Kvenfélagskonur eru óþreytandi við að finna leiðir til fjáraflana, svo þær geti styrkt góð málefni. Kvenfélagskonur í Fnjóskadal voru í dag, Sumardaginn fyrsta með kaffisölu og tombólu að Skógum. Boðið var uppá ýmiskonar tertur, kex, kökur, pönnukökur, vöfflur og ilmandi kaffi, safa og mjólk. Á meðan gestir nutu veitinganna ræddu menn aðallega tíðarfarið eins og gefur að skilja, pólitík var ekki nefnd á nafn og enginn frambjóðandi var á staðnum.
Margir fallegir og góðir vinningar voru á tombólunni m.a. mikið af vönduðu handverki. Kvenfélagskonur eru núna að safna fyrir hjartastuðtæki sem á að vera til staðar í bíl Björgunarsveitarinnar Þingeyjar. Það er alltaf sjarmerandi að koma heim að Skógum, þessu gamla skólahúsi og þingstað, sem einnig hýsti símstöð og póstafgreiðslu hér áður fyrr. Gaman er að skoða allar þær gömlu kennslubækur, myndir og fleira í húsinu.

gamla kennslustofan hér nær okkur og herbergi skólastjórans fjær.
Guðrún Valgerður sá um tombóluna og greip í prjónana.