Styðja málarekstur Verkalýðsfélags Akraness

0
63

Eftirfarandi samþykkt var gerð á fundi Framsýnar í gærkvöld.

Stjórn Framsýnar samþykkti í gærkvöld að standa heilshugar við bakið á Verkalýðsfélagi Akraness sem ákveðið hefur að láta reyna á það fyrir dómsstólum hvort verðtrygging hér á landi standist lög.

Fyrir liggur að verðtryggingin hefur leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og sem dæmi þá hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað uppundir 400 milljarða frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag.

Meðalverðtryggð skuld íslenskra heimila í dag er í kringum 22 milljónir króna. Að mati Framsýnar er það miskunnarlaust óréttlæti að varpa allri ábyrgð verðtryggingarinnar á skuldsett heimili í landinu, meðan lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir.

Í ljósi þess að eitt af meginverkefnum verkalýðsfélaga í landinu er að standa vörð um heimilin telur Framsýn mikilvægt að fá úr því skorið hvort verðtrygging hér á landi standist lög eða ekki. Þess vegna styður Framsýn málarekstur Verkalýðsfélags Akraness með fjárframlagi kr. 120.000,- og skorar jafnframt á önnur aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands að koma að málinu með sambærilegum hætti. Innan Starfsgreinasambandsins eru 19 aðildarfélög.
Komi þau öll með sambærilega upphæð og Framsýn eru góðar líkur á að hægt verði að kosta málflutninginn að fullu þar sem ekki er ólíklegt að málflutningskostnaður verði nokkuð á þriðju milljón.

Fréttatilkynning.