðaráætlun um þá framkvæmd.
  5. Að höfðu samráði við lögfræðinga og endurskoðendur sveitarfélagsins var ákveðið að selja Hjálparsveitinni í Aðaldal Iðjugerði á bókfærðu verði. Frá byggingartíma til dagsins í dag hefur saga hjálparsveitarinnar verið samofinn húsinu og því má líta á þessa sölu sem stuðning við það mikla og góða starf sem sveitin hefur unnið í almanna þágu í sveitarfélaginu undanfarna áratugi. Fyrir samskonar gjörningum eru fordæmi enda margt virðið í mannlegu samfélagi.

Með góðri kveðju og von um að þú sért nokkru nær.

Arnór, Margrét, Árni Pétur, Ásvaldur og Heiða fulltrúar A-lista í sveitarstjórn